07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 564 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

1. mál, fjárlög 1924

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Háttv. 1. þm. Skagf. (MG) var að spyrjast fyrir um það, hvort jeg mundi halda áfram að greiða mjer „húsaleigustyrk“ úr ríkissjóði. Málinu er þá auðsjáanlega ætlað að líta svo út, sem hjer sje um húsaleigustyrk mjer til handa að ræða. Þó er það vitanlegt, að jeg hefi aldrei komið nálægt þessari húsaleigu, heldur hefir hún að sjálfsögðu verið greidd beint til húseiganda. Annars er það svo, að jeg hefi sjálfur engan persónulegan áhuga fyrir þessu. Jeg gæti auðvitað eins verið afundinn við menn, sem við mig þyrftu að tala, og vísaði þeim upp í stjórnarráð á viðtalstímum þar, en óþægindi mundi það hafa í för með sjer fyrir ýmsa, og ekki síst aðkomumenn, svo jeg mundi síður vilja gera það en þó jeg með því losnaði við eitthvert persónulegt nart.

Þá var enn verið að minnast á Geysishúsið, og þá sjerstaklega innanstokksmunina. Aðalverðmætin munu hafa legið í rúmum og sængurfatnaði. Tvö tilboð jafnhá bárust, 1500 kr. hvort. Annað þeirra var frá konungsnefndarmanni, og mátti það því skoðast sem einskonar mat frá þeirri hlið. Enn fremur voru talin tormerki á því að flytja alt til Reykjavíkur; hefði þá bæst við flutningskostnaður, auk þess sem allóvíst var, að meiri upphæð hefði fengist fyrir það þar. Enda tel jeg líklegt, að þætti ekki ráðlegt nú, ef svo hefði verið gert.