07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Baldvinsson:

Jeg get ekki verið hæstv. atvrh. (KIJ) sammála um það, að þm. eigi að láta stjórnina vita fyrirfram, hvers þeir ætla að spyrja. Það er eðlilegt, að á eldhúsdaginn, þar sem eru frjálsari umræður en ella. komi margt fram, sem þarf að upplýsa, og eins getur þm. dottið margt í hug meðan á umr. stendur, sem þeir hafa ekki athugað áður. Jeg ætla þess vegna að spyrja stjórnina nokkurra spurninga.

Fyrst vil jeg spyrja hæstv. forsætisráðherra um það, hvaða eftirlaun danska bankastjóranum. er fór frá Íslandsbanka, hafi verið veitt. Þetta mál hefir mikið verið rætt, enda á það að vera opinbert mál. Og í einu blaði hefir verið nefnd til ákveðin upphæð. Jeg vildi gjarnan fá upplýsingar hjá stjórninni um þetta.

Þá vil jeg spyrja sama hæstv. ráðherra (SE) sem er í bankaráði Íslandsbanka. hver mæti fyrir og fari með atkvæði erlendra hluthafa. Jeg vona, að hann svari mjer þessu.

Þá vil jeg beina spurningum til hæstv. atvinnumálaráðherra. Það getur verið, að hann þurfi að afla sjer upplýsinga, en honum gefst tækifæri til þess, því bráðum verður fundarhlje.

Á síðasta sumri keypti atvinnumálaráðuneytið kolafarm, og urðu út af því blaðadeilur. Mörgum sýndist, að stjórnin hafi breytt óhyggilega með því að ganga fram hjá þeirri stofnun ríkisins, Landsversluninni, sem sjerstaklega var kunnug þessum málum, þar sem það þó mun vera embættisvenja að leita álits þeirra stofnana, sem kunnugar eru á því sviði, sem um er að ræða í hvert sinn. Nú vildi jeg fá að vita, hve mikið kolin hafi kostað og hvernig hafi verið hagað útboði á þeim.

Jeg vil einnig spyrja hæstv. ráðherra (KIJ) um það, hvort það sje rjett, að tveir kaupsýslumenn hjer í Reykjavík hafi fengið meðmælabrjef til útlanda frá stjórninni, þegar þeir þó fóru utan til þess að sinna sínum eigin erindum. Verð jeg að telja það mjög óheppilegt, ef svo hefir verið.

Þá hefi jeg gefið tveimur ráðherrunum verkefni, og jeg er svo mikill jafnaðarmaður, að jeg kann ekki við að skilja þann þriðja út undan. Jeg vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra (MagnJ) um það, hvernig því sje varið með lán eða ábyrgðir ríkisins til verksmiðjunnar á Álafossi. Það er sagt, að fyrirtækið standi völtum fótum, og jeg vona, að fje landsins sje þar nægilega trygt. Sjerstaklega er nauðsynlegt að vita þetta áður en greidd eru atkv. um fjárlögin. Það er að vísu ekki hægt að ásaka stjórnina fyrir þetta: það er þingsins verk, en gott væri að fá þetta upplýst.