07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

1. mál, fjárlög 1924

Hákon Kristófersson:

Þar sem jeg er einn þeirra, sem varpað hafa fram meinlausum fyrirspurnum til hæstv. stjórnar, býst jeg við, að jeg eigi minn hluta af þeim ummælum hæstv. atvrh. (KIJ) um þann ójafna leik, sem ætti sjer stað, þegar stjórnin yrði að svara fyrirspurnum án alls fyrirvara. En mjer er ekki kunnugt, að sú hafi verið þingvenja hjer, að stjórninni hafi verið gert viðvart við slík tækifæri sem þessi, og veit ekki heldur til, að þeirri reglu sje fylgt í öðrum nærliggjandi löndum. Hann var í því sambandi að tala um stjórnarandstæðinga, en mjer komu þau ummæli á óvart, því jeg veit ekki til, að jeg hafi sýnt mig í neinni andstöðu við hann. En meiri líkindi eru fyrir því, að stjórn, sem átt getur von á fyrirspurnum fyrirvaralaust, vandi betur ráð sitt í öllum tilfellum, ef hún getur búist bæði við fyrirspurnum og útásetningum viðkomandi ýmsum stjórnarathöfnum, og haldi sjer vakandi.

Hv. 1. þm. Árn. (EE), sem virtist vilja bera hönd fyrir höfuð hæstv. fjrh. (MagnJ), talaði um það, að þm. væru kvikusárir, er um smámál væri að ræða. En jeg verð þá að segja, að hann er æði hörundsár fyrir hönd hæstv. fjrh. (MagnJ), því jeg tel það ekkert smáatriði, ef ráðherra tekur fje til eigin afnota úr ríkissjóði án allrar heimildar. Hvað mundi verða sagt um sýslumenn, ef þeir tækju á sama hátt fje úr sýslusjóði? Í sambandi við það, að fjármálaráðherra þurfi að veita mönnum viðtal annarsstaðar en í stjórnarráðinu, þá verður það frekar að álítast „prívatmál, en að þar sje nokkru verulegu ráðið til lykta. Og þess ber að gæta, að ýmsir ráðherrar, svo sem Björn Kristjánsson og fleiri, hafa búið í sínum eigin húsum og ekki álitið viðeigandi að taka heimildarlaust fje úr ríkissjóði upp í húsaleiguna. Því kemur mjer á óvart, að háttv. 1. þm. Árn. (EE) skuli verða svo uppvægur fyrir aðfinslum mínum í þessu máli. — Þá talaði sami hv. þm. um Geysishúsið og sölu þess, og vildi ekki telja aðfinsluvert, hvernig því hefði verið ráðstafað. En þó heyrðist mjer á honum, að hann teldi nauðsynlegt að hafa gistihús á hverri dagleið þar austur eftir, og er þetta þá gert enn meir að ófyrirsynju, að rífa húsið niður. Enda var nýbúið að verja allmikilli fjárhæð til hússins, með það fyrir augum, að það skyldi vera látið standa um óákveðinn tíma. Jeg mundi þó ekkert hafa lagt á móti því, að það færi til sjúkrahúss í Árnessýslu — út af fyrir sig gat það verið heppilegt — en mjer finst það aftur á móti varhugavert af stjórninni að taka, ekki hæsta tilboði. Því það gefur að skilja, að þótt sjúkraskýlið sje annars, ef til vill, alls góðs maklegt, þá bar stjórninni engin skylda til að leggja því til þannig lagaðan styrk, og mátti ekki gera það í heimildarleysi eða upp á væntanlegt samþykki þingsins. Jeg býst við, að nálega 1500 kr. hafi verið gefnar eftir. Jeg hefi raunar ekki skjölin fyrir hendi; hafði í morgun ætlað mjer að fá þau til yfirlits uppi í stjórnarráði, en þau lágu ekki laus fyrir. Það hygg jeg líka, að því megi slá föstu, að almennur vilji manna í Árnessýslu hafi verið á móti því, að húsið væri rifið niður. Viðvíkjandi húsbúnaðinum, þá sagði sami háttv. þm., að ekki hefði farið illa á því, að þeir hefðu runnið til ungs og efnilegs kandidats með góðu verði. En jeg verð að halda því fram, að þó sá heiðursmaður eigi vafalaust alt gott skilið, þá átti hann að fá þá muni með sannvirði, en auðvitað ekki að okra á þeim. Annars er þetta álit háttv. þm. í fullu samræmi við þau ummæli hæstv. fjármálaráðherra við mig, að best færi á því að skifta innbúi Geysishússins upp á milli hreppanna í Árnessýslu. Jeg hafði fengið uppi í stjórnarráði lista yfir þessa búshluti og var kominn af stað með hann, en þá kom maður á eftir mjer og beiddist þess, að jeg skilaði honum aftur. Hið háa stjórnarráð hafði sjeð sig um hönd. En margir nýtilegir munir virtust vera þar, m. a. 20 — 30 körfustólar, og býst jeg þó ekki við, að aðalverðmætið muni hafa legið í þeim.

Hæstv. fjrh. (MagnJ) veit vel, hvers vegna jeg er svona fjölorður um þetta. Jeg átti tal við hann í fyrra og beiddist þess að fá húsið leigt næsta sumar, fyrir hönd stúlku, sem verið hafði í konungsförinni og hlotið hin bestu meðmæli frá vegamálastjóra, sem bjóst við, að hún mundi hirða húsið svo vel, að eigi yrði kostur á betra. Tók ráðherrann vel í þetta og bjóst við, að samningar um þetta tækjust, svo framarlega sem fyrverandi stjórn hefði ekki bundið hendur sínar í því máli á þann hátt, að gefa loforð fyrir sölu á húsinu. Og auðvitað treysti jeg því og trúði, sem hver annar hrekkjalaus maður, sem hjelt sig eiga við haldinorðan mann, óvitandi um vafninga veraldarinnar, að hann mundi standa við sín orð. En það kom á daginn, að hann hafði ekki verið mjer heill í málinu, því að þá hafði hann lofað Jörundi Brynjólfssyni húsinu fyrir 2000 kr.

Að þetta sje rjett, leyfi jeg mjer að fullyrða, því jeg hefi órækar sannanir fyrir því. Að vel athuguðu máli lít jeg svo á, að hæstv. ráðherra hafi vísvitandi farið með blekkingar og ósannindi í þessu máli, sem urðu til mikils óhagræðis fyrir þá, sem hjeldu sig mega fullkomlega treysta honum.

Jeg kann illa við, að hæstv. ráðherra (MagnJ) hefir enga tilraun gert til þess að láta þinginu í tje vitneskju í þessu máli. Það hefir komið fram, og er óhrakið, að hægt hefði verið að selja húsið hærra verði. Jeg verð því að telja framkomu hæstv. ráðherra (MagnJ) alt annað en ákjósanlega, og jeg hefði óskað, að hann hefði að minsta kosti verið hreinskilinn við þingið, en ekki verið hjer með vafninga, sem ómögulegt er að sjá í gegnum með ærlegum augum. Slíkar ráðstafanir sem þessi eru með því móti, að hæstv. ráðherra getur ekki tekið neinum það illa upp, þótt þær sjeu víttar, og vona jeg, að hann misskilji ekki eða láti sjer mislíka það, sem jeg hefi sagt hjer. En ef svo er komið, að stjórnin má fara með fje landsins eftir vild sinni, þá erum við komnir inn á óheppilega braut, sjerstaklega ef ráðherrarnir eru ekki vel valdir, eins og því miður hefir fyrir komið.