19.02.1923
Sameinað þing: 1. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í B-deild Alþingistíðinda. (6)

Minning látinna manna

Aldursforseti (SJ):

Samkvæmt þingvenju vil jeg leyfa mjer, áður en nú er til þingstarfa gengið, að minnast þriggja manna. er látist hafa frá því síðasta þingi lauk og verið hafa alþingismenn, þó eigi ættu þeir sæti á hinum síðari þingum.

Hinn fyrsti þessara manna er Hannes Þórður Hafstein, fæddur 4. des. 1861 á Möðruvöllum í Hörgárdal. Hann varð stúdent 1880 og cand. juris 1886. Var því næst um tíma settur sýslumaður í Dalasýslu, síðan um tveggja ára skeið málaflutningsmaður við landsyfirrjettinn.

Árið 1889 varð hann landritari og 1895 skipaður sýslumaður í Ísafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Ísafirði og gegndi því embætti þangað til hann var skipaður fyrsti ráðherra Íslands frá 1. febrúar 1904.

Þm. Ísf. var hann 1901, en Eyf. 1903–1916 og 1. landsk. þm. 1916–1922, en varð að láta af þingstörfum á sumarþinginu 1917 sakir heilsubilunar.

Ráðherra Íslands var hann 1904–1909 og aftur 1912–1914. Forseti sameinaðs þings 1912. Skipaður með konungsúrskurði 30. júlí 1907 í nefnd til þess að undirbúa ráðstafanir til nýrrar löggjafar um stjórnskipulega stöðu Íslands í veldi Danakonungs, og 28. maí 1911 í milliþinganefnd til þess að íhuga fjármál landsins. Hann andaðist 13. desember 1922 á heimili sínu hjer í Reykjavík.

Næsti maðurinn, sem jeg nefni í þessu sambandi, er Magnús prófastur Andrjesson frá Gilsbakka, kominn af merkri bændaætt í Árnesþingi, fæddur 30. júní 1845, stúdent 1875, cand. theol. 1877, veittur Gilsbakki 17. júní 1881 og vígður þangað 26. ágúst sama ár. Prófastur í Mýrasýslu 1884–1892 og aftur 1911–1915. Skipaður 3. janúar 1905 í milliþinganefnd í fátækramálum. 2. þm. Árn. 1881–1885, þm. Mýra. 1901–1907 og 1912–1913. Forseti neðri deildar á þingunum 1912 og 1913. Sagði af sjer prestsskap sakir sjóndepru vorið 1918 og andaðist hjer í Reykjavík 31. júlí 1922.

Þriðji maðurinn er merkisbóndinn Þorvaldur Björnsson frá Þorvaldseyri, fæddur 18. október 1833, dáinn í Núpakoti 30. nóvember 1922. Hann var þm. Rang. 1886–1889.

Þingheimur vottaði virðing minningu þessara manna, hvers um sig, með því að standa upp.

Þá kvaddi aldursforseti sjer til aðstoðar sem fundarskrifara þá Jóhannes Jóhannesson. þm. Seyðf., og Eirík Einarsson. 1. þm. Árn.