08.03.1923
Efri deild: 12. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (67)

33. mál, verðlaun fyrir útfluttan gráðaost

Frsm. (Jónas Jónsson):

Þessu frv. var vísað til fjvn., og hún hefir komist að þeirri niðurstöðu, að rjett sje að mæla með frv. með nokkrum breytingum. Jeg álít þær til bóta, og jeg er þakklátur hv. þm. Seyðf. (JóhJóh), sem á mikinn þátt í því að samræma frv. við eldri lög um verðlaun fyrir útflutt rjómabúasmjör. Jeg hefi áður gert grein fyrir frv., og breytingarnar fara allar í þá átt að tryggja það, að landssjóður greiði ekki þessi verðlaun nema undirbúningur verði nægilegur. Sú breyting, að lögin eigi að gilda til 2 ára, er miðuð við það, að þá mun fullreynt, hvort ostagerðin getur borið sig eða ekki. Það er næstum því óhugsandi, að starfað verði nema á einum stað þessi 2 ár, en ef reynslan sýnir, að þessi atvinnuvegur getur borið sig, þá er líklegt, að hann verði rekinn víðar, því að ostabúið hefir haft 4–5 manns til náms, sem síðar geta starfað við ný bú. En meðan alt er í óvissu, er ekki hyggilegt að byrja víðar að sinni.