20.02.1923
Neðri deild: 3. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Þorláksson:

Hæstv. fjrh. (MagnJ) hefir samkvæmt venju haldið tölu um fjárhag ríkisins og fjárhagshorfur. Jeg á sæti í andstæðu horni við hæstv. fjrh. (MagnJ) og þykir mjer rjett, að það komi fram, að ræða hans var ekki flutt svo hátt og skýrt, að mjer væri unt að fylgjast með, þrátt fyrir ítrustu athygli með því að halda lófa fyrir eyra, eða fá fult samhengi í ræðuna. En þó tókst mjer að heyra einstöku atriði, eitt eða tvö, er jeg vil ekki að standi ómótmælt stundu lengur. Annars virtist mjer margt vel og skynsamlega sagt í ræðunni. Þó að jeg þori ekki að fullyrða, að jeg hafi heyrt rjett.

Jeg vil ekki láta því ómótmælt, að þegar verðfall íslenskra afurða hófst, en framleiðslukostnaður lækkaði ekki jafnframt og skuldir hjeldust óbreyttar, þá hafi atvinnuvegir landsins steypst um koll. Þetta er ekki rjett. Gifta þessa lands hefir orðið þeim mun drýgri en óheillavættir þess, að atvinnuvegirnir hafa aldrei steypst, heldur standa enn þá rjettuni fótum. Hæstv. fjrh. sannaði þetta sjálfur, er hann sagði, að útflutningur afurða hafi á árinu 1922 orðið talsvert meiri en menn hefðu gert sjer vonir um. En besta sönnunin er þó, að þrátt fyrir alla fjárhagserfiðleika hefir enginn heilbrigður atvinnurekstur hjer á landi þurft að leggjast niður fyrir fjárkröggur.

Öðru atriði vil jeg og mótmæla, hafi jeg heyrt rjett. Mjer heyrðist hæstv. fjrh. (MagnJ) segja, að einatt væri talað um þing og stjórn sem leiðtoga, jafnt á sviði fjármálanna sem öðrum sviðum, en að þetta væri misskilningur, því þing og stjórn gerði ekki annað en berast með straumnum í þessu efni. Jeg vil segja honum það, að jeg get ekki borið traust til þeirrar fjármálastjórnar, sem álítur rjett og eðlilegt að berast með straumnum á slíkum tímum sem nú eru.