09.04.1923
Efri deild: 35. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í B-deild Alþingistíðinda. (578)

24. mál, fjáraukalög 1922

Jónas Jónsson:

Sumt af því, sem jeg ætla mjer að segja um þetta mál, verður að nokkru leyti endurtekning á því, sem hátt v. frsm. ( EÁ ) hefir sagt.

Í raun og veru var eigi nema ein leið fyrir nefndina í máli þessu, en hún var sú, að segja já og amen. því allar fjárhæðirnar í frumvarpinu eru þegar greiddar. nema ein. Og það má segja það, að flestar hafi fjárgreiðslurnar verið nauðsynlegar og sumar lofsamlegar. Jeg vildi þó leyfa mjer að beina þeirri spurningu til hæstv. forsrh. (SE). hvort hann geti eigi hugsað sjer, að það hefði mátt fara öðruvísi að hvað viðvíkur byggingu prestssetursins á Mælifelli. Er ómögulegt að neita því, að ef verja skal úr ríkissjóði 30 þúsundum króna til þess að endurreisa hvert prestssetur, er brennur eða hrörnar, þá er það dýr saga. Getur slíkt oft komið fyrir, enda eru sum prestssetur á landi hjer í hörmulegu ástandi, og nægir í því sambandi að minna á Bergþórshvol. En fjárhagur landsins leyfir ekki margar slíkar byggingar. Hefði eigi verið úr vegi að athuga, hvort einhver bóndi í sókninni hefði verið fáanlegur til þess að lofa prestinum að búa hjá sjer. Tel jeg eigi ósennilegt, að fengist hefðu samningar við einhvern um þetta. Það er eigi mitt álit, að þessi eina fjárveiting verði til þess að setja landið á hausinn, en hættan er, að fleiri slíkar fjárv. renni í sama farið.

Þá vildi jeg minnast nokkrum orðum á fjárveitinguna til kirkjugarðsins í Reykjavík. Álít jeg það hina mestu nauðsyn að takmarka fjárgreiðslu til hans, enda er það athugunarvert, hvort eigi sje rjett að koma með frv. um hækkun legkaupsins. Væri þá rjettast, að hæstv. landsstjórn kæmi fram með það frv. Að vísu má segja, að eigi sje um legkaup að ræða annarsstaðar á landinu en í Reykjavík, en legkaup þetta er hverfandi lítill liður í þeim gífurlega útfararkostnaði, sem á sjer stað hjer í bænum. Er óhætt að segja, að meðaljarðarför kosti um 700 krónur. Þar af leiðir, að þó að legkaupið hækki eitthvað, þá verður það þó altaf lítill hluti af hinum mikla kostnaði við jarðarfarirnar. Annars væri rjettast að koma fram með frv. á þessu þingi, sem væri miðað við, að kirkjugarðurinn bæri sig. Held jeg, að sú hækkun á legkaupi, sem slík lög hefðu í för með sjer, yrði ei tilfinnanleg, þar sem það er hverfandi kostnaður við útfarir. Finst mjer að Reykvíkingar ættu að gera jarðarfarirnar ódýrari með öðru en lágu legkaupi.

Þá vildi jeg minnast nokkrum orðum á mómýrarnar. Stjórnin hefir keypt, sökum ádráttar frá fyrverandi stjórn, kort af mómýrum á Íslandi fyrir 5000 krónur. Seljandi var Einar Benediktsson skáld. Jeg álít þessi kort gersamlega þýðingarlaus og fjenu kastað í sjóinn. Vildi jeg vita, hvort stjórnin var lagalega bundin við þennan samning.

Hæstv. forsrh. (SE) tók það fram, að honum væri eigi kunnugt um, hvort ríkissjóður hefði nokkum tíma fengið tekjur af störfum húsagerðarmeistara fyrir einstaka menn. Jeg skal taka það fram, að jeg þekki þennan mann og veit, að hann er mjög duglegur maður. Jeg geri því ráð fyrir, að hann hafi unnið meira eða minna fyrir aðra. Er mjer t. d. kunnugt um það, að hann hefir gert uppdráttinn að Eimskipafjelagshúsinu og sjeð um byggingu þess. Álít jeg, að eigi sje vafi á því, að þeir, sem eru í þjónustu landsins sem fastir starfsmenn, verði að láta það, sem þeir fá fyrir verk sín er svipað stendur á og hjer, renna í landssjóð.

Þá kem jeg að 2. gr. stjfrv., viðvíkjandi launaviðbót til sendiherra vors í Kaupmannahöfn. Enda þótt uppbót þessi hafi verið veitt heimildarlaust, þá hefi jeg þó skrifað undir nál. án fyrirvara, af því að annað var í raun og veru þýðingarlaust: þessu verður ekki breytt hjeðan af. En jeg er yfir höfuð mjög óánægður með alt skrifstofuhaldið. Jeg geri að vísu ráð fyrir því, að maður þessi standi vel í stöðu sinni. En sendiherrastaðan var altaf óþörf og efnt til hennar af fordild. En á það mun jeg minnast seinna.

