10.04.1923
Neðri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Þorláksson:

Jeg ætla að fara nokkrum orðum um hinar fyrirhuguðu loftskeytastöðvar í Grímsey og Flatey og stöð þá, sem byggja þarf í sambandi við þær á landi.

Mjer finst háttv. fjárveitinganefnd líta svo á, að loftskeytastöð sú, sem reist verður á Norðurlandi, muni ekki fá annað meira verkefni en að halda sambandi milli Grímseyjar, Flateyjar og lands. En slík stöð hlýtur að fá annað verkefni, sem hefir miklu meiri þýðingu fyrir þjóðfjelagið í heild sinni.

Jeg vil þá fyrst minna á það, að hjer er þegar kominn vísir til loftskeytastöðvakerfis, því að loftskeytastöðvar hafa verið reistar fyrst og fremst hjer í Reykjavík, Vestmannaeyjum, Flatey á Breiðafirði og víðar. Jafnframt liggur í loftinu, að reisa þurfi tvær stöðvar mjög bráðlega, og hafa aðra á Norðurlandi, en hina á Austurlandi. Er ætlast til, að aðalhlutverk þeirra verði að hafa samband við skip úti í hafi, því að stöðvarnar á fiskiskipunum eru svo kraftlitlar, að þeim gengur mjög erfitt að ná sambandi við stöðina hjer, ef skipin eru fyrir austnorðan land, t. d. austur á Hvalbak. Sama er að segja um fleiri staði.

Aðalhlutverk stöðvarinnar á Norðurlandi verður því að hafa samband við skip, sem eru úti í sjó, og jafnframt fær hún annað verkefni, sem er að halda sambandi við loftskeytastöðvar þær, sem til eru hjer, þegar landlínurnar bila. Þriðja verkefnið yrði því að halda sambandi við eyjar. Þetta alt verður að hafa fyrir augum, þegar ákveða skal, hvar stöðin á að vera. Jafnframt verður að gæta þess að hafa stöðina þar, sem hún hefir mest verkefni, og þar af leiðandi gerir mest gagn, og einnig að hún sje sem næst góðu símasambandi. Landssímastjóri er mjög óánægður með að hafa þessa fyrirhuguðu norðanlands loftskeytastöð á Húsavík, sjerstaklega með tilliti til þess, að mest starf stöðvarinnar mun verða í því fólgið að afgreiða skeyti frá skipum og til þeirra. Húsavík er einungis talsímastöð, en ekki ritsímastöð, og liggur auk þess ekki á aðallínu landssímans, heldur á einni álmunni út frá henni. Sökum þessa þyrfti að setja þar upp öflugri stöð og jafnframt að fá mann, sem kynni símritun, og hann yrði að láta beinlínis læra til þessa starfa, því óhugsandi er, að núverandi stöðvarstjóri á Húsavík gæti tekið þetta að sjer, eins og háttv. þm. S.-Þ. (IngB) var að tala um, þar sem hann er nú orðinn aldraður maður, eflaust 50 ára gamall. Og landssímastjóri segir, að svo gamlir menn geti tæplega lært það, er með þarf til þessa starfa. Myndi því aukakostnaður við þessa stöð á Húsavík geta orðið um 2500 kr. Til samanburðar skal jeg nefna stöðina í Vestmannaeyjum; hún hefir engan aukakostnað í för með sjer, því hún er í sambandi við ritsímastöðina, og starfsfólk hennar telur loftskeytaafgreiðsluna sem einn part af sínu daglega verki.

Því hefir verið haldið fram, að Grímsey þurfi að fá beint samband við Húsavík, af því að þar sje verslunarstaður Grímseyinga. En þetta er vanhugsað hjá hv. nefnd. Því að þeirri reglu hefir ekki verið fylgt, þó að afskekt hjeruð hafi fengið loftskeytastöðvar, og má þar til nefna stöðina á Síðu; hefir hún samband beint hingað til Reykjavíkur, en ekki til Víkur, þó að þar sje verslunarstaður hjeraðsins. Líka hefir komið til tals að setja stöð í Öræfin, en ekki hefir heyrst, að hún eigi að fá beint samband við Hornafjarðarkaupstað, sem mun þó vera verslunarstaður þeirrar sveitar.

Þó Grímsey fái nú ekki beint samband við sinn verslunarstað, er henni alls ekkert gert rangt til, og virðist svo sem Grímseyingar hafi skilið þetta vel, jafnvel betur en háttv. fjárveitinganefnd.

Þá hefir því verið haldið fram, að erfitt sje að fá samband frá Siglufirði til Húsavíkur, en þar hefir gætt töluverðs misskilnings, því að þó erfitt kunni að vera að ná talsímasambandi við Siglufjörð um síldartímann, þá er þó alls ekki vont að fá skeytasamband, eftir því, sem landssímastjóri skýrir frá. Og myndu því skeyti, sem loftskeytastöðin í Grímsey sendi til stöðvarinnar á Siglufirði, komast tafarlaust þaðan til Akureyrar, en frá Akureyri yrði vitanlega að senda þau sem talsímaskeyti til Húsavíkur.

Það er vitanlegt, að óþægindi töluverð eru við að þurfa að nota talsímalínu á kafla, þar sem loftskeytastöðvar eru. En þó talsenda þurfi lítinn hluta þeirra skeyta, sem á milli stöðvanna fara, eru það hverfandi óþægindi, samanborið við að þurfa að talsenda allan meginþorra þeirra, sem áreiðanlega myndi þurfa, ef stöðin yrði sett á Húsavík; því að full vissa er fyrir því, að skeyti frá skipum, sem send yrðu til stöðvarinnar á Húsavík og þaðan til Siglufjarðar, Verða miklu fleiri en þau skeyti, sem Grímseyingar þyrftu að senda til lands. (IngB: Flatey þarf að senda skeyti líka). Um Flatey hefir landssímastjóri beðið þess getið, að þar sem hún liggur svo nærri landi, myndi vera rjett að athuga, hvort ekki væri hentugast að leggja þangað talsímalínu með sæsíma út í eyna, þar sem kosta myndi að starfrækja svo litla loftskeytastöð alt að 2–3 þús. kr. á ári.

Jeg spurði landssímastjóra, hvar þessi loftskeytastöð væri best sett á Norðurlandi, og taldi hann engan efa á, að það væri á Siglufirði, og þar næst á Akureyri. Og ef bygð yrði smástöð á Húsavík, sem síðar meir ekki fullnægði þörfinni, þá mætti búast við, að hún yrði lögð niður, þegar aðalstöð yrði bygð fyrir alt Norðurland. Vil jeg því ráða háttv. deild til að samþykkja ekki tillögu fjvn. fyr en hún hefir athugað vel, hvort ekki sje rjett að byggja loftskeytastöð, sem fullnægi öllu Norðurlandi.

Viðvíkjandi erfiðleikunum á að hafa stöð á Siglufirði, af því að rafveitan fullnægði ekki, er því til að svara, að sjeð mun verða fyrir því, að hún fái nægilegt afl til starfrækslu, þegar hún þyrfti og rafveitan ekki fullnægði, sem vera mun aðeins um þann tíma, sem mest er notað rafmagn til ljósa. Getur sú mótbára því ekki komið til greina.

Út af því, sem háttv. þm. Dala. (BJ) sagði, að kostnaðurinn við stöðvar þessar yrði meiri sökum fjarlægðarinnar á milli þeirra, vil jeg taka það fram, að allar vegalengdirnar milli þessara umræddu staða eru svo litlar, að mismunurinn á þeim skiftir engu máli.

Af þessum ástæðum, sem jeg nú hefi greint, og sökum hinnar miklu nauðsynjar fyrir landið alt að fá loftskeytastöð á Norðurlandi á hentugum stað, hefi jeg leyft mjer að koma fram með brtt. á þskj. 321, um að liðurinn orðist svo: „Loftskeytasamband milli Grímseyjar, Flateyjar og lands“. Er því til ætlast, að staðurinn verði ákveðinn eftir tillögum landssímastjóra.

En þar sem nú landssímastjóri hefir sagt mjer, að hin fyrirhugaða aðalloftskeytastöð Norðurlands væri langbest sett á Siglufirði, vil jeg biðja hæstv. forseta að skoða tillögu mína sem varatillögu við tillögu háttv. 1. þm. Eyf. (StSt), og bera hana því síðar upp; því jeg sje mjer fært að greiða atkvæði með henni, í því trausti, að málið verði þá til lykta leitt á rjettan hátt.