12.04.1923
Efri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

24. mál, fjáraukalög 1922

Frsm. (Einar Árnason):

Út af ummælum hjer í deildinni við 2. umr. þessa máls, um uppdrætti af mómýrum, skal jeg geta þess, að atvinnumálaráðherra hefir sent þá nefndinni til athugunar. Eru uppdrættirnir gerðir af ensku fjelagi árið 1913. Virðast þeir vera vel af hendi leystir og hafa sjálfsagt kostað mikið fje þar sem þeir ná yfir mómýrar á svæðinu milli Þjórsár og Hítarár í Hnappadalssýslu. Annars ætlar nefndin ekki að leggja neinn dóm á það, hvort uppdrættir þessir muni nokkurn tíma koma að notum, en þótti hins vegar rjett að geta þessa. Þá er að minnast á brtt. hæstv. atvinnumálaráðherra (KIJ) um, að þingið heimili landsstjórninni að ábyrgjast lán Reykjavíkurbæjar til vatnsveitu. er nemur 1/2 miljón króna. Nefndin sjer ekki, að hjá því verði komist að samþykkja þessa tillögu, þar sem stjórnin hefir þegar fyrir nokkru gengið í þessa ábyrgð. En nefndin vill taka það fram um leið, að hún telur ekki rjett, að stjórnin takist á hendur ábyrgðir fyrir hönd ríkisins, nema heimilað hafi áður verið af Alþingi. Þetta vill hún leggja áherslu á. Í þessum svifum hefir komið fram brtt. frá hv. þm. Vestm. (KE), er fer fram á að hækka læknisvitjunarstyrkinn til Flateyjarhjeraðs úr 600 kr. upp í 900 kr. Nefndin hefir ekki haft tækifæri til að bera sig saman um þessa tillögu, en hvað mig snertir persónulega, þá hefi jeg ekkert sjerstaklega á móti henni, og jeg býst við, að nefndinni sje það heldur ekkert kappsmál, hvort styrkurinn verður 600 eða 900 krónur.