09.04.1923
Neðri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í B-deild Alþingistíðinda. (643)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Hv. 4. þm. Reykv. (MJ) fanst saka lítið, þó að vínfangatollurinn yrði ekki tekinn upp í fjárlögin. Það væri rjett, ef ráð væri á því, en ríkissjóði veitir ekki af sínu.

Út af símatekjunum vil jeg taka það fram, að landssímastjóri hefir lagt til þessa lækkun sökum þess, að notkun símanna þessa fyrstu mánuði ársins hefir verið miklu minna en á sama tíma 1918, en símagjöldin eru næstum því hin sömu nú sem þá.

Mjer þótti gott að heyra hjá hæstv. fjrh. (MagnJ), að hann virtist vilja vinna að því, að tekin yrði upp í fjárlögin þessi áætlun um tekjur og gjöld af fyrirtækjum ríkisins. Hins vegar var það ekki meining fjvn. að knýja þetta fram nú, heldur aðeins herða á því, að þessi siður yrði upp tekinn. En annars sje jeg ekki, að erfiðara sje að áætla þetta heldur en nettóarðinn af þessum fyrirtækjum.

Hv. þm. Ak. (MK) nefndi það, að það mætti þá eins tiltaka Landsbankann undir þessi ákvæði. En þetta er alls ekki sambærilegt. Landsbankinn er stofnun, sem algerlega er haldið utan ríkissjóðs og allur hans rekstur er sjálfstæður. Þess vegna er ekki áætlað í fjárlögunum neitt til tekna af honum. Aftur á móti eru það aðrar stofnanir, sem stofnað er til með það fyrir augum að græða fje eingöngu, og er ætlast til, að allur ágóði af þeim sje eyðslufje ríkissjóðs, og það eru þessar stofnanir, sem nefndin á við. Vil jeg benda á, að þetta fyrirkomulag, sem fjárveitinga nefndin hefir stungið upp á viðvíkjandi þessum stofnunum, er líklega einnig beint hagur fyrir þær og þá, sem þeim stjórna. Því hefir verið haldið fram, að sumar þessar stofnanir hefðu of marga starfsmenn; ef þetta er ekki á rökum bygt, þá er þarna gott tækifæri gefið til að hrinda þeim áburði og sannfæra þm. um, að þetta væri ekki á rökum bygt, með því að leggja fram skýrslur um starfsmannahald auk annars.

Háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) hermdi það rjett eftir mjer, að fjárveitinganefnd heldur sjer aðeins við það, sem eru lög, og getur því alls ekki tekið til greina það, sem er á leiðinni, þó það kunni að verða að lögum. Þá verður það að takast til greina síðar, ef það nær fram að ganga. Þetta má þó ekki taka sem neina yfirlýsingu frá nefndarinnar hálfu, um að hún sje öll á móti þessu frv. háttv. þm.; um það hefir alls ekki verið nýtt, en þó er hugboð mitt, að þaðan muni fremur lítils stuðnings að vænta. Hann sagði, að þetta ætti ekki að vera eyðslufje. Það getur vel verið, að margir æsktu þess fremur, að svo væri ekki, en þó mun engin trygging vera fyrir því, að svo gæti ekki farið, þótt öðruvísi væri ákveðið um það. Þess eru mörg dæmin, að fje er tekið sem eyðslufje ríkissjóðs, þótt lög sjeu til fyrir því, að svo eigi ekki að vera. Þetta er gert vegna nauðsynlegra þarfa ríkissjóðs, en er þó lögbrot, og vil jeg alls ekki stuðla að því, að þær verði fleiri syndirnar í þá áttina. Má í þessu sambandi nefna símafjeð.

Mjer þótti vænt um að heyra yfirlýsingu háttv. 1. þm. Reykv. (JakM) um tekjuskattinn og afstöðu fjárhagsnefndar, því hún styður það, að brtt. okkar sje rjettmæt. En hjá honum kendi nokkurs misskilnings á orðum mínum. Jeg sagði, að fjhn. og þm. hefðu ekki gert sjer fullljósar afleiðingar þessa máls, og held jeg, að þetta hafi verið rjett. Því jeg veit, að margir þeirra, sem mest hafa um þetta fjallað, hafa ekki treyst sjer til að skálda neitt í þessu efni. Hygg jeg því, að hjer sje ekki of djúpt tekið í árinni um afleiðingar þess máls. — þær eru og verða fyrst um sinn ókunnar.

Þá skal jeg geta þess, að jeg er þakklátur hæstv. fjrh. (MagnJ) fyrir upplýsingar hans um síldartollinn; lítur út fyrir, að samkvæmt því sje engu minni ástæða til að hækka útflutningsgjaldið, úr því það hefir orðið 100 þús. kr. hærra árið 1922 en áætlað var.