07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

1. mál, fjárlög 1924

Magnús Jónsson:

Jeg hafði hugsað, að þetta lítt takmarkaða umræðuefni, sem eldhúsdagurinn svo nefndi leggur upp í hendur manna, yrði notað til þess að einhverju leyti að minnast á eitt mál, sem ef til vill hefir vakið meiri eftirtekt og umtal en nokkurt annað mál nýlega. Ólafsmálið svo nefnda. Jeg ætlaði ekki að taka her til máls í fyrstunni, og er því ekki svo undirbúinn, að jeg geti rakið nema aðalatriði málsins, enda skifta þau mestu. En úr því enginn annar hefir orðið til þess að vekja hjer athygli á þessu máli, þykir mjer rjett að gera það stuttlega, og verður þá ekki hjá því komist að rekja nokkuð sögu málsins. Það var sumarið 1921, að Ólafur ritstjóri Friðriksson kom úr utanför og hafði með sjer rússneskan pilt, sem hann hafði, að sögn, tekið upp af götu sinni í gustukaskyni, af því að hann er hjartagóður maður. En þegar til kom, reyndist svo sorglega ástatt, að piltinn hafði augnveiki slæma og smitandi, sem hjer var ekki til áður og læknar vildu ekki eiga undir, að hjer gæti útbreiðst, og lögðu því til, að drengurinn yrði sendur úr landi aftur. En maðurinn, sem í hlut átti, er tilfinningamaður og tók sjer þetta nærri og vildi sporna við þessu. Fór svo, að í hart sló milli hans og yfirvaldanna, og urðu úr tvær atrennur, þar sem hann veitti lögreglunni mótspyrnu með valdi. Eins og við var að búast, hvaða skoðanir sem menn annars höfðu á málinu, var ekki unt að meta svo, að honum væri heimilt að veita lögreglunni slíka mótspyrnu átölulaust, og að lokum fjell hæstarjettardómur í málinu 1922, og var maðurinn þar dæmdur í refsingu. Nú er sagt, að ekki tjái að deila við dómarann og að þegar dómur sje fallinn verði menn bráðlega að taka út hegningu sína. Menn undruðust það því margir, að maður þessi skyldi eftir sem áður ganga laus og liðugur, og fara jafnvel í kosningaferðalag út um land. Gengu þá þær sögur um bæinn, að stjórnarráðið hefði verið búið að senda dóminn til fullnægingar, en forsætisráðherra (SE) hefði sent eftir honum aftur. Öllu þessu getur nú hæstv. forsrh. (SE) svarað og sagt, hvort rjett er, og ætla jeg því ekki langt út í málið, enda er mjer það út af fyrir sig ekkert kappsmál. Úrslit málsins eru líka kunn, þau sem sje, að hæstv. forsrh. (SE) fjekk því til vegar kom í utanför sinni, að maðurinn var náðaður áður en hann tók út nokkuð af hegningu sinni og án þess, að sögn, að hann hefði sjálfur sótt um það, og án þess að hæstirjettur hefði verið spurður álits.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um málið að sinni, en það, sem jeg vildi beina til stjórnarinnar, var þetta, hvað hefði knúð hana til þess að koma fram þessari náðun, á þann hátt sem hún gerði, og geri jeg ráð fyrir því, að hæstv. forsrh. (SE) sje þetta aðeins kærkomið tilefni til þess að koma að sínum skýringum á málinu, þar sem hann hefir þagað um það til þessa, en hlýtur þó að vera það vel vitanlegt, að allmikil óánægja hefir verið út af málinu meðal þjóðarinnar, og kemur jafnvel enn fram í þingmálafundargerðum, einkum að því er snertir afstöðu stjórnarinnar til hæstarjettar.

Einnig verð jeg að minnast á annað mál, sem jeg hefi reyndar drepið á áður og hæstv. forsrh. (SE) lofaði mjer þá að svara, en hefir ekki gert enn. Það er um stjórn landsbókasafnsins. Með lögum 1907 var sett ráðgefandi nefnd til aðstoðar landsbókaverði við bókakaup, og sátu í henni einn maður frá hverjum embættisskólanum og einn frá mentaskólanum og svo þjóðskjalavörður. Árið 1919 sló í hart milli nefndar þessarar og landsbókavarðar, og sagði nefndin af sjer, eftir að hafa kært landsbókavörð, en kæran ekki verið tekin til greina. Síðan hefir slík nefnd ekki verið skipuð, og virðist því safninu ekki löglega stjórnað. En það, sem jeg vildi spyrjast fyrir um hjá hæstv. forsrh. (SE), er þetta, hvers vegna nefndin hefir ekki verið skipuð og hvort ekki eigi að skipa hana á ný.

Þriðja málinu vildi jeg einnig mega beina til hæstv. forsrh., þó það snerti að öðru leyti persónulega annan hæstv. ráðherra. En það er um kensluna í lagadeild háskólans. Það er vitanlegt, að hæstv. núverandi fjrh. (MagnJ) var prófessor í þeirri deild, áður en hann gerðist ráðherra, og var enginn maður skipaður í háskólaembættið í hans stað, en kenslunni ráðstafað á annan hátt. Nú er jeg ekki að álasa einum ráðherra fyrir það í sjálfu sjer, þó hann skipi ekki í slíkt embætti í sinn stað undir eins, ef hann býst við því að vera ekki lengi fjarverandi frá því. En undir eins og sýnt er, að svo getur orðið, virðist vera sjálfsagt að sjá háskólanum fyrir fullkominni kenslu í staðinn, því ástandið, sem verið hefir í lagadeildinni. er mjög óheppilegt, þó fordæmi kunni að vera fyrir því, og er nú orðið alveg óþolandi, því frá síðustu mánaðamótum er kenslan alveg fallin niður, og getur lagadeildin ekki við þetta unað. Vildi jeg því spyrjast fyrir um það, hvað hæstv. stjórn ætlar að gera til þess, að deildin beri ekki lengur svo skarðan hlut frá borði.