10.04.1923
Neðri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg býst við, að jeg þurfi ekki að halda langa ræðu. Jeg get slept að svara hæstv. forsrh. (SE), því að það hefir háttv. 1. þm. Skagf. (MG) þegar gert.

Út af fjárveitingunni til manntalsútgáfunnar, sem nefndin gat ekki mælt með, skal jeg geta þess eins, að þó nefndin teldi þetta að vísu gott mál á sínu sviði, áleit hún, að það mætti bíða svo sem ár enn, ekki síður en margt annað.

Hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) talaði enn allmikið um vitana austur í kjördæmi sínu og fór nú út í samanburði við aðra staði. m. a. Keflavík. En þetta tvent er alls ekki sambærilegt, því á síðarnefnda staðnum þótti sveitinni sjálfri svo mikið við liggja, að hún ljet reisa vitann án nokkurs styrks, en leitaði svo styrks eftir á að nokkrum hluta. Annars veit jeg ekki til, að fjvn. hafi gefið neitt loforð um Strætishorns- og Papeyjarvitana og er ekki bundin við það að fara eftir neinu öðru í þessu efni en henni þóknast og þykir rjett. Jeg þarf annars ekki að fjölyrða um þetta nú, en get vísað til þess, sem áður er sagt frá nefndarinnar hálfu um þetta mál. Jeg vil aðeins undirstrika það, að hjer er um að ræða stefnumál og stefnumun, sem frá nefndarinnar hálfu gengur jafnt yfir alla, svo að alveg ástæðulaust er að vera stöðugt að japla á því, að verið sje að ganga fram hjá Austfirðingum í þessu efni.

Háttv. sami þm. (SvÓ) var einnig að tala um það, að breytingarnar á framkvæmdum í vegagerðum kæmu, samkvæmt tillögum nefndarinnar, næstum því eingöngu niður á kjördæmum nefndarmanna sjálfra. Jeg veit nú ekki, hvers vegna þetta er sagt, ef það er ekki til þess að gefa í skyn, að nefndin sjái ekki út fyrir sín eigin kjördæmi og sína eigin hagsmuni. Slíkum dylgjum þarf jeg ekki að svara. En um vegatill. sjálfar vil jeg segja það, að þær hafa fyrir löngu verið lagðar til af vegamálastjóra, svo að barnalegt er að saka nefndina um neitt í þessu efni, og þá því síður vegamálastjóra, því engum dettur víst í hug, að hann hafi fyrir nokkrum mánuðum getað útbúið slíkar till. í samræmi við það, hvernig fjvn. yrði ef til vill skipuð nú.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) talaði einnig um það, að ekki væri alt undir því komið að koma sem flestu í verk, heldur því, hvað væri til mests hagnaðar fyrir ríkið í heild sinni. Og þetta er sjálfsagt rjett: en þá verða menn jafnframt að muna það líka, að fleira er hagnaður en beinn peningahagnaður, og er óbeini hagurinn oft ekki minna virði en sá beini. Má minna þar á símana t. d. En úr því að jeg mintist á síma, skal jeg víkja stuttlega að ummælum, sem hjer hafa fallið um viðhald símalínanna, þar sem háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði, að þær væru margar orðnar svo gamlar, að stórfje þyrfti til endurbóta á þeim. En nú er það svo, að allmikið fje er árlega veitt til viðhalds símalínum, og ætti það, eftir því sem landssímastjóri telur, að nægja til þess að endurnýja línurnar eftir þörfum smám saman.

Mjer þykir leiðinlegt, að jeg þarf að verða langorðari en jeg bjóst við. En jeg verð að minnast á nokkrar brtt., og vil jeg þá aðallega snúa mjer að loftskeytastöðvartillögunum norðanlands. Hv. 3. þm. Reykv. (JÞ) hefir komið fram með brtt. í þá átt, að aðeins skuli tiltaka, að stöðin verði norðanlands, ótiltekið hvar. Álasaði hann nefndinni fyrir það, að hún hefði of mjög einblínt á það, að stöðin ætti eingöngu að vera til þess að skapa samband milli vissra staða norðanlands innbyrðis, en ekki tekið tillit til þess, hve nytsamt það væri yfirleitt að fá stöð fyrir Norðurland alment. Jeg held aftur á móti, að hann hafi einblínt of mjög á þessa síðari hlið. En þó svo væri, að stöðin ætti aðallega að vera skipastöð fyrir Norðurland, sje jeg ekki, að hún væri betur sett á Siglufirði heldur en í Grímsey, Flatey og á Húsavík, því þar mundi hún einnig vera í sambandi við alt símakerfi landsins, en auk þess skapa þessum stöðum samband, sem þeir hafa ekki. Út af því, sem sagt var í þessu sambandi, að stöðin þyrfti að hafa samband við aðallínu landssímans, og þess vegna væri ekki hægt að fara eftir till. nefndarinnar, sje jeg heldur ekki, að Siglufjörður sje þar betur settur, því hann mun líka vera á aukalínu út frá aðallínunni. Og það, sem sagt var um nauðsyn eða sanngirni þess að fá Norðurlandsstöð, af því að Vestfirðir hefðu þegar fengið eina á Ísafirði, er það fyrst og fremst rangt, að nokkur stöð sje á Ísafirði; hún er á Hesteyri, og svo er einmitt Hesteyrarstöðin, eða lega hennar, líka til að mæla á móti Siglufirði fyrir hina stöðina, því þá yrði óþarflega stutt á milli þeirra, en hins vegar langt svæði austur á bóginn stöðvarlaust. Er bersýnilega haganlegra, einmitt ef um skipastöð fyrir Norðurland væri að ræða, að hafa hana austar, og þá á Húsavík, og mundi það koma að miklu meira gagni. Ástæðan, sem færð var fram á móti Húsavík, að stöðvarstjórinn væri orðinn svo gamall, að hann gæti ekki lært að fara með loftskeytatækin, er mjög lítils virði. Það hefir líka verið tekið fram hjer, að það er alls ekki hann sjálfur, heldur börn hans, sem starfrækja stöðina, og kemur þetta því alls ekki til greina, því ekki mun það á orði haft, að þau sjeu ómöguleg til lærdóms. Annars þykir mjer það undarlegt. hvað landssímastjóri leggur fast á móti stað nefndarinnar. En í sambandi við það, sem eftir honum hefir verið haft hjer, skal jeg taka það fram fyrir mitt leyti, að að Húsavík fráskildri tel jeg Akureyri heppilegasta staðinn.

Hv. 1. þm. Eyf. (StSt) þarf jeg engu að svara, og út af því, sem hv. þm. N.-Ísf. (SSt) sagði um það, að ekki væri nægileg trygging fyrir framhaldsfjárveitingu til sjúkrahússins á Ísafirði, skal jeg geta þess, að sennilega verður ekki byrjað á verkinu fyr en á næsta ári, og mundi þá geta orðið sjeð um hug næsta þings áður en hafist yrði verulega handa, og tillaga nefndarinnar sniðin til þess eins að skifta fjárveitingunni niður á fleiri fjárhagstímabil, en alls ekki til þess að gera málið að neinu leyti ótryggara.

Að lokum vil jeg leyfa mjer að skjóta því til hæstv. forseta, að till. nefndarinnar um símalínurnar verði bornar upp allar í einu lagi, því nefndin hefir ekki viljað gera greinarmun á þeim.