23.03.1923
Neðri deild: 27. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (564)

24. mál, fjáraukalög 1922

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg hefi eiginlega litlu að svara. umfram það, sem hæstv. fjrh. (MagnJ) tók fram. Eina málið, sem komið geti til greina í þessu efni, er brimbrjóturinn í Bolungarvík: en eins og tekið var fram, getur sú fjárveiting komið í fjárlögin fyrir 1924. Sama má segja um Breiðafjarðarbátinn Svan. Ef fjárveiting til hans er ekki tekin upp í fjáraukalögin 1922, má veita hana í fjárlögum fyrir næsta ár. Um ræktunartilraunirnar á Mosfelli hefir mjer skilist, að ekki komi til frekari útgjalda til þeirra á þessu ári. Meðan háttv. frsm. (MP) hjelt ræðu sína átti jeg tal um þetta við forseta Búnaðarfjelags Íslands. Kveðst hann ekki geta sagt um þetta að svo stöddu, fyr en hann viti um afdrif frv. eins, er hann hefir samið og nú liggur fyrir landbúnaðarnefnd. En þar sem það frv. er ekki komið úr nefndinni enn þá, má búast við, að það verði ekki útrætt á þessu þingi. En ef til kemur, má taka fjárveitingu til þessa upp í fjárlögin 1924, og þar sem þessu víkur þannig við, sje jeg ekki, að nú sje þörf á fjáraukalögum fyrir þetta ár.