09.04.1923
Neðri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

1. mál, fjárlög 1924

Stefán Stefánsson:

Eins og hv. þingdeildarmönnum er kunnugt, þá bar jeg snemma fram till. um það á þingi, að reistar yrðu loftskeytastöðvar í Grímsey og á Siglufirði. Frjetti jeg þá, að fjvn. yndi því illa, þar sem hún teldi stjórnina ekki hafa neina fjárheimild til þess að reisa stöðvarnar. Sneri jeg mjer þá til nefndarinnar, skrifaði henni um málið og sendi henni jafnframt erindi eyjarbúa um þetta mikla nauðsynja- og áhugamál þeirra. treystandi því, að háttv. nefnd tæki beiðninni hið besta, sem hún og hefir gert að nokkru leyti. En þó eru það nokkur vonbrigði, að nefndin skuli ráða til, að landsstöðin sje fremur á Húsavík en Siglufirði.

Jeg er sammála háttv. fjvn. um, að hagkvæmt muni að reisa stöð í Flatey. En að stöðin á landi skyldi vera ákveðin í Húsavík. kom mjer mjög á óvart, og er mjer heldur eigi ljóst, á hverju það er bygt. Jeg sneri mjer því til landsímastjóra. Ljet hann það í ljós sem álit sitt, að stöðin væri betur sett á Siglufirði. Færði hann sem rök fyrir því áliti sínu meðal annars, að stöðin yrði ódýrari á Siglufirði, vegna þess, að þar væri maður, er gæti tekið stöðina að sjer með engum eða þá litlum aukakostnaði. En á Húsavík þyrfti sjerstakan, lærðan mann, er myndi kosta 2–3 þúsund kr., miðað við stöðina á Hesteyri.

Enn fremur gat landssímastjóri þess, að notin af stöðinni yrðu hverfandi á Húsavík, móti því, sem yrði á Siglufirði, vegna útgerðarinnar þar og skipa, sem jafnan væri þar fyrir landi, ýmist að veiðum eða á ferð. Af þessum ástæðum hefi jeg leyft mjer að flytja brtt., er fer fram á það, að í staðinn fyrir Húsavík komi Siglufjörður sem landstöð.

Nú hefi jeg átt tal við formenn útgerðarfjelagsins og fiskifjelagsins og fengið álit þeirra um þetta mál. Skal jeg leyfa mjer að lesa upp kafla úr áliti formanns fiskifjelagsins. Þó skal geta þess, að honum vanst ekki tími til þess að bera málið undir stjórnina, og er því umsögnin á ábyrgð hans eins. Hann segir svo:

„Álit mitt er, að heppilegra muni vera, að hin umrædda loftskeytastöð verði sett upp á Siglufirði en á Húsavík, af því að meiri útvegur er á Siglufirði en Húsavík. En jeg geri ráð fyrir, að stöðinni sje, meðal annars, ætlað aðkoma útveginum að notum, og þá sjerstaklega, að hægt sje að fá frjettir frá Grímsey um síldargöngur, sem iðulega verður vart við í kringum eyna, og sjómenn þar geta gefið útgerðarmönnum á Siglufirði vitneskju um fljótar en ef fregnirnar þyrftu að fara krókaleiðir gegnum Húsavík. Varðskipin munu oftar halda sig á Siglufirði og Akureyri en Húsavík, ef þau liggja við land, og því hægra að ná til þeirra þar, ef umkvartanir berast frá fiskiskipum um brot á landhelgislögunum af hendi útlendra veiðiskipa. Enn fremur er vitanlegt, að símstöðin á Siglufirði hefir afarmikið að starfa meðan síldarvertíðin stendur þar yfir, svo menn eiga erfitt með að fá afgreiðslu. En mjer skilst, að loftskeytastöð þar mundi geta ljett undir með afgreiðslu símskeyta, ef á þyrfti að halda, og á þann hátt gert þeim, er símann þurfa að nota, hærra fyrir á margan hátt“.

Þá ljet og formaður útgerðarfjelags Reykjavíkur það álit sitt í ljós við mig, að alment litið á málið, þá væri sjálfsagt, að tilkynningar um veður og aflabrögð ættu að koma frá Grímsey og beint á verstöðvarnar sjálfar. Taldi hann, að þær þyrftu að berast svo fljótt, að mikill skaði yrði að óhjákvæmilegri töf við að senda þær gegnum Húsavík.

Þá myndi og fljótt reka að því, að íslensku togararnir hefðu allir Marconiáhöld, og þá væri heppilegra að hafa stöðina þar, sem skipin legðu upp aflann. Þetta hljóta líka allir háttv. þingdeildarmenn að viðurkenna. Þá eru það og sjerstök þægindi fyrir eigendur skipanna, sem að veiðinni vinna, að fá tilkynningu um komu skipanna mörgum tímum áður en þau koma í höfn. Er þá hægt að hafa alt, fólk og annað, tilbúið til móttöku aflans, þegar skipin koma að. Væri þá hægt að flýta meira fyrir verkuninni og fá vöruna þar með betri. Hann gat þess einnig, að Norðmenn væru að koma upp loftskeytastöðvum á sem flestum veiðistöðvum. Enda væri þeim vel ljóst, hvaða þýðingu þær hefðu fyrir útgerðina, og þörfin er jafnmikil fyrir okkur Íslendinga.

Fyrir þingi og fjvn. hefir legið erindi frá Siglfirðingum. undirskrifað af 50 manns, um að stöðin verði reist á Siglufirði. Enn fremur hafa Grímseyingar, eftir nákvæma athugun, látið það álit sitt í ljós, að stöðin yrði betur sett á Siglufirði. Er þeim það þó sjálfum síst í hag, því þeir hafa miklu meiri viðskifti við Húsavík en Siglufjörð.

Fjvn. byggir till. sínar á því, að stöðin í Flatey myndi verða dýrari í sambandi við stöð á Siglufirði heldur en á Húsavík.

Landssímastjóri sagði mjer, að þetta væri ímyndun ein. Stöðin í Flatey yrði jafndýr, hvort sem móttökustöðin á landi yrði á Húsavík eða Siglufirði. Er þessi ástæða því einskisvirði, að dómi landssímastjóra.

Það er annars dálítið hjáleitt að hugsa sjer, að stöðin væri betur sett á Húsavík en á Siglufirði, þvert ofan í þau rök, sem jeg nú hefi nefnt, og mörg fleiri, sem mætti telja. Nú hafa allmargir togarar og millilandaskip Marconitæki, og þá sýnist liggja í augum uppi, hvort muni hagkvæmara að eiga loftskeytastöð á helstu útgerðarstöð og viðkomustöð flestra eða allra skipa fyrir Norðurlandi. Þar sem er líka ein hin besta höfn norðanlands, eða Húsavík, þar sem er eiginlega engin höfn, útgerð sáralítil og skipaviðkomur nauðafáar.

Jeg hefi svo ekki fleira um þetta að segja að sinni, en mun taka til máls síðar, ef ástæður benda til.