21.03.1923
Neðri deild: 25. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

24. mál, fjáraukalög 1922

Sigurður Stefánsson:

Jeg vil fara nokkrum orðum um fjárveitinguna til brimbrjótsins í Bolungarvík, sem orðið hefir að nokkru ágreiningsefni millum fjárveitinganefndar og hæstv. stjórnar. Skal jeg strax taka fram, að hjer er hvorki rjett að áfellast hæstv. stjórn nje háttv. fjvn., því að hvortveggja hefir mikið til síns máls.

Hv. fjvn. hefir skýrt frá, að verkfræðingurinn hafi talið það hættuspil að gera við garðinn, og er því eigi nema eðlilegt, að fjvn. fyndist skakt ráðið að gera það engu að síður.

Mundi háttv. fjvn. ekki hafa fundið að viðgerðinni, ef ekki hefði svona illa til tekist; er því engin ástæða að áfellast hana.

En þegar hæstv. stjórn var beðin um þessa fjárveitingu, stóð nokkuð öðruvísi á. Þá lagði verkfræðingurinn til, að skarðið, sem var í garðinn, væri fylt upp, og umboðsmaður hans árjettaði þetta og telur, að meira geti að orðið og meiri skemdir, ef garðurinn er óviðgerður, þegar vetrar að og meiri brima er von.

Til þessara till. tók hreppsnefndin fullmikið tillit, en stjórnin er vítalaus, þótt hún fari eftir tillögum þeirra, sem fyrir verkinu stóðu. Var hjer um mikið mannvirki að ræða, sem varið hafði verið til of fjár. Sá stjórnin því, að ilt var, að verk þetta eyðilegðist fyrir slæman frágang. Enda víst, að henni mundi hafa verið legið á hálsi, ef hún hefði ekkert fje veitt og svo væri komið sem komið er.

En svo skildi jeg háttv. frsm. (MP), að nefndin mundi hafa nauðsyn Hólshreppinga fyrir augum, og gjarnan vilja styðja að því, að styrkur sje veittur til viðgerðar þeim skemdum, sem nú eru orðnar á brimbrjótnum, en fáist styrkur, er hin mesta nauðsyn á, að sem fyrst sje byrjað á verkinu. Mun tjónið í haust nokkuð hafa stafað af því, að steinsteypan var ekki hörðnuð, er haustbrimið kom. Til þessa þarf aukafjárveitingu. Skildi jeg líka hæstv. forsrh. (SE) svo, að hann skoraði á hæstv. fjrh. (MagnJ) að leggja það fyrir þingið. Jeg skal ekki fara mörgum orðum um þörfina á þessu verki; aðeins geta þess, að þessi lendingarbót er nú að miklu ónýt. Lendingin illfær nema í ládeyðu og logni.

Jeg hjó eftir því, að í símskeyti til stjórnarinnar hefði verkfræðingurinn sagt, að verkið gengi ágætlega. En sannleikurinn var sá, að verkið gekk hraklega, sem stafaði af afglöpum manns þess, er fyrir því stóð. Gekk eitt sinn heil vika í að bæta það, sem mistekist hafði fyrir klaufaskap hans og hroðvirkni. En um þetta hefir Krabbe ekki vitað, og er því ekki hjer um nein vísvitandi ósannindi hjá honum að ræða.

Er jeg viss um, að ef stjórnin hefði haft hugboð um, að svona mundi ganga, þá hefði henni ekki komið til hugar að veita fjeð, og einnig er jeg viss um, að hreppsnefndinni hefði ekki dottið í hug að hreyfa við verkinu undir umsjón þessa manns, ef hún hefði vitað, hve ófær hann var til að standa fyrir því. Er enginn efi á, að framkvæma hefði mátt verk þetta fyrir 38 þús. kr., sem var áætlun Krabbe. Er því ekki um skakka áætlun hjá honum að ræða, heldur um frámunaleg mistök og hirðuleysi umboðsmanns hans, sem alt þetta tjón stafar af.

Geymi jeg svo frekar að minnast á þetta, því frestur er á illu bestur.