10.04.1923
Neðri deild: 38. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í B-deild Alþingistíðinda. (682)

1. mál, fjárlög 1924

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg get, ekki síður en hæstv. forsrh. (SE). lofað því að vera stuttorður, því í þessum greinum eru ekki nema eitthvað 2–3 liðir, sem snerta mig.

Það er þá fyrst 51. liður. Þar leggur fjvn. til, að hækkaður verði liðurinn til viðgerðar húsa á Hvanneyri um 2500 kr. Jeg er mjög þakklátur hv. fjvn. fyrir þessa hækkun, því auðvitað dugir ekki að vanrækja viðhald húsanna. Og þó máske hefði mátt draga það eitthvað, þá er þó betra að gera það fyr en síðar og áður en húsin skemmast.

Samskonar fje til Hólaskólans hefir nefndin hækkað um 1000 kr. Jeg hefi nú komið fram með brtt. um að hækka þetta enn um 2300 kr., eða alls upp í 5300 kr. Jeg tel rjett að gera Hólum sömu skil og Hvanneyri. Þar er margt, sem þarfnast viðgerðar. einkum tröppur og þök o. fl.

Annars hefi jeg komið fram með þessa hækkun af því, að skólastjórinn á Hólum hefir sparað þessa upphæð á ýmsum liðum síðastliðið ár, svo sem á því, sem veitt var til ljósa, hitunar, verklegs náms o. fl. Fór svo skólastjóri fram á að mega verja þessu fje til viðgerðar á skólahúsum.

Nú veit jeg ekki, hver regla hefir um það verið á síðustu árum, hvort það fje, sem ein stofnun sparar á ákveðnum liðum, megi ganga til annara þarfa sömu stofnunar án þess ný fjárveiting komi til. Áður, eða meðan jeg var landritari, var þetta ekki talið leyfilegt, og vildi jeg ekki leyfa mjer að veita þetta fje án heimildar frá þinginu. Jeg hafi því farið fram á það, að þessi upphæð yrði veitt. Hefir háttv. frsm. (MP) tek ið vel undir það, og vona jeg, að háttv. þingdeild verði því samþykk.

Í sambandi við þetta skal jeg taka það fram, að það fje, sem fjvn. ætlar til viðgerðar Hólakirkju. er langt of lítið til þess, að full viðgerð geti farið fram. Það er engin mynd á því að láta dómkirkjuna grotna niður vegna vanhirðingar. Og það er ekki nóg, að það sje dyttað að henni. heldur þarf að koma henni í það horf, sem henni var upprunalega ætlað að hafa. Það sjest greinilega, þegar kirkjan er athuguð, að upphaflega hefir verið ætlast til, að bygður væri turn. Sýnir fyrirkomulagið það greinilega. Jeg býst nú ekki við, að sá turn verði bygður fyr en eitthvað batnar í ári, enda er þessi fjárveiting langt of lág til þess. Jeg hafði hugsað mjer að koma fram með fjárveitingu til þess í fjárlögum, en sá engan veg til þess að gera það, er verið var að ganga frá fjárlagafrv. En jeg vona að þingmenn sjái sjer síðar fært að veita fje til fullnaðarviðgerðar þessari frægu dómkirkju.

Þó það komi mjer ekki beint við, þá skal jeg geta þess, að upphæðin til veðurathugunarstofunnar var látin standa óbreytt í stjórnarfrv. vegna þess, að stjórnin hafði hugsað sjer, að Sigurður Þórólfsson, sem er greindur og glöggur á ýms veðurmerki og hefir skrifað bók um það efni, gæti starfað við þessa stofnun. Háttv. fjvn. virðist vera sammála um þetta, en verði upphæðin lækkuð, eins og brtt. fjvn. fer fram á, þá verður ekki hægt að láta Sigurð Þórólfsson fá þar fasta stöðu.

Jeg hefi þá ekki fleira að athuga við þessar tvær greinar. En út af till. fjvn., að aths. við 15. gr. 13. lið. um tekstaútgáfu Fornbrjefasafnsins, falli niður, þá vil jeg geta þess, að jeg tel útgáfu Fornbrjefasafnsins einskis virði, ef registur er ekki jafnframt gert yfir það og gefið út.