Þá vildi jeg segja nokkur orð út af ræðu hæstv. forsrh. (SE) Jeg er honum alveg sammála um það, að nauðsynlegt sje að búa vel um utanríkismálin. En jeg er honum algerlega ósammála um þá sögulegu hlið þessa máls. Jeg er sammála hæstv. ráðherra (SE) um það, að ungir menn eigi að læra erlendis, svo að þeir geti síðar komið fram fyrir landsins hönd, en hins vegar get jeg eigi sjeð, að það sje sjálfsagt, að þeir leiti allir til dönsku stjórnarskrifstofanna í því skyni. Jeg efast um, að mikið sje við það unnið. Vjer höfum nú góðan mann. skrifstofnstjóra Krabbe, er öllum kemur saman um, að geti annast mál vor í Kaupmannahöfn. Vitanlega kemur einhvern tíma að því, að annar verður að taka við af honum, en til þess að undirbúa eftirmanninn þarf ekki að hafa skrifstofu, sem kostar landið um 40 þús. kr. á ári. Jeg er því, eins og jeg tók fram, mjög óánægður með fyrirkomulag sendiherraskrifstofunnar. Vjer höfum í Kaupmannahöfn gegnan mann til þess að annast þessi störf, auk þess sem ráðherrarnir fara þangað við og við. En úti í hinum stóra heimi höfum vjer enga fulltrúa. Þegar að því kemur, að vjer tökum að oss utanríkismál vor að öllu leyti, þá er óhugsanlegt, að vjer getum það með því ástandi, sem nú er, að vjer eigum engan mann, sem getur tekið slíkt starf að sjer, sakir vankunnáttu í erlendum málum. Ef til alþjóðafundar kæmi, þá tel jeg mjög vafasamt, að vjer höfum nokkurn mann, sem kann þolanlega ensku, hvað þá heldur mál stjórnmálanna, frönsku. Jeg vil því fara alt öðruvísi að en gert er ráð fyrir í stjfrv. Englendingar láta sonu sína ganga í sjerstaka skóla í París í þrjú ár, til þess að búa sig undir starf sitt á þessu sviði. En jeg hafði hugsað mjer, að við gætum notað þá menn, sem lært hafa til þessara mála, heima fyrir, sem sýslumenn eða dómara eða skrifstofustjóra í stjórnarráðinu, og sent þá út, þegar þörf krefur, í stað þess, sem nú er, að halda menn ytra með ærnum kostnaði, sem geta eigi komið fram hjá stórþjóðunum fyrir okkar hönd, sökum ónógs undirbúnings. Jeg geri ráð fyrir, að jeg sje í minni hluta með þessa skoðun, en jeg fæ ef til vill tækifæri til þess að gera nánari grein fyrir henni síðar.

Þá vil jeg koma að öðru atriði. Það er farið að viðgangast, að stjórnin beri ýms vandamál undir nefndir, en láti þau ekki koma til þingsins kasta. Og þetta eru oftast mál, sem helst þyrftu að vera opinber. Þetta er ekki nýtt hjá núverandi stjórn; óvaninn er orðinn gamall, en það er full þörf á því að setja loku fyrir hann. Með þessu er vald þingsins rýrt að miklum mun; það fær aðeins að samþykkja eftir á það, sem lofað hefir verið af einhverri nefnd bak við þingið.

Þá kem jeg að ábyrgðinni fyrir Reykjavíkurbæ. Jeg er ekki allskostar ánægður með hana. Jeg vil ekki neita því, að Reykjavík var nauðsynlegt að fá lánið og að það fjekst með sæmilegum kjörum. En á þessum tíma stóð svo sjerstaklega á, að Reykjavík verðskuldaði ekki, að stjórnin gerði þetta fyrir hana. Stjórnin vildi fá að breyta húsi, sem hún átti, Nýborg, til þess að hægt væri að nota það fyrir vínverslunina, en til þess þurfti leyfi byggingarnefndar. En þessu leyfi var neitað án þess að nokkur ástæða væri til þess; bærinn græddi ekkert á þeirri neitun. Þetta varð til þess, að landið varð að ganga að okurleigu hjá einstökum mönnum fyrir þessa verslun og hefir tapað á þessu stórfje. Jeg hefi heyrt, að heimtað hafi verið 20 þús. kr. í leigu í upphafi fyrir eitt húsið. Jeg veit ekki, hvort leigan varð svo há endanlega, en samt varð hún fyrir ofan alla sanngirni. Jeg verð að lýsa yfir því, að ef jeg hefði haft vald til þess sem þm. að neita eða veita þessa ábyrgð, þá hefði jeg hiklaust sagt, að Reykjavík verðskuldaði ekki þessa hjálp, úr því að hún hefði beitt landið þessu lúalega bragði. Og það verður að koma í veg fyrir, að slíkt geti átt sjer stað framvegis. Það er aðeins fyrir seinlæti, að jeg er ekki kominn fram með frv. í þessa átt, en það kann að koma. Að vísu býst jeg við, að slíkt frv. yrði felt, því að það er nú orðinn siður hjer í deildinni að fella skynsamleg frumvörp, sem miða til þjóðarheilla. Jeg vil ekki sakast um orðinn hlut, en framvegis má það ekki eiga sjer stað, að Reykjavík verði veitt sjerstök hjálp, ef hún seilist til þess að vinna landinu tjón, án þess að vinna sjálfri sjer gagn um leið.