09.04.1923
Neðri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (653)

1. mál, fjárlög 1924

Pjetur Ottesen:

Jeg vildi fara nokkrum orðum um fjárlagafrv. eins og það lítur nú út, er það kemur frá nefndinni, en jeg vænti þess, að hæstv. forseti finni eigi að því, þó að jeg tali nokkuð alment um málið og bindi mig ekki að öllu leyti við að tala um einstakar brtt.

Frsm. fjvn. (MP) hefir nú gert ljósa grein fyrir meðferð og brtt. fjvn. á þessu frv. Af því sjest, að bæði tekjur og útgjöld hafa lækkað. Sakir standa þá þannig, að fjvn. skilar nú frá sjer fjárlagafrv. með 210 þús. króna tekjuhalla. En frsm. (MP) gat þess ekki, að sá tekjuauki, sem fæst með till. þeirra um hækkun á vínfangatollinum, sem nefndin flytur sjerstakt frv. um, sje ekki tekinn með. Um þennan nýja lið, tekjur af hækkun víntollsins, get jeg vísað til ræðu háttv. 4. þm. Reykv. (MJ) um það mál. Er jeg honum samdóma í því máli, að vonum, og byggist sú skoðun á frv. okkar.

Að öðru leyti skiftist á hækkun og lækkun á hinum einstöku liðum, og nemur hækkun um fram lækkun alls kr. 82000.00. Það skal játað, að lækkanir nefndarinnar á útgjaldahlið fjárlaganna miða að mestu til stuðnings og eflingar framleiðslunni og verklegra framkvæmda. Er viðleitni hv. nefndar til þess að veita hagnýtum störfum fyrir þjóðfjelagið nokkurn stuðning virðingar- og viðurkenningarverð, og það því fremur, sem svo var frá frv. stjórnarinnar gengið, að hjá því hafði að mestu verið sneitt. Er það sorglegt, að þó tekjurnar hafi verið áætlaðar alt að tug miljóna, og harla erfitt sje fyrir þjóðina að rísa undir þeirri fjárhæð, þá hefir sama sem ekkert verið veitt til atvinnuveganna og til þess að auka og bæta framleiðslu í landinu.

Segja má, að sumir af þeim liðum, sem fjvn. hefir tekið upp og hækkað, geti orkað mjög tvímælis. Miðað við hið erfiða fjárhagsástand, sem nú er, getur það allmjög orkað tvímælis, hvort gerlegt sje að leggja út í jafnmiklar símalagningar og jafnvel allar þær vegagerðir, sem nefndin leggur til, ekki af því að allir viðurkenni ekki nauðsynina og þörfina á þessu hvorutveggja, heldur af því hve fjárvant nú er.

Hvað bein fjárframlög til verklegra framkvæmda og stuðnings og eflingar atvinnuveganna snertir, þá má gera mun á þessu tvennu. Atvinnuvegina verður að styðja og efla á allan hátt, greiða fyrir sölu afurðanna, bæði með því að stuðla að endurbótum á verkun þeirra og fjölbreytni og með því að leita markaðs fyrir þá. Þetta er þjóðinni lífsspursmál, og má ekki sjá í, þó nokkurt fje fari til þessa; það borgar sig. Hitt má ríkið sætta sig við, eins og einstaklingarnir hafa neyðst til, á meðan tímarnir eru jafnerfiðir, að láta ýmsar verklegar framkvæmdir bíða. En sjálfsögð afleiðing af því, að neyðast verður til að slá nauðsynlegum framkvæmdum á frest, er, að alveg verður að girða fyrir, að nokkrum eyri sje varið til þess, sem miður er þarflegt eða máske til einskis gagns.

Þótt fjárlögin yrðu afgreidd frá þinginu eins og fjvn. leggur til, eða með um 200000 kr. tekjuhalla, þá má þó búast við, að útkoman á árinu 1924 verði alt annað en góð. Er margt í lofti, sem bendir á það. Hvað tekjuhliðina snertir, þá mun þar í flestum greinum fullhátt áætlað, miklar líkur til með suma tekjuliðina, að þeir geri ekki betur en ná heim, lítil líkindi til, að nokkur þeirra fari sem nokkru nemur fram úr áætlun, og þá allra helst eftir að sumir þeirra hafa verið hækkaðir nú af nýju. En aftur á móti má búast við því, að tekju- og eignarskatturinn t. d. sje allhæpinn eins og hann er áætlaður. Frjettir hafa borist um það, að hann muni víða hafa lækkað um 40% fyrir breytinguna, sem illu heilli var á honum gerð hjer fyr á þinginu og hann er nú reiknaður út eftir. En jeg veit dæmi þess, að hann hefir lækkað meira. Er það og von, því hann lækkar mest á lágu tekjunum, en þær eru almennastar. Þó hann hækki á háum tekjum, þá gætir þess lítið, því þær eru óvíða til. Er jeg hræddur um, að skattur þessi muni lækka meira en margan grunar.

Fjvn. má þó njóta sannmælis um það, að hún hefir reynt að gera áætlanirnar um hina ýmsu útgjaldaliði sem nákvæmastar; hygg jeg, að hún hafi víða farið allnærri, þó jeg þykist sjá, að á sumum stöðum muni skeika allverulega, og minnist jeg á það síðar.

Jeg hygg því, að áætlunin sje yfirleitt mun nákvæmari nú en oft áður, enda hefir hún stundum verið óhæf. T. d. 1919, því árið 1920 fóru greiðslur á einum pósti. embættismannalaununum, 1 miljón krónur fram úr áætlun og stórkostlega mikið á öðrum liðum, eins og fjáraukalögin fyrir 1920–21 sýna best. En þrátt fyrir varkárni nefndarinnar, þá er jeg þó viss um, að útgjöldin fara stórum fram úr áætlun. 7. d. er það, sem nefndin áætlar til óvissra útgjalda, kr. 100000, of lítið til að greiða m. a. þær upphæðir, sem sennilega koma í fjáraukalög fyrir 1924, og svo greiðslur samkvæmt þingsályktunum. En þess má vænta, að stjórnin verði varkár að veita fjárupphæðir umfram það, sem ákveðið er í fjárlögum, eða geri það alls ekki, nema um ótvíræða nauðsyn sje að ræða. Þetta hefir verið svo rækilega brýnt fyrir henni nú, að bóta má vænta í því efni. Það má búast við, að útgjöld til landhelgisgæslunnar fari fram úr áætlun, ef hún á að vera í nokkru lagi.

Það má í þessu sambandi minnast á frv. til ræktunarlaga, sem vænta má, að gangi í gegn á þessu þingi og hefir í för með sjer aukin útgjöld til ræktunar landsins, þó að það auki ef til vill ekki mikið á um framkvæmdir í jarðrækt fyrstu árin, eða meðan svo þröngt er fyrir dyrum sem nú er, en þó leiðir þetta að sjálfsögðu til meiri útgjalda á næsta ári en sem nemur búnaðarfjelagastyrknum. Fyrir mjer stendur þetta þannig, að jeg get eigi sjeð minni ástæðu til þess að gæta hins ítrasta sparnaðar og varfærni í afgreiðslu fjárlaganna, engu síður nú en á þinginu í fyrra, og jeg er sannfærður um, að sú stefnubreyting í sparnaðaráttina, er kom fram í afgreiðslu fjárlaganna þá, var bæði rjett og heillavænleg. Eins og sakir standa, dugir eigi að setja það fyrir sig, þó að sparnaðurinn gangi nokkuð út yfir verklegar framkvæmdir í landinu; fram hjá hinum lögákveðnu greiðslum í fjárlögunum, sem ásamt greiðslum af vöxtum og afborgunum af lánum gleypa mest fjeð, verður ekki komist hvort sem er meðan ekki er gerð breyting á embættaskipuninni, sem verulegur sparnaður er að. Enda er jeg fullviss um það, að þjóðin er reiðubúin til að fórna nokkrum þægindum fyrir þá hugsjón að koma þeirri reglu á að afgreiða fjárlögin tekjuhallalaus og láta þjóðarbúskapinn bera sig. Er jeg sannfærður um, að þjóðin muni af þeim orsökum sætta sig við bráðabirgðakyrstöðu í þessum efnum, sje vel á haldið að öðru leyti. Álít jeg, að nauðsynlegt sje fyrir þingið að setja sjer þetta mark við afgreiðslu fjárlaganna nú og í framtíðinni.

Þá vildi jeg minnast nokkrum orðum á 19. lið í brtt. hv. fjvn., um hækkun fjárupphæðarinnar til landhelgisgæslu. Jeg var dálítið hissa, þegar jeg bar saman till. hæstv. stjórnar um fjárframlag til landhelgisgæslunnar og undirtektir þær, sem stjórnin hafði, þar sem var fyrirspurnin um landhelgisgæsluna. Er það vitanlegt, að ef í það er ráðist að auka landhelgisgæsluna nú á þessu ári, á þann hátt, sem um er rætt, og það er óhjákvæmilegt að gera það, þá er auðsætt, að upphæð hæstv. landsstjórnar hrekkur skamt til þess. Enda hefir hv. fjvn. sjeð þetta, þó að hún hafi eigi gengið lengra í því efni en þetta. En 50000 kr. eru tæplega fyrir útgjöldum þeim, er af landhelgisgæslunni leiða um síldveiðitímann norðanlands og að halda úti smábátum. Það vantar því alveg í fjárlagafrv. áætlun um útgjöld á rekstri strandvarnarskips. 1919, þegar landsstjórninni var heimilað að kaupa skip í þessu skyni, þá var útgerðin áætluð um 1/4 miljón á ári. En þetta hefir vitanlega fallið í verði síðan. En hvað sem því líður, þá er það víst, að til útgerðarinnar þarf allmikið fje. Álít jeg, að hjá því verði, ekki komist að auka gæsluna, og ætti því að gera áætlun fyrir rekstri og útgerð þessa nýja skips í fjárlögunum. Jeg hefi margtekið það fram, að til landhelgisgæslunnar dugi eigi nema gott skip, — trollari, eða skip af svipaðri stærð og vel útbúið.

Þá vildi jeg minnast á 8. gr. stjfrv., um borðfje hans hátignar konungsins. Í rauninni væri ef til vill rjettara að minnast þess í sambandi við 19. gr. Get jeg ekki betur sjeð en að stjfrv. fari fram á breytingu í þessu efni, því að upphæðin er ákveðin 60 þús. krónur, en í athugasemdum stjórnarinnar við frv. er vísað til 19. gr., þar sem gert er ráð fyrir ákveðinni upphæð til að greiða með gengismun af þessu og fleiru. Er því hjer greinilega um hækkun á þessari upphæð að ræða, þó að hún komi fram á þennan hátt. Er það næsta undarlegt, þar sem um konung Íslands er að ræða, að honum skuli ekki greitt í íslenskum gjaldeyri. Bendi jeg á þetta af því, að mjer er eigi kunnugt, að þessu hafi fyr verið farið á flot.