09.04.1923
Neðri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í B-deild Alþingistíðinda. (642)

1. mál, fjárlög 1924

Magnús Kristjánsson:

Mjer skildist á háttv. frsm. fjvn. (MP), að hann teldi slæmt, að ekki hefði legið fyrir nefndinni áætlun um tekjur og gjöld af þeim fyrirtækjum, er ríkið lætur reka. En jeg held, að það sje varla hægt að ætlast til þess, að þessar áætlanir verði gerðar, meðan engin reynsla er fengin fyrir því, hvernig þessi fyrirtæki bera sig. Tóbaksverslunin hefir aðeins verið rekin í 1 ár, og á þessu ári er ekkert hægt að byggja, sökum þess, hve miklar vörubirgðir voru liggjandi fyrir í landinu, þegar verslunin byrjaði. Var það meira en ársforði, fyrir um 2 milj. kr., sem lá að mestu hjá kaupmönnum hjer í Reykjavík, og nokkuð úti á landi. Eins má geta þess, að í byrjun þessa verslunarrekstrar varð hið mikla gengisfall íslensku krónunnar. um 30%, og gerði þetta auðvitað alt erfiðara. Niðurstaðan mun því sú, að láta mun nærri, að tekjurnar verði um 100 þúsund kr., en í sæmilegu ári mun sennilega mega áætla tekjurnar helmingi meiri.

Af þessum ástæðum sje jeg ekki, að fært sje að gera áætlun, sem bygð sje á rökum, en að gera áætlanir, sem heita má að langi í lausu lofti, er verra en ekki, og nóg er af þannig löguðum áætlunum hjer á þinginu. En auðvitað er ekki útilokað, að þessi áætlun geti komið síðar, þegar meiri reynsla er fengin.

Um áætlun um rekstur steinolíuverslunarinnar er ekki að tala, þar sem hún er enn tæplega byrjuð. Enn fremur stóð hjer líkt á og með tóbaksverslunina, að birgðir voru miklar fyrirliggjandi.

Sama er að segja um vínverslunina. Hún hefir aðeins staðið í þó ár, og er auðsjeð, að ekki verður mikið bygt á þeirri reynslu. Það má segja, að hjer sje um stefnumál að ræða, og vel má vera, að æskilegt sje að innfæra þetta, en sje þetta aðalástæðan, þá fæ jeg ekki annað sjeð en jafnríkar ástæður sjeu til þess, að fleiri stofnanir, er líkt stendur á með, hlíti sömu meðferð, t. d. Landsbankinn. Brunabótafjelag Íslands. Samábyrgðin o. fl. En jeg vil taka það fram, að jeg er ekki að halda þessu fram, hvorki sem nauðsynlegu eða sjálfsögðu, hvorki um þessar stofnanir eða aðrar. Af þessum sökum tel jeg, að nú sje ekki hægt að gera þessar áætlanir. Mundu þær einungis hafa pappírseyðslu og prentunarkostnað í för með sjer, en fyrir þeirri eyðslu eru margir hv. þingmenn nú allviðkvæmir.

Að síðustu vil jeg taka það fram, að ef litið er á fjáraukalög undanfarandi ára, þá sýnist árangurinn af áætlunum fjárlaganna ærið óábyggilegur, og held jeg því, að ekki sje æskilegt að bæta fleiri slíkum við.