09.04.1923
Neðri deild: 37. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

1. mál, fjárlög 1924

Sveinn Ólafsson:

Jeg á 2 brtt. á þskj. 292, við þær greinar, sem nú liggja fyrir til umræðu. Áður en jeg kem að þeim, vil jeg þó fyrst drepa lítið eitt á brtt., sem mun í vændum við 13. grein C. Hennar hafa ef til vill einhverjir háttv. þingdeildarmenn vænst frá samgöngumálanefnd við þessa umræðu, en nefndin hugsar sjer að bera álit sitt um væntanlegar samgöngur fram við 3. umræðu. Reyndar er álitamál, hvort nokkrar ábyggilegar áætlanir er hægt að gera um strandferðir að þessu sinni, þar sem nú er í áformi að taka upp nýja tilhögun strandferða, sem enginn getur sjeð fyrir, hversu borgar sig. Það er fyrirsjáanlegt, að upphæð sú, sem stjfrv. ákveður til strandferðanna, er altof lág, enda í engu samræmi við reynslu undanfarinna ára, og mun reynast óhjákvæmilegt að færa hana fram.

Þá skal jeg víkja að brtt. mínum á 292. Sú fyrri á við 12. gr. og lýtur að því að hækka styrkinn til framkvæmda berklavarnalaganna. Í stjfrv. er kostnaðurinn við þessar varnir áætlaður 75 þúsund krónur. Jeg legg til, að þessari upphæð verði breytt í 120 þúsund krónur. Þó þykir mjer líklegt, að sá kostnaður verði langt um meiri. Jeg kom fram með þessa brtt af því, að mjer fanst háttv. fjvn. hafa sjest yfir þetta atriði. Jeg hefi fengið skýrslur um kostnað við berklavarnir eftir lögunum 1921 úr 6 sýslum á landinu næstliðið ár. Hefir sá kostnaður, sem þær hafa orðið að greiða til berklavarna. samtals verið um 52 þúsund krónur. Þar sem nú er ætlast til, að hjeruðin leggi til 2/5 kostnaðar, en ríkissjóður 3/5 hluta, þá verður varla sjeð, að hægt sje með nokkru móti að áætla minna fje vegna þessara útgjalda en brtt. mín fer fram á. Vænti jeg þess fastlega, að reynslan muni sanna það, að sú upphæð verði fremur of lítil en of mikil.

Hin brtt. er við 13. gr. E. 4. Fer hún fram á, að við þá upphæð, sem veitt er til viðgerðar og eftirlits sjómerkjum, sem er 8000 krónur, sje bætt 5500 krónum, svo að upphæðin alls verði 13500 krónur. Er ætlast til, að það, sem hjer er bætt við, gangi til að greiða eftirstöðvar af byggingarkostnaði smávitanna þriggja við Berufjörð frá 1922, sem nemur kr. 5481,55. Nemur þessi upphæð því, sem kostnaðurinn við byggingu vitanna fór fram úr áætlun, sem gerð var við byrjun verksins, upphæð, sem þá var fengin og trygð greiðsla á. Er það kunnugt af skýrslum vitamálastjóra, hvernig aukakostnaður þessi er til kominn, af hverju hann fór svo langt fram úr áætlun. Jeg þarf varla að minna á, að þegar ákveðið var á þinginu 1919 að byggja stærri vitana við Berufjörð, þá var kostnaðurinn fyrst áætlaður 12 þúsund krónur til smávitanna, sem hjeraðinu var ætlað að kosta, en síðar færður upp í 18 þúsundir og síðast í 25 þúsundir. Þetta fje alt var svo greitt af hendi næstl. ár. 18 þúsundir úr ríkissjóði og 7 þúsundir af Fiskiveiðafjelagi Íslands. Kostnaðurinn við byggingu vitanna fór svo þetta fram úr áætlun. Ástæðurnar voru þær, að samningar brugðust, sem gerðir voru við Eimskipafjelagið um flutning á sementi til vitabygginganna. Kom sementið ekki á þeim tíma, sem tilsett var, og varð verkafólk, sem vinna átti að smíðinni, af þeim sökum að bíða lengi aðgerðalaust, og varð af því mikill kostnaður. Að lokum varð svo að fá sent sement frá Reykjavík, sem kostaði 7 krónum meira tunnan en hitt átti að kosta, auk flutningskostnaðar frá Reykjavík. Þessi aukakostnaður er því bein afleiðing af því, að Eimskipafjelagið stóð ekki við loforð sín um sementsflutninginn, og er sá kostnaðarauki í rauninni óviðkomandi hjeraðsmönnum.

Þá var önnur ástæða til aukins kostnaðar sú, að vitamálastjóra hugkvæmdist alt í einu að breyta til um tilhögun eins vitans og lýsa hann með gasljósi, í stað olíuljóss. Gerði hann þetta í því skyni, að rekstrarkostnaður vitans yrði minni og gæsla hans ódýrari, en sú ráðstöfun kom hjeraðinu á óvart og var eigi fyrir það gerð. Jeg hafði á sínum tíma ritað háttv. fjvn. um þetta og mælst til þess, að hún tæki þennan kostnaðarauka upp í till. sínar. En hún hefir ekki sjeð sjer þetta fært, að jeg býst við sökum þess, að hún óttaðist, að fordæmið leiddi til frekari fjárbæna um líkt efni frá öðrum stöðum. Segist hún ekki hafa viljað skapa fordæmi um það, að slíkar upphæðir væru teknar upp í fjárlögin. Jeg vil þó halda því fram, að hjer sje um fulla sanngirniskröfu að ræða og að með þessu sje ekkert athugavert fordæmi skapað. Það er augljóst, að þessi kostnaður er með öllu óviðkomandi sýslunni, þar sem hann stafar af orsökum þeim, sem jeg nefndi. Auk þess stendur svo á, að þau hjeruð, sem helst gætu komið til greina til samanburðar, hafa ekki enn þá greitt sinn hluta þess kostnaðar, sem þeim hefir verið lagður á herðar, en þetta hjerað hefir að öllu greitt. Það stendur enn ógreiddur helmingur kostnaðarins við vitabygginguna í Hrísey. Og ekkert hefir enn verið greitt af hjeraðsins hálfu til vitans á Vatnsnesi, eftir skýrslu vitamálastjóra, en sá viti átti þó að byggjast af hjeraðinu. Það getur því tæpast talist nein ósanngirni að fara fram á þetta, Það mætti vel verða að fordæmi við þau hjeruð, sem greitt hafa svo mikinn hluta byggingarkostnaðar sem þetta hjerað, því að hjer er reyndar farið fram á aðeins röskan 1/6 kostnaðar, og hann þó stafandi af atvikum hjeraðinu óviðkomandi.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta og ekki heldur um hinar aðrar brtt., þótt jeg hefði að vísu nokkurt tilefni til að minnast á sumar þeirra. Það er aðeins ein spurning, sem mig langaði til að leggja fyrir hæstv. atvrh. (KIJ). Því miður er hann nú ekki við, en það má vera, að háttv. frsm. fjvn. (MP) geti svarað henni. Fyrirspurnin er sú, hvað hæstv. stjórn hafi hugsað sjer með hraðskeytasamband sunnanlands gegnum loftskeytastöð á Síðu, án þess að hafa nokkra loftskeytastöð á Austurlandi. Jeg fæ ekki sjeð, að hraðskeytasamband við útlönd verði fengið sunnanlands með loftskeytastöðvum, nema móttökustöð sje austanlands, og verður því þetta, sem nú á að gera, að nokkru leyti unnið fyrir gýg, meðan slíka móttökustöð vantar. Mig langaði til að fá að vita um þetta áður en atkvgr. færi fram, því atkvæði mitt mun fara nokkuð eftir því, hvernig leyst verður úr spurningunni.

Skal jeg svo láta staðar numið að sinni.