10.04.1923
Neðri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

1. mál, fjárlög 1924

Forsætisráðherra (SE):

Jeg skal játa það, að mjer fellur það illa, ef sýslumenn og bæjarfógetar verða mjög hart úti.

Þessum mönnum er trúað fyrir mjög þýðingarmiklum og ábyrgðarmiklum störfum, svo sem skatta- og tollainnheimtunni, og er því næsta mikilsvert, að þessir menn hafi sæmileg laun. Mjer virtist satt að segja, að athugasemdir háttv. frsm. (MP) um upphæðina til þessara manna væru á heldur litlum rökum bygðar. Hann ljet sjer nægja að vísa til þess, að mjög kunnugur maður í stjórnarráðinu hefði talið þau of há, og þetta taldi hann næga sönnun. Jeg held, að það sje nú ekki venja þessa háttv. þm. að byggja mjög á „Autoritetum“; hefir honum því sennilega orðið þungt um rökin, er hann varð að grípa til þessa.

Enda sýndi sá listi, sem jeg las upp hjer í gær, að ákvæðum launalaganna um skrifstofukostnað sýslumanna er ekki fullnægt. Því að 11. gr. launalaganna verður ekki skilin öðruvísi en svo, að þessi kostnaður eigi að greiðast utan við launin.

Jeg las þá einnig upp skýrslu frá sýslumanninum í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu um embættiskostnað hans, en jeg skal nú endurtaka þetta, sökum þess, hve sláandi dæmi það er upp á það, að þessi upphæð er ekki of há. Hann reiknar: Laun til skifara 2000 kr., skrifstofukostnaður, hiti og ljós 600 kr., ritlaun 300 kr., og svo kemur nákvæmlega sundurliðaður þingaferðakostnaður, 4 hestar í 12 daga, 5 kr. á dag, 240 kr., kaup fylgdarmanns 120 kr. og gisting 120 kr. Samtals 480 kr. Allur embættiskostnaðurinn verður 3380 kr., en stjórnin hefir gert þessum manni 2250 kr. til starfrækslu embættisins.

Þegar þess er nú gætt, að sýslumaður þessi er mjög sparsamur og allra manna samviskusamastur og nákvæmastur í allri embættisfærslu sinni og getur látið fylgiskjöl fylgja öllum þessum liðum, þá held jeg, að engum geti. dulist, að sýslumennirnir verði allhart úti, þar sem þeir verða að borga mikið sjálfir af þessum kostnaði.

Hv. frsm. (MP) þóttist ekki vita, hvað fælist í þessum kostnaði. Jeg held, að honum hljóti nú að vera þetta ljóst, en jeg get talið upp stærstu liðina við starfrækslu embættanna. Það er: leiga eftir skrifstofu, ljós og hiti, þingaferðir, bækur og pappír og starfsfólk.

Þá sagði hann, að sjer væri ekki ljóst, hvernig starfrækslukostnaðurinn væri gerður upp á millum sýslnanna. Jeg skal játa það, að þetta er hið mesta vandaverk, og hefi jeg þar lítið hróflað við grundvelli þeim, er fyrverandi stjórn hefir lagt. Að því er Dalasýslu snertir, sem háttv. frsm. (MP) mintist á, er einungis reiknað hús, hiti og ljós og kostnaður af þingaferðum, alls 765 kr., og hygg jeg, að flestum komi saman um, að þetta sje ekki of hátt. Í Strandasýslu er skrifstofukostnaðurinn 1440 kr., enda auðvitað meira að gera þar en í Dalasýslu, svo gert er ráð fyrir, að sýslumaðurinn þurfi einhverja skrifstofuaðstoð.

Kostnaðurinn í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, Húnavatns-, Skagafjarðar og Skaftafellssýslum mun vera mjög líkur, og er þar settur 2250 kr. Er þá gert ráð fyrir, að þeir komist af með þá skrifara. Ef laun skrifara í þessum sýslum eru áætuð 1500 krónur, þá eru rúmar 700 kr. eftir til alls annars kostnaðar, og er auðsætt, hvað ríflega það er áætlað. Árnessýslu eru ætlaðar 3115 kr., og mun það síst of mikið.

Er því auðsætt, að stjórnin hefir hjer sýnt hinn mesta sparnað, enda eru sýslumennirnir mjög óánægðir og kvarta sáran undan því, hve hart þeir verði úti. Er þess og að gæta, að þeir urðu einna harðast úti við launalagabreytinguna. Mörg embættin, sem áður þóttu einna eftirsóknarverðustu embætti í landinu, svo sem bæjarfógetaembættin á Akureyri. Seyðisfirði og Ísafirði, eru nú orðin einhver verstu embættin. Þetta stafar af því, að svo að segja allar aukatekjur þessara embætta fara nú í ríkissjóð, en hins vegar við þau mikil útgjöld og mörg þeirra mjög erfið. Hv. frsm. (MP) spurði, hvers vegna stjórnin hefði þá ekki sett hærri upphæð inn í fjárlagafrv. Jeg gat þess í gær, að það hefði stafað af því, að mjer hefði ekki unnist tími til að fara nema einu sinni yfir fjárlagafrv., sökum skyndilegrar utanfarar minnar.

Þá vil jeg víkja að landhelgisgæslunni.

Ástæðan til þess, að ekki var sett hærri upphæð til hennar en í fjárlagafrv. stendur, var sú sama og jeg tók nú síðast fram. Auk þess vissi jeg ekki þá, hvort verða mundi úr aukningu landhelgisgæslunnar af Dana hálfu. Geymi jeg mjer rjett til að koma fram með brtt. síðar um þetta, en jeg veit, að þessi upphæð er of lág. Kostnaður þessi var í fyrra kr. 70248.17, og minni verður hann auðvitað ekki nú, enda þótt í engin skipakaup verði ráðist, hvað þá heldur þá. En jeg lýsi því yfir hjer, og hefi gert það áður, að jeg álít, að hjer megi síst spara, og vil jeg leggja hina mestu áherslu á, að landhelgisgæslan veiði sem best. Er jeg mjög þakklátur hv. þm. Borgf. (PO) fyrir hans mikla áhuga í þessu máli, og veit jeg, að starfs hans í þágu þessa máls verður lengi minst með miklu þakklæti.

Út af brtt. frá háttv. minni hl. fjvn. (BJ) vil jeg geta þess, að maður þessi, Kristján Jónasson, sem háttv. minni hl. leggur til, að verði veittar 1500 kr. kom til mín og bað mig að bæta sjer tjón það, sem hann hefði orðið fyrir. Jeg gat auðvitað ekki tekið beiðni hans til greina, þar sem engin lög eru til, sem leyfa slíkt. En jeg vil mæla með því, að manni þessum verði að einhverju bætt upp tjón hans, því að öll sanngirni mælir með því, þó að lagaheimild sje engin til þess.

Um spítalann á Ísafirði vil jeg taka fram enn, að jeg álít, að rjett sje að veita annaðhvort alla upphæðina eða ekkert. Hitt, að veita ekki nema nokkurn hluta upphæðarinnar, er ekki til annars en þess að teyma bæjarfjelagið út í kostnaðarsamt fyrirtæki, sem svo verður því ef til vill ofviða, ef svo skyldi fara, að það fengi ekki meiri styrk úr ríkissjóði. En sökum fjárhagsins tók stjórnin ekki þessa fjárveitingu upp. Annars eru öll þessi spítalamál hjer hin mestu vandræðamál. Þörfin er mikil, en fjeð vantar. En þó er það Kleppsspítalinn, sem jeg hygg, að sje mest áríðandi að veita fje til. Hefir verið lagt til hans 150 þús. kr., en eftir byggingaráætlunum húsagerðarmeistara ríkisins, sem eru tvær, er önnur áætlunin yfir 400 þús. kr., en hin hátt á 4. hundrað þús. kr. Er hin mesta nauðsyn á byggingu Kleppsspítalans, enda loforð fyrir, að hann verði látinn ganga á undan öðrum byggingum, sem auðvitað verður haldið.