09.04.1923
Neðri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 623 í B-deild Alþingistíðinda. (645)

1. mál, fjárlög 1924

Magnús Kristjánsson:

Það er í rauninni ekki mikil ástæða fyrir mig að taka til máls að þessu sinni; það er svo afarlítið, sem á milli ber mín og háttv. frsm. fjvn. (MP). Jeg stóð upp til að svara því, að þær stofnanir, sem jeg nefndi, væru ekki sambærilegar; væru reknar út af fyrir sig. Jeg veit ekki betur en hinar stofnanirnar hafi einnig sjerstakt reikningshald og sjeu reknar út af fyrir sig. Hvað Landsbankanum viðvíkur, þá er þar með skyldum að skifta, og auk þess lagt inn í hann rekstrarfje, og fær ríkissjóður þannig hlutdeild í ágóða hans. En ef þetta á að verða að stefnumáli, á það að ganga jafnt yfir. Þá mætti og eins hugsa sjer, hvort ekki væri hægt að spara eitthvað í fólkshaldi einnig við þessar stofnanir, sem jeg nefndi. Einnig gæti jeg bent nefndinni á fleiri stofnanir, sem þá mætti taka til athugunar. Það getur raunar beðið síns tíma.