23.03.1923
Neðri deild: 27. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (562)

24. mál, fjáraukalög 1922

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Það er nú farið að fyrnast svo yfir þær sakir, sem jeg kann að hafa átt við hæstv. stjórn og ýmsa háttv. deildarmenn, að jeg get farið fljótt yfir sögu, ef vera mætti, að umræðunni yrði lokið á þessum fundi.

Þar sem hæstv. forsrh. (SE) er ekki kominn, vil jeg doka við eftir honum, og víkja máli mínu til háttv. þm. Reykv. og taka þá alla í einu lagi. Þeir hafa allir staðið upp og haldið langar ræður í tilefni af meinlausri tillögu um að afla tekna til kirkjugarðsins með því að hækka legkaupið. Þeir hefðu gjarnan mátt bíða þangað til sú tillaga kæmi til ályktunar á Alþingi. Í þessu sambandi vil jeg benda hæstv. stjórn á eitt atriði, sem ekki hefir komið fram enn þá. Mjer hefir verið skýrt svo frá, að sóknarnefndin í Reykjavík hafi gert þá tillögu til stjórnarráðsins, að hæsta legkaupi yrði beitt meir en gert hefir verið. Nú verða menn að greiða 16 kr. fyrir að tryggja sjer grafreit. Sóknarnefndin hefir skilið það ákvæði svo, að menn hefðu þegar trygt sjer grafreit, er legsteinn væri settur á hann, og lagt til við hæstv. stjórn, að þá yrði krafist hæsta gjalds. Þetta hefir ekki verið gert, en jeg hygg, að það muni heimilt lögum samkvæmt. Og jeg veit til þess, að svo er álitið í öðrum löndum, þar sem svipuð ákvæði eru í lögum.

Hæstv. fjrh. (MagnJ) hefir enn ekki gefið ákveðið svar um það, hvort lagt verði fyrir þetta þing frv. til fjáraukalaga fyrir þetta ár. Jeg geri ráð fyrir, að stjórninni sjálfri sje kunnugt um, hvort nokkrar fjárveitingar eru fyrir hendi, er geri það nauðsynlegt. Jeg vil benda á, hvort ekki þurfi aukafjárveitingu til brimbrjótsins í Bolungarvík. Auk þess býst jeg við, að eitthvað þurfi að greiða til ræktunartilraunanna á Mosfelli. Það verk er enn í byrjun, og eftir áætlun Búnaðarfjelags Íslands vantar enn mikið á, að það sje fullgert. Ef ljúka á því verki á þessu sumri, mun vafalaust þurfa aukafjárveitingu. Þar sem ekki hefir komið afdráttarlaust svar frá hæstv. stjórn í þessu efni, en hún hins vegar tekið dauflega í það, vænti jeg, að hún gefi skýlaust svar á þessum fundi.

Þó að hæstv. forsrh. (SE) sje ekki viðstaddur, verð jeg að víkja nokkrum orðum að honum. Hann virtist mjög hróðugur yfir því, að hann gæti gert fjvn. síðasta þings samseka stjórninni í ýmsum atriðum í frv. þessu, þar sem hún hefði verið meðmælt sumum gjaldaliðunum. Jeg hygg þetta misskilning hjá hæstv. forsrh. Nefndin fór þá leið, þegar engin fjáraukalög fyrir árið 1922 komu fram, eins og gerðabók hennar ber með sjer, að hún sendi stjórninni þau erindi, er hún taldi eiga að koma í fjáraukalög, ef sint yrði. Hæstv. fjrh. (MagnJ) kom á fund með nefndinni, og varð árangurinn af þeim fundi sá, að þessi mál voru afgreidd á sama hátt sem önnur erindi; það var látið koma undir atkvæði, sem einhver nefndarmanna vildi taka upp. Var stjórninni síðan skýrt frá, hver úrslit hefðu orðið um hvert atriði. Af þeim fjárveitingum, sem voru afgreiddar á þennan hátt, er einungis ein tekin upp í fjáraukalagafrv. stjórnarinnar, og var sá liður samþyktur með 3 atkvæðum gegn 2. Aftur hefir stjórnin ekki tekið upp annan lið, er samþ. var í nefndinni í einn hljóði. Stjórnin hefir því í þessu máli farið sínar leiðir, svo sem rjett er. En ekki verður fjvn. ásökuð, þó að hún hafi gert skyldu sína í þessum málum, þar sem hún tók þau til meðferðar á venjulegan hátt og afgreiddi til stjórnarinnar, þegar var um seinan að bera þau undir þingið.

Vegna brtt. háttv. þm. Barð. (HK) vil jeg leyfa mjer að skjóta því til hans, hvort við getum ekki komið okkur saman um að mælast til þess við hæstv. forseta (BSv), að hvorki brtt. hans á þskj. 182 nje nefndarinnar á þskj. 70. 1. liður. komi til atkvæða við þessa umr. Kysi jeg fremur, að þessar brtt. yrðu geymdar til 3. umr. og að nefndin fengi tækifæri til að ræða um þær áður við háttv. þm., og ef til vill komið á málamiðlun.