19.03.1923
Neðri deild: 23. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (551)

24. mál, fjáraukalög 1922

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Háttv. frsm. fjvn. (MP) var að minnast á það, að stjórnin hefði ekki lagt fram fjáraukalög vegna ótta við eyðslu þingsins. Jeg hefi aldrei látið neitt slíkt í ljós, því til þess hefði jeg enga ástæðu haft. Að fjáraukalög fyrir 1923 hafa ekki verið lögð fyrir þingið, kemur til af því, blátt áfram, að málefni hafa ekki legið til þess.

Þar sem háttv. frsm. fjvn. (MP) spurði, hvort nokkrar útborganir upp á væntanlegar aukafjárveitingar hefðu átt sjer stað síðan um áramót, man jeg ekki til, að svo hafi verið. En annars áskil jeg mjer rjett til að bíða með svarið við þessu, þangað til jeg get svarað alveg ákveðið. Eins verð jeg að segja, að jeg veit ekki til, að stjórninni hafi enn sem komið er borist svo margar kröfur um fjárframlög, að til sje efni í fjáraukalög. Getur vel verið, að háttv. nefnd viti um eitthvað af slíku tægi, sem mjer er enn ekki kunnugt um. Hvað brimbrjótnum í Bolungarvík viðvíkur, hefir það mál enn þá ekki komið fyrir mig, enda þótt jeg viti um, að það muni vera á döfinni. Fleira held jeg að jeg hafi ekki að segja að sinni.