07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

1. mál, fjárlög 1924

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Háttv. þm. Barð. (HK) tók upp spurninguna um herbergisleiguna. Jeg skal ekki bæta öðru við út af fáryrðum hans en að jeg lít á þetta sem sjálfsagðan hlut, er gerður hefði verið fyrir hvern annan opinberan starfsmann, sem líkt hefði staðið á um, þar sem hjer er að ræða um herbergi, er jeg þarf eingöngu að nota stöðu minnar vegna. Það ætti að vera ofurljóst, að jeg get ekki vísað mönnum, sem við mig eiga erindi, upp í stjórnarráð á hvaða tíma sem er.

Þá vildi sami háttv. þm. fá að vita um Geysishúsið, áður en hann talaði nánar um það, hvort það hefði ekki verið selt og við hvaða verði. Jeg skal fúslega skýra honum frá, að húsið var selt til læknisbústaðar og sjúkrahælis í Grímsneshjeraði fyrir 3000 kr. Einnig voru ýmsir innanstokksmunir, svo sem sængurföt, rúm og eldhúsgögn, seldir fyrir 1500 kr. Vona jeg, að þetta sjeu þær upplýsingar, sem háttv. þm. þarf til þess að komast á rásina.