10.04.1923
Neðri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

1. mál, fjárlög 1924

Ingólfur Bjarnarson:

Hv. frsm. fjvn. (AIP) hefir að vísu tekið að mestu leyti af mjer ómakið, en þó ætla jeg að fara nokkrum orðum um byggingu loftskeytastöðva, sein fjvn. hefir lagt til, að reistar yrðu í Grímsey og Flatey með landtökustöð á Húsavík. Nauðsyn Grímseyinga á því að fá loftskeytasamband við land er augljós öllum mönnum. Þeir liggja langt norður í reginhafi. sambandslausir við umheiminn lengst af, læknislausir og ósjálfbjarga í verslunarsökum. Sem dæmi þess get jeg nefnt, að nýlega voru sendir 2 mótorbátar til Grímseyjar frá Húsavík, hlaðnir vistum og annari björg til eyjarbúa, því verslun er engin í Grímsey, nema útibú nokkur frá Húsavík, og verslunarviðskifti sín að öðru leyti hafa þeir við Húsavík nær öll. Þá er Flatey á Skjálfandaflóa. Er líkt á komið með hana og Grímsey. Strandferðaskip koma þar ekki og afarörðugt að ná til annara sveita landleiðina frá Flateyjardal, sökum fjarlægðar og að yfir fjöll er að sækja. T. d. kemur sóknarprestur sá, er þar á annexíu, aldrei þangað á vetrum, eða að minsta kosti er það undantekning. Læknis vitja þeir ætíð til Húsavíkur og öll þeirra verslunarsambönd eru þar. Í Flatey munu búa um 120 manns.

Þá má hins vegar geta þess, að Flatey er þannig sett, að þar gæti verið ágætis fiskiveiðastöð. Fengist þar reist loftskeytastöð á eynni. myndi útgerðin að sjálfsögðu vaxa þar stórkostlega. Þar sem nú ríkið á eyjuna alla, mundi ríkiseignin aukast að stórum mun við það, að loftskeytastöð yrði reist þarna. því það mundi verða til þess, að þar yrðu framfarir miklar í hvívetna.

Fjöldi fiskiskipa er árlega í nánd við eyna, fiski- og síldveiðaskip, sem mikið mundu nota skeytastöð, ef hún væri þar til. Jeg vona, að háttv. þingd. sje ljóst af þessu, er jeg hefi sagt, að full nauðsyn ber til, að þarna sje reist loftskeytastöð samhliða og í Grímsey, og leit fjárveitinganefndin svo á, að landtökustöðin kæmi hvorugri eynni að verulegu gagni, nema hún yrði reist í Húsavík, vegna hins nána sambands og viðskifta, sem þar er á millum. Það hefir nú verið sótt af kappi miklu af hendi Siglfirðinga, að landtökustöðin yrði reist þar, enda er það heldur engin nýlunda, þótt þeirra mál sjeu sótt af kappi miklu hjer á þinginu. Jeg las það nýlega í blaði þeirra Siglfirðinga, að þeir hefðu í vetur sent einn sinn vaskasta mann út til Grímseyjar, til þess að fá eyjarskeggja þar til að fallast á það, að landtökustöðin yrði reist á Siglufirði, af því vitanlegt var, að Grímseyingar höfðu óskað landtökustöðvarinnar á Húsavík. Þó tókst þessi för eigi betur en svo, að það kemur ljóst fram í brjefi því, er háttv. frsm. (MP) las upp frá þeim, að þeir kjósa stöðina langhelst á Húsavík. Geta þó allir skilið, undir hvaða skilyrðum brjefið muni vera samið. Hefir þessi ,agitation‘ því komið að litlu haldi.

Mjer kemur það undarlega fyrir, að því skuli vera haldið fram, og haft eftir landssímastjóra, að landtökustöðin mundi verða ódýrari á Siglufirði en Húsavík, og þá sjerstaklega að því er reksturinn snertir. Þetta þykir mjer allkynlegt. Sýslumaðurinn á Húsavík hefir skýrt mjer frá, að landssímastjóri hafi í viðtali við sig í fyrra talið, að mjög heppilegt mundi einmitt vera að hafa stöðina á Húsavík, og miklu betra en á Siglufirði. Enda er það öllum kunnugum vitanlegt, að vinna og annað, sem kaupa þarf, er eflaust hálfu dýrara á Siglufirði en Húsavík. En eftir því, sem háttv. 1. þm. Eyf. (StSt) skýrir frá, á kostnaðarmunurinn að felast í því, að enginn lærður loftskeytamaður sje á Húsavík og stöðvarstjórinn við landssímann þar geti ekki hert þessi fræði, sökum aldurs, skilst mjer. Verði því ekki hægt að sameina starfið við landssímastöðina, heldur verði að ráða til þessa annan mann. Á þessum rökum er svo þessi kostnaðargrýla reist, sem er algerlega villandi og ástæðulaus. Verð jeg að segja, að þó það sje tekin sem góð og gild vara, að stöðvarstjórinn sje óheppilegur til að læra þessa hluti, þá vill svo vel til, að hann á 2 uppkomin börn, sem starfa við landssímastöðina. Mundu þau að sjálfsögðu vera ágætlega fallin til að læra loftskeytastarfið, þar sem þau eru sjerstaklega efnileg og njóta besta orðstírs. Húsrúm hefir og landssímastöðin mjög gott og nóg til þess að starfrækja hvorttveggja.

Vitanlega verður kostnaður því samfara að láta mann læra loftskeytafræði; en þetta er líka sá eini aukakostnaður, sem af því leiddi, að stöðin yrði reist á Húsavík. Þar eru bæði vinnulaun og flest annað stórum ódýrara en á Siglufirði. Á Húsavík er nægilegt og ódýrt rafafl til rekstrar loftskeytastöðvar, en á Siglufirði er síður en svo. Þar er raflýsingarstöðin mjög oft í ólagi, vegna vatnsskorts. Jeg er því í engum vafa um, að er tímar líða, mundi rekstur loftskeytastöðvar miklum mun ódýrari á Húsavík en Siglufirði. Tveir háttv þm., 1. þm. Eyf. (StSt) og þm. Ísaf. (JAJ), gerðu mikið úr þýðingu landtökustöðvarinnar á Siglufirði fyrir fiskiveiðarnar og alla útgerðina þar, nefnilega, að skeytin bærust tafarlaust frá Grímsey til Siglufjarðar. Held jeg, að þeir hafi gert alt of mikið úr þessu. Það, sem jeg held, að aðallega sje um að ræða fyrir útgerðina, er að fá daglega, eða því sem næst, skýrslur úr Grímsey um afla og horfur fyrir fiskigöngur. Hitt held jeg að síður geti komið til mála, að Grímseyingar geti á hverri stundu sagt skipunum, hvert þau skuli halda í það og það skiftið. Og heldur mun það sjaldgæft, hvort sem er, að veiði sje sjerstaklega í kringum eyna. Þessar daglegu aflaskýrslur mundu koma að sama haldi, þótt þær gengju yfir Húsavík, þrátt fyrir smátafir á leiðinni.

Þá má benda á, að fjöldi skipa er að staðaldri við veiðar austur hjá Langanesi og Sljettu, og fyrir þau er stöðin miklu betur sett á Húsavík. Þá er enn fremur bátaútgerð mikil frá Húsavík, sem sækir á mið nærri Grímsey, og er þeim nauðsyn á greiðu sambandi við eyna.

Það, sem athugaverðast er við að setja landtökustöðina á Siglufirði, er vitanlega, hve landssímasambandið er ómögulegt við Siglufjörð, einkum á sumrin, og hefir hv. þm. Ísaf. (JAJ) lýst því greinilega. Og það væri sannarlega fáránleg tilhögun, ef skeyti úr Flatey til Húsavíkur þyrfti að senda yfir Siglufjörð og Akureyri, sem yrði til þess, að þau kæmu ekki fram fyr en máske seint og síðar meir.

Jeg þykist nú hafa sýnt, að símasamband eyjarskeggja úr báðum þessum eyjum er best komið, ef landtökustöðin verður reist á Húsavík. En sje landtökustöðin á Siglufirði, verður sambandið áreiðanlega meira í orði en á borði fyrir þá. Má ekki miða við það, þó Siglfirðingar sjeu háværir í kröfum sínum, heldur verður að taka tillit til þess, hvernig best verður sjeð fyrir þörf eyjarskeggja, því jeg tel hiklaust, að fyrst og fremst beri að taka tillit til þess, og þar næst, að stöðvarnar komi að sem almennustum notum. Vona jeg því, að háttv. deild hafi sannfærst um. hversu sjálfsagt er að reisa landtökustöðina á Húsavík, og orðlengi jeg ekki meira um þetta atriði.

En úr því að jeg stóð upp á annað borð, ætla jeg að nota tækifærið til að þakka hæstv. atvrh. (KIJ) fyrir undirtektir hans um Vaðlaheiðarveginn, en jeg ætla ekki að tefja tímann með því að hefja umræður um það mál. Það er svo ljóst orðið af ræðu hæstv. atvinnumálaráðherra og upplýsingum vegamálastjóra.