07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (618)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Þorláksson:

Jeg er ekki vel upplagður til þess að taka þátt í þessum eldhúsdagsumræðum, og hafði ekki ætlað mjer það, en stend þó upp út af ummælum í ræðu háttv. 1. þm. Árn. (EE) um spítalamálið á Eyrarbakka. Jeg varð að skilja orð hans þannig, og það hafa líklega fleiri gert, að sú 40 þúsund kr. fjárveiting, sem ráðgert hefir verið að sýslan legði til spítalans, væri ekki í fullu samræmi við ákvörðun og tilætlun sýslunefndar Árnessýslu. Vænti jeg, að hann leiðrjetti þetta, ef það er ekki rjett skilið. Fyrst hann gerir það ekki, hefir hann ætlað að segja þetta. Jeg vil ekki segja, að loforð sýsluefndarinnar sje svo ótvírætt, samkvæmt sýsluefndarályktuninni frá 1920, að hægt sje að krefja um það með aðstoð laganna. En það er þó ótvírætt, að loforð um 40 þús. kr. framlag gegn 80 þús. kr. úr ríkissjóði hefir verið samþykt í sýslunefndinni, og er því ekki í ósamræmi við vilja sýslunefndarinnar.

Jeg hefi ekki sjálfa fundarályktunina við hendina, en stjórnin gerði fyrirspurn til oddvita sýslunefndarinnar síðastliðið haust, um greiðslu á 40 þúsund kr. frá sýslunni til spítalans, og í svarskeyti frá sýslumanninum er vísað til þessarar fundarályktunar. Þar segir svo, ef jeg má lesa það upp. með leyfi hæstv. forseta :

„Sakir þess, að sýslunefnd hefir ekki haft Eyrarspítalamálið til meðferðar síðan 1920, er ekki unt að gefa ákveðnara svar en felst í samþykt aðalfundar það ár, enda það nægilegt og má ekki efa, að sýslunefnd efni öll heit sín. Bið athugað, að Eyrarbakkahreppur verður að skoðast laus við spítalann, ef ríkisstyrkur verður ekki greiddur.“

Ætti þetta svar hans að vera nægilegt til skýringar því, að sýslunefndin hefir þá lofað þessu. Jeg vil taka það fram, vegna þess, að jeg er máli þessu kunnugur fyrir veru mína á þessum stöðvum, að mál þetta er þannig vaxið, að það er ekki sem best fallið til þess að vera gert að eldhúsdagsmáli, eins og líka hæstv. forsrh. (SE) lýsti yfir. En af því að háttv. 1. þm. Árn. (EE), sem er í stjórnarflokknum, andaði kalt til stjórnarinnar, vil jeg, sem er stjórnarandstæðingur, taka í strenginn með henni í þessu máli. Þetta er vandræðamál, og öll vandræðin stafa af atburðum, sem gerðust í tíð fyrverandi stjórnar, án þess að henni verði þó heldur gefin sök á þeim. Þó að ógætilega væri farið á stað í þessu máli, vil jeg segja það stjórninni og einkum spítalanefndinni til afsökunar, að í öllum atriðum hefir verið notuð handleiðsla þeirra tveggja manna, sem að sjálfsögðu eiga mestu um það að ráða — landlæknis og húsameistara ríkisins. Þeir studdu báðir spítalanefndina á Eyrarbakka í málinu. Samkvæmt till. fjvn. hækkaði Alþingi 1921 styrkinn til spítala úr 20 þús. kr. upp í 80 þús. kr., og átti aukningin, 60 þús. kr. að ganga til þessa spítala. Er óþarft að lesa ummæli frsm. um það; þau muna allir. Nú hefir öllum skilyrðunum, sem fjárlögin setja, verið fullnægt, og stjórnin virðist ekki ámælisverð eða ásökunar fyrir útborgun á þeim 50 þús. kr., sem þegar eru greiddar úr ríkissjóði. Miklu heldur get jeg búist við, að ríkissjóður geti orðið dæmdur til að borga 60 þús. króna tillagið alt.

Þetta er orðið kappsmál, og jafnvel hatursmál, í milli flokka innan hjeraðs, og kom það einnig fram í ræðu háttv. 1. þm. Árn. (EE).