07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í B-deild Alþingistíðinda. (615)

1. mál, fjárlög 1924

Magnús Guðmundsson:

Eftir því sem komið hefir fram um Eyrarbakkaspítalann, þá er nú búið að borga 50 þúsund krónur úr ríkissjóði til hans. Hann er þó ekki fullger enn þá, og óvíst, hvort það verður fyrst um sinn. Jeg hefi fyrir satt, að sýslunefnd Árnesinga hafi á síðasta fundi sínum neitað algerlega um styrk til spítalans úr sýslusjóði. Það virðist því svo, sem hæstv. stjórn hafi verið nokkuð fljót á sjer með að greiða þessar 50 þús. til þessa fyrirtækis. Jeg skal þó ekki, til þess að gera henni ekki neitt rangt til, fara neitt frekar út í þetta að sinni, en bíða þeirra upplýsinga, sem hæstv. forsætisráðherra lofaði áðan að gefa í málinu.

Að því er snertir uppboðsfjeð, þá sagði hæstv. atvrh. (KIJ), að þetta hefði verið gefið eftir af stjórninni. En jeg spyr: Með hvaða heimild? Jeg veit þó, að hjer var um talsverða upphæð að ræða, og hefir ríkissjóður stundum lotið að minna. Eftirgjöf þessi var alóþörf, því að sýslumaður stóð í ábyrgð fyrir henni, og þótt salan hafi kannske verið góð, skiftir það engu máli, því að ríkissjóður átti heimtingu á allri uppboðsupphæðinni.

Hvað viðvíkur ábyrgðinni fyrir Reykjavíkurkaupstað, þá virðist það ekki vera forsvaranlegt af hæstv. stjórn að hafa ekki tekið till. upp í fjáraukalög þess efnis að fá samþykki þingsins á ábyrgðinni. Jeg man ekki til þess, að þessi aðferð, sem hæstv. stjórn hefir kosið hjer, hafi til þessa verið viðhöfð.

Hvað snertir húsnæði hæstv. fjármálaráðherra (MagnJ), þá skil jeg ekki, að hann sje nein sjerstök undantekning með það að þurfa að bjóða til sín gestum utan stjórnarráðsins. Sú ástæða er fjarri því að vera frambærileg. En nú vil jeg spyrja þennan hæstv. ráðherra: Ætlar hann sjer framvegis að taka þetta fje? — Jeg verð að líta svo á, að það geti ekki með nokkru móti talist eiga heima með skrifstofukostnaði stjórnarráðsins. Jeg get sagt honum, að þegar jeg var fjármálaráðherra, varð jeg að borga nærri helming launa minna í húsaleigu. Ef svo stendur á um hann, þá gæti verið um það að ræða, að hann fengi húsaleigustyrk, eins og jeg hefi bent á, að til mála gæti komið um suma embættismenn hjer í Reykjavík, en til að samþykkja það, að hann taki það sjálfur í leyfisleysi og færi það til útgjalda þar, sem það á alls ekki heima, til þess er jeg ófáanlegur.

Um Geysishúsið vil jeg segja það, að þar mun hafa verið saman komið talsvert verðmæti. Hefir kunnugur Árnesingur sagt mjer, að læknirinn muni hafa fengið miklu meira fje fyrir það, sem húsinu fylgdi, en hann gaf fyrir það, og þó hjelt hann eftir því, sem hann og sjúkrahúsið í Laugarási þurfti. Jeg get að vísu ekki fullyrt, að þetta sje svo, þar sem jeg var þar eigi við sjálfur, en vil þó geta þess, að sögumaður var þarna nákunnugur og auk þess maður sannorður.