11.04.1923
Neðri deild: 39. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í B-deild Alþingistíðinda. (687)

1. mál, fjárlög 1924

Ingólfur Bjarnarson:

Háttv. þm. Barð. (HK) hreyfði dálítið mótmælum gegn till. fjvn. um styrk til alþýðuskóla í Þingeyjarsýslu, og gat meðal annars um, að hún kæmi í bága við aðra stefnu nefndarinnar, um sparnað á ríkisfje til framkvæmda- og mentamála. Þó að hún vilji nú spara, þá er ekki svo að skilja, að hún vilji leggjast á móti öllu, sem til þessa horfir. Og háttv. frsm. nefndarinnar (MP) hefir getið þess, að styrkveitingin væri í fullu samræmi við stefnu nefndarinnar í unglingafræðslumálunum og að sá þáttur fræðslumálanna eigi skilið góðan stuðning. Í öðru lagi gat hann þess, að þó að styrkveitingin væri ákveðin alt að 35 þús. kr., mætti gæta þess, að þó ekki væri gert ráð fyrir nema 70 þús. kr. í kostnaðaráætlun þeirri, sem fyrir þinginu liggur, þá hefir sú upphæð, við nánari athugun og rannsókn, reynst vera of lág. Kostnaðaráætlunin er ekki nægilega skýr eða tæmandi. Við nefndarmenn vonuðum að vísu, að kostnaðarupphæðin mundi ekki verða 90 þús. krónur, en töldum þó enga hættu á ferðum með að áætla þetta hámark; það mundi hvort sem er ekki verða veitt meira en 2/5 af öllum kostnaðinum. Við vildum ekki leggja stein í götu þessa fyrirtækis nje útiloka, að ríkissjóður tæki þátt í því að 2/5, þó að kostnaðarupphæðin yrði hærri en 70 þús. kr. En á hinn bóginn er það líka kostur fyrir fjárveitingavaldið að ákveða hámark upphæðarinnar.

Háttv. þm. Barð. (HK) las kafla úr þingmálafundargerð frá Húsavík, þar sem talað er um þröngan hag ríkissjóðs, til stuðnings þessu máli. Jeg vil nú ekki gera svo mikið úr þessu eins og hann, þar sem tveir aðrir fundir í kjördæminu samþyktu næstum einróma að fara fram á þessa upphæð. Án þess jeg vilji þreyta háttv. deild með löngum skýringum frá gangi málsins í hjeraðinu, skal jeg geta þess, að jeg geri ráð fyrir, að þessar gagnstæðu raddir þaðan stafi af því, að ekki eru allir á einu máli um, hvar skólinn verði best settur, hvort heldur í sveit eða kaupstað. Það hefir lengi vakað fyrir þeim, sem beist hafa fyrir þessu máli, að skólinn ætti fyrst og fremst að vera góður sveitaskóli og starfa í fullu samræmi við þá alþýðumenningu, sem lifað hefir og þróast í hjeraðinu undanfarið. Höfuðatriðið er þetta, að hann haldi fram stefnu og áhrifum þessarar menningar, og verði þannig öflugur hemill til tálmunar fólksstraumnum úr sveitunum til kaupstaðanna, í skólana og til skemtananna þar. Jeg geri ráð fyrir, að þessi skoðun sje ekki samþykt af þorpsbúum í Húsavík. Þeir munu heldur vilja hafa skólann þar, en sú skoðun á ekkert fylgi úti um sýsluna. Varla mun önnur ástæða fyrir þeim gagnstæðu röddum og ályktunum, sem borist hafa frá þessum fundum í hjeraðinu í vetur.

Þá gat háttv. þm. Barð. (HK) þess, að hjeraðið væri svo vel sett í þessum efnum að eigi væri þörf á skóla eða styrk til skólahússbyggingar. Jeg verð nú að vera á öðru máli um þetta, og þá skoðun byggi jeg á áliti Þingeyinga sjálfra, sem kemur fram í þingmálafundargerðum úr hjeraðinu og hjer liggur fyrir í erindi til þingsins.

Ástæðurnar fyrir því, að það er fram komið, eru skýrðar í brjefi því, sem fylgir styrkbeiðninni og háttv. þm. hefir sjeð. Þar er í fyrsta lagi tekið fram, að þetta skólamál sje búið að vera lengi á döfinni og í undirbúningi. Áhuginn dofnar fyrir því og fólkið þreytist, ef ekkert vinst í áttina. Búið er að safna miklu fje til skólans. Að vísu er það ekki alt innborgað, og enda þótt það sje alt trygt, þá verður innheimta þess örðugri, því lengra sem líður án þess nokkuð sje framkvæmt. Í öðru lagi er þess getið, að sá skóli, sem þar hefir starfað við smá kjör síðustu árin, getur alls ekki haldið áfram, vegna húsnæðisskorts og þröngrar aðstöðu, í köldum vetrum getur það verið beinlínis hættulegt heilsu nemenda að búa í því húsi, sem nú er notað.

Þetta vildi jeg taka fram gagnvart þeim athugasemdum, sem gerðar hafa verið, og veit jeg ekki, hvort þörf er á að minna á fleira að sinni. Það er vitanlegt, og á það vil jeg leggja áherslu, að þó að hámark styrksins sje hlutfallslega hærra en upphæðin í þeirri bráðabirgðakostnaðaráætlun, sem fylgir erindinu til þingsins, þá verður aldrei borgað út meira en 2/5 af byggingarkostnaðinum í heild sinni, eins og hann verður.