10.04.1923
Neðri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (681)

1. mál, fjárlög 1924

Forsætisráðherra (SE):

Það eru aðeins fá orð, sem jeg hefi að segja. Jeg vil þakka fjvn. fyrir það, að hún hefir sjeð sjer fært að taka upp 1500 kr. styrk handa hjeraðslækninum í Reykjavík, til að kenna við háskólann. Það hafði verið af vangá, að þessi veiting var ekki í stjfrv., en jeg bað háttv. fjvn. að taka þetta upp, og þakka henni fyrir, að hún hefir gert það. Hjeraðslæknirinn er sem sagt ekki skyldur að kenna, nema hann fái til þess styrk. En háskólanum mikill skaði að því að tapa kenslu hans, því hann er hinn besti kennari og vísindamaður. (PO: Það hefir verið ljett af honum störfum bæjarlæknisins!). Já, en hann er alls ekki skyldur til að gegna þessu starfi án endurgjalds.

Um 53. brtt. fjvn. skiftir að vísu ekki miklu máli, en nefndin hefir þar lagt til að hækka laun forstöðumanns yfirsetukvennaskólans úr 1200 kr., er það var í stjfrv., upp í 1500 kr., eða um 300 kr. Jeg álít þetta samt alveg óþarft. 1200 kr. alveg nóg. Og ef landlæknisembættið verður áfram, þá ætti, svo framarlega sem háskólanum verður ekki falið þetta starf, að gera landlækni að skyldu að kenna ókeypis.

Þá skal jeg mæla með því, að veitt verði fje til umbúðakaupa o. fl. Frsm. (MP) hefir gert svo glögga grein fyrir þörfinni á þessum lið, að jeg skal eigi endurtaka það.

Þá er styrkurinn til Norræna fjelagsins. Stjórnin hafði ákveðið að taka hann upp, en liðurinn hafði fallið niður. Til þess, að fjelag þetta geti starfað með krafti, þyrfti auðvitað að veita því meiri styrk en þetta, og mun jeg, ef jeg sje mjer fært, koma með brtt. í þá átt. Í samskonar fjelögum í Noregi og Svíþjóð er eigi einungis starfað að viðgangi vísinda og lista, heldur og á sviði verklegra framkvæmda. Að komast í náin kynni við slík fjelög mundi geta orðið okkur að gagni.

Þá er það 68. brtt., styrkurinn til Jóh. L. L. Jóh. Meiri hl. fjvn. vill lækka hann um 1000 kr., en minni hl. fjvn. hækka hann um sömu upphæð. Jeg tel best að fara hinn gullna meðalveg í þessu efni og láta upphæðina í frv. stjórnarinnar halda sjer óbreytta.

Þá taldi háttv. frsm., fjvn. (MP) það undarlegt, að stjórnin hefði eigi lagt til, að fjárveitingin til veðurathugunarstofunnar lækkaði í hlutfalli við aðrar fjárveitingar. Jeg álít einmitt, að starfsemi þessarar stofnunar þurfi að auka, í Noregi eru veðurskeytin orðin mjög fullkomin og daglega send skeyti um veðurhorfur í allar verstöðvar. Menn fara svo ekki á sjó, þegar skeyti berast um ilt útlit. Er talið, að 80% af veðurspádómum rætist þar. Í Ameríku eru veðurskeytin líka orðin mjög fullkomin. Hjer er þetta enn í bernsku, en jeg hefi þó talað um það við einn foringja á Íslands Falk, og taldi hann, að veðurskeytin hjer rættust í mörgum tilfellum. Vona jeg því, að þetta geti haft mikla þýðingu og eigi fyrir sjer að fullkomnast. (PO: Þarf þetta að vera svona dýrt?). Mannslífin eru líka dýr!

Þá vil jeg mæla með því, að sú upphæð, sem Páli Ísólfssyni er ætlað, verði samþykt. Páll er þegar orðinn mjög þektur maður og okkur til mikils sóma, en jeg hygg þó, að fáir viti enn, hvað í honum býr.

Að námsstyrkur stúdenta var ekki áætlaður hærri, var eingöngu af sparnaðarástæðum. Sjálfsagt væri full ástæða til að hafa hann hærri.