10.04.1923
Neðri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (673)

1. mál, fjárlög 1924

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Í þessum kafla fjárlaganna ætla jeg mjer ekki að fjölyrða um hvert einstakt atriði. Þó vil jeg minnast á það, sem hv. 2. þm. Reykv. (JB) sagði viðvíkjandi 7. gr., um hvernig væri háttað rentum og afborgunum af enska láninu. Mestur hluti enska lánsins rann á sínum tíma til bankanna, aðallega Íslandsbanka, og hafa þeir lánið með sömu rentu- og afborgunarskilmálum og ríkið hafði. Ríkissjóður er í skuld fyrir alt enska lánið, en á hins vegar mikla upphæð af því hjá bönkunum. Jeg skal játa, að eðlilegast og rjettast væri að telja allar greiðslur af því ríkissjóði til gjalda og hins vegar tekjumegin — eða þá frá dregið gjaldamegin innan línu — rentur og afborganir frá bönkunum. En meðan bankarnir standa í skilum með sínar greiðslur er hlutfallið að efni til sama og hjer væri um ríkisábyrgð að ræða, og því hefi jeg af „loyaliteti“ gagnvart fyrverandi stjórn og til þess að samhengi haldist í reikningunum tilfært enska lánið „nettó“ á sama máta og hún. Útkoman verður sú sama og villir engan, þegar vitanlegt er, að ríkið stendur í fullri og beinni ábyrgð fyrir öllu láninu. Annars er jeg þakklátur háttv. fjvn. fyrir það, að hún hefir ekki hróflað við 7. gr.

Síðan fjárlagafrv. var samið hefir nokkur gengisbreyting orðið; danska krónan hefir lækkað, en pundið hækkað, en það vegur hjer um bil hvort annað upp, svo aðalupphæðin getur haldist.

Viðvíkjandi hækkun símalauna hefi jeg litlu að bæta við það, sem hæstv. atvrh. (KIJ) hefir sagt. Þegar frumvarpið þurfti að fara í prentun og hann hafði ekki enn þá endanlega uppgerð yfir upphæðina, setti jeg sömu upphæð og í núgildandi fjárl. til bráðabirgða og gekk út frá, að lækkun dýrtíðaruppbótar, úr 80% niður í 60%, væri að minsta kosti næg til að vega á móti auknum starfsmannafjölda. Sú hefir ekki alveg orðið raunin á, hvort sem það nú stafar af því, að atvinnumálaráðuneytið hefir samþykt svo mikla aukningu starfsmanna eða stjórnin í fyrra hefir áætlað heldur lágt.

Um annað atriðið, viðvíkjandi aths. við símalagningar, get jeg ekki verið hæstv. atvrh. (KIJ) sammála um, að sje óþarfi, eða rjettara sagt þessi upptalning væntanlegra símalína er jafnóþörf, hvort sem aths. fylgir eða ekki. Það er honum og öðrum vitanlegt, að fje er ekki aflögum í þetta, og jeg get sagt honum það fyrir, að hann fær ekki lán til svona hluta. Hjer er því ryki slegið í augu háttv. kjósenda, og ef meira ætti að verða úr því, tel jeg það alveg frágangssök að nota svona veitingar til þess að fleyta stjórninni fram yfir þing eða þingmönnum fram yfir kosningar.

Háttv. 2. þm. Reykv. (JB) mintist á, að í fjárlögunum, aðallega 12. grein, væri ekki um auðugan garð að gresja með styrkveitingar til sjúkrafjelaga og verkalýðs og framlög til tryggingar lægri stjetta. Því er ekki að neita, að lítið er um slíkt. En þar er komið niður á principatriði viðvíkjandi fyrirkomulaginu á tryggingarmálum. Sú leið er mjög víða farin, að flokka tryggingarmálin þannig, að sjúkratrygging sje út af fyrir sig, ellitrygging sjer o. s. frv., og mynda svo allar þessar sjerstöku tryggingar eitt kerfi, þar sem menn eru eiginlega trygðir fyrir öllu því, sem á kann að bjáta. Þetta kerfi kemur þannig í stað allsherjar- eða þjóðtryggingar, og er sú leið farandi í stórum löndum, þar sem mannfjöldinn er nógur. En hjer í fámenninu held jeg, að hún geti ekki komið til greina, en bein allsherjartrygging hygg jeg eigi vel við her, þar sem menn gætu verið trygðir jafnvel svo frá blautu barnsbeini. Þetta er vitanlega algerlega framtíðarmál, en jeg vildi svara þessu til út af ummælum háttv. þm. (JB), þar eð jeg geri ekki ráð fyrir, að tök sjeu á að hafa tryggingar hverja í sínu lagi. Jeg skal geta þess, að jeg hefi þó gert nokkuð að undirbúningi þessa máls og talað við nefnd í þinginu um frumdrætti þessara trygginga og um, hvernig haganlegast væri að koma þeim fyrir, en jeg þori ekki að fullyrða, hvort frumvarp í þessa átt nær að koma til umræðu á þessu þingi, þó síst væri of fljótt að fara að hreyfa málinu.