10.04.1923
Neðri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í B-deild Alþingistíðinda. (661)

1. mál, fjárlög 1924

Hákon Kristófersson:

Það var viðvíkjandi símamálunum, sem jeg vildi beina þeirri spurningu til bæstv. atvrh. (KIJ), eftir að hafa heyrt framsöguræðu háttv. frsm. (MP), hvort ætlast sje til, að það sje laust og óbundið, í hvaða röð þessar nýju símalínur verði lagðar. Sömuleiðis vil jeg spyrja háttv. frsm. (MP) að því, hvort jeg hafi ekki skilið hann rjett, að allir símarnir ættu að fylgjast að, þannig, að þeir yrðu allir lagðir sama ár.

Háttv. þm. Borgf. (PO) mintist á, að það væri hugsjón þjóðarinnar, að fjárlögunum yrði skilað tekjuhallalausum. Það er vitanlega alveg rjett hjá háttv. þm., að það er almennur vilji, að þingið spari sem mest. En þetta kemur í bága við það, sem flestir háttv. þm. munu þekkja, að heima í hjeraði er lagt fyrir hvern þingmann að afla sem mests fjár til síns hjeraðs. Er þetta í beinni mótsögn við þá hugsjón, að sparnaðurinn sje það, sem alþjóð sje hugþekkast, og virðist þjóðin vera að gefa sjálfri sjer á munninn með þessu. Auðvitað tel jeg ekkert æskilegra en að fjárlögin gætu orðið tekjuhallalaus, en háttv. þm. Borgf. (PO) kom fram með í ræðu sinni atriði, sem ekki hefir lítil áhrif á það hvort þeim tilgangi verður náð. Á jeg þar við það, sem hann sagði um landhelgisgæsluna. Það er sjálfsagt gott að geta varið landhelgina sem best, og um það munum við allir á einu máli, en annað mál er það, hvort vjer erum færir um það fjárhagslega að auka kostnaðinn við það svo mjög, sem hann fer fram á. Jeg fyrir mitt leyti efast um, að svo sje, þótt jeg að sjálfsögðu telji það markið, sem við eigum að stefna að, en þó ekki fyr en svo, að við þess vegna lendum ekki í fjárhagslegum ógöngum.