07.04.1923
Neðri deild: 36. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

1. mál, fjárlög 1924

Forsætisráðherra (SE):

Jeg verð að játa það, að mjer fanst ræða háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) mjög einkennileg. Í raun og veru talaði hann mjög mildilega um brot Ólafs Friðrikssonar, en skildi þó ekki í náðuninni. Hann vildi þó ekki halda því fram, að jeg hefði brotið lögin, en honum fanst vanta ástæður fyrir því, af hverju hefði verið náðað, og fanst sjerstaklega, að ekki mundi hafa verið tekið eins vægt á öðrum og Ólafi Friðrikssyni. Jeg sýndi nú greinilega fram á það í fyrri ræðu minni, hvað það væri, sem jeg áliti, að hefði dregið Ólaf Friðriksson til óhlýðninnar gegn lögreglunni, og benti á, að brotið væri ekki runnið af glæpsamlegu hugarfari, og sýndi með því meðal annars fram á, að vegna þessa væri ástæða til að náða. Ótal brot, runnin af mismunandi rótum, falla ef til vill undir sömu ákvæði hegningarlaganna. Dómurinn verður að halda sjer við lögin. Ef lögin í einstökum tilfellum eru of hörð, þá er gripið til náðunarinnar. Því er náðunin ekki nokkur vottur um, að dómurinn sje ekki eftir lögunum, heldur um hitt, að lögin sjeu of hörð í einstökum tilfellum.

Þá talaði hann um, að svo væri að sjá, sem þessi maður væri hafinn yfir öll lög, en hann verður að viðurkenna, að lögin gengu sinn gang að öllu leyti. Maðurinn var fyrst settur í gæsluvarðhald, síðan dæmdur af undirrjetti, og þeim dómi svo skotið til hæstarjettar, og síðan náðaður. Það hefir verið náðað áður fyrir glæpi, sem stærri hafa verið og svívirðilegir í almenningsáliti, án þess að leitað hafi verið álits hæstarjettar, eins og t. d. þegar tilraun var gerð hjer til að sökkva skipi, með því að bora göt á það, svo sem menn muna eftir. (MJ: En þeir voru búnir að taka út nokkuð af refsingunni). Er háttv. þm. (MJ) sá formalisti að álíta, að þetta sje ekki náðun, þótt ekki væri um allan tímann að ræða.

Auk þess var Ólafi Friðrikssyni alls ekki gefin eftir refsingin að öllu, því hann var náðaður skilyrðisbundið. En hví þegir háttv. þm. yfir þessu? Ekki hefði hann átt að gleyma því frekar en öðru viðvíkjandi málinu, úr því að honum er svo ant um það. Hjer hefir verið farið rjett að öllu. Hjer var, eins og jeg hefi tekið fram, um hugsjónamann að ræða, sem í þeirri trú, að hann sje að bjarga barni frá eymd og volæði, leiðist út í það að brjóta lögin. Háttv. þm. hlýtur að skilja, að þar sem engir eigin hagsmunir liggja bak við brotið, en aðallega hugsun um að bjarga öðrum, sem viðkomandi eru orðnir kærir, þá er ekki hægt annað en að sjá brotið í mildara blæ. Í raun og veru stofnar Ólafur Friðriksson sjálfum sjer í voða, í þeirri trú, að hann með því geti bjargað barninu. Auðvitað er þetta engin afsökun fyrir brotinu, en það varpar þeim blæ yfir brotið, að ástæða er til þess að grípa til náðunarinnar. — Jeg veit auðvitað ekki, hvað háttv. þm. (MJ) vill láta refsivönd drottins ljósta þá hart, sem lögin brjóta. Auk þess tók Ólafur Friðriksson í sjálfu sjer út refsingu með því að sitja í gæsluvarðhaldi. Þetta er ógurleg hegning fyrir mann, sem ekki er glæplundaður. Jeg hefi haldið því fram, og veit það er rjett, að afleiðingarnar af þessari náðun hafi verið góðar; þær hafa skapað frið hjá alþýðunni, en þetta var alls ekki fært sem ástæða fyrir náðuninni við konung.

Háttv. þm. (MJ) leyfir sjer að halda því fram, að jeg hafi móðgað hæstarjett með því að leita ekki álits hans. Hví reis ekki þessi háttv. þm. upp á móti fyrverandi stjórn, þegar menn þeir, er jeg hefi áður getið um, voru náðaðir? Það er hin mesta fjarstæða, að jeg vilji á nokkurn hátt móðga hæstarjett, og hefi jeg sýnt fram á það í fyrri ræðu minni. Þetta hefir enginn hnekkir verið fyrir hæstarjett, því samskonar aðferð hefir lengi verið notuð í öðrum löndum, og þá einnig þegar um lík mál þessu er að ræða, og sjálfur þingmaðurinn játaði, að þetta mál væri sjerstaklegs eðlis.

Að því er snertir kensluna í lagadeild háskólans, þá held jeg því fram, að stjórnin hafi ekkert gert í því máli, sem hægt er að ámæla henni fyrir. Mjer finst eðlilegt, að embættinu verði haldið opnu eitt ár fyrir hæstv. fjrh. (MagnJ). Því ráðherrasessinn er valtur og engin eftirlaun. Er líka fordæmi fyrir því, að þessu embætti hafi verið haldið opnu áður, meðan Einar Arnórsson var ráðherra, og þá um lengri tíma.