11.04.1923
Neðri deild: 39. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í B-deild Alþingistíðinda. (688)

1. mál, fjárlög 1924

Björn Hallsson:

Það eru tveir liðir, sem jeg vildi minnast á: 2. liður á þskj. 224 og í öðru lagi það atriði, sem síðasti ræðumaður talaði um út af ræðu háttv. þm. Barð. (HK). Háttv. þm. Barð. fann að því í ræðu sinni, hversu mikið fje væri lagt til Hvanneyrarskólans. Jeg skal ekki neita því, að húsið þar er dýrt orðið. En aðalorsökin til þess er dýrtíðin, sem stóð hæst þau árin, sem húsið var bygt. Skólastjórinn finnur það líka sjálfur fullvel, en hann hefir sagt mjer, að hann geti ekki kent sjer um það, hve dýrt húsið hefði reynst. Hann var búinn að leggja fram till. sínar til stjórnarinnar löngu áður en bygt var, eða árið 1917. Og hefði þeim verið sint þá strax, mundi byggingin hafa komist upp fyrir mestu dýrtíðina.

Háttv. þm. (HK) fann einnig að búnaðarskólunum; og það getur satt verið hjá honum, að margir búfræðingar sjeu illa að sjer í verklegum störfum. En ekki má dæma þá alla á sömu leið. Það er fyrirkomulagi bændaskólanna að kenna, hvernig búfræðingar reynast í verklegum efnum. Það var að mínu áliti vafasamt spor og misráðið, þegar verklega námið var afnumið við búnaðarskólana, og síðan breytt öllu í bóklegt nám, sem sumir kalla stofulærdóm. Hv. þm. Barð. (HK) þótti dýr framleiðsla búfræðinga frá Hvanneyri, vegna allra þessara bygginga þar og annars. Jeg ber ekkert á móti því, að svo sje, en jeg vil minna háttv. þm. á það, að ef við viljum hafa góða skóla, þá verðum við líka að búa þá vel út að húsum og öðru. Hvanneyrarskóli er viðurkendur vekjandi skóli. Forstöðumaður hans er duglegur og áhugasamur skólastjóri, og efa jeg ekki, að hann blæs lífi og áhuga í marga nemendur sína á því, sem íslenskum búskap má að gagni koma. Sje jeg því ekki eftir því fje, sem til þess skóla gengur, en vona, að það gefi vexti í framtíðinni.

Úr því að búið er nú að reisa þessa byggingu á Hvanneyri, verður að halda henni vel við, svo að hún fúni ekki niður. Jeg vil því samþykkja þennan gjaldalið til Hvanneyrarskólans.

Þá er annar liðurinn, sem jeg er fremur sammála háttv. þm. Barð. (HK) um. Mjer þykir það mjög mikið spursmál, hvort það skólamál sje nógu vel undirbúið til þess, að Þingeyingum skuli veittur þessi styrkur, sem nefndin hefir ákveðið. Þingmálafundagerðir úr hjeraðinu og ýmislegt annað bendir í þessa átt. Þingeyingar hafa áður sótt skóla mikið út úr hjeraðinu, og finst mjer það athugunarmál, hvort Eiðaskóli dugir ekki fyrir Þingeyjar- og Múlasýslur. Þeir hafa sótt skóla austur í Eiða bæði áður en honum var breytt í núverandi alþýðuskóla og eins meðan hann var búnaðarskóli. Þó að jeg sje mjög fylgjandi því, að skólar sjeