28.03.1923
Neðri deild: 31. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

24. mál, fjáraukalög 1922

Stefán Stefánsson:

Við 2. umr. þessa máls hreyfði hv. frsm. fjvn. (MP) þeirri spurningu til stjórnarinnar, hvort ekki yrðu lögð fram fjáraukalög fyrir yfirstandandi ár. Svar stjórnarinnar var á þá leið, að þar eð brýn nauðsyn ræki ekki til þess, yrði það ekki gert. Þetta svar stjórnarinnar þótti mjer allundarlegt, þar sem jeg hafði oft haft tal af hæstv. stjórn, einkum hæstv. forsrh. (SE), og spurt nei, hvort hún sæi leið til, að hjá því yrði komist að leggja fram fje til aðgerðar sjóvarnargarði á Siglufirði. Á þingmálafundi á Siglufirði var þetta fyrsta málið, sem tekið var til meðferðar og ályktað um, og með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa upp nokkur orð úr þeirri fundarsamþykt, sem er tillaga svo hljóðandi:

„Fundurinn skorar á alþingismenn Eyjafjarðarsýslu að fá því framgengt við þing og stjórn, að varið verði úr ríkissjóði nægilegu fje til viðgerðar varnargarði þeim, sem ríkissjóður hefir látið gera norðan með Siglufjarðareyri, og til byggingar minni garðs niðri í flæðarmálinu. Telur fundurinn garðinn nú nær aleyddan og hættu á, að kaupstaðarlandið, sem er eign ríkisins. eyðist á fáum árum, ef ekkert er að gert í sumar. Vegna brima hjer er nauðsynlegt, að verk þetta byrji ekki síðar en í júní næsta sumar.“

Tillagan var samþykt með 52 samhljóða atkvæðum.

Nú er svo komið, eins og áður hefir við borið, að garðurinn hefir bilað, og það enn meira en nokkru sinni áður, enda má svo heita, að á hverju hausti verði stórtjón af sjógangi inn á bæjarlóðirnar, sem stafar af því, hve hrapallega hefir til tekist með byggingu sjóvarnargarðsins. Að vísu skal jeg ekki segja neitt um það, hve fljótt eyrin kann að eyðast með öllu af sjávargangi, er sumir hafa verið að leiða getur að, en hitt er víst, að árlega verða þarna stórskemdir, og þar af leiðandi fjártjón á eignum manna. Og þar sem jeg hafði nú hreyft þessu máli við stjórnina og lýst ástandinu, hjelt jeg, að hún sæi sjer ekki annað fært en að leggja til við þingið, að fje yrði veitt í fjáraukalögum til þessa og ýmsra annara hluta, sem ekki yrði undan komist, á yfirstandandi ári. Og til frekari skýringar um afstöðu Siglfirðinga í þessu falli, þá munu þeir fúsir til að leggja eitthvað af mörkum til þessa verks, verði það framkvæmt.

Tilmæli mín til hæstv. stjórnar eru því þau, að hún beri fram tillögu eða frv. til fjáraukalaga um, að fje verði lagt fram úr ríkissjóði til endurbóta og byggingar sjóvarnargarðinum á Siglufjarðareyri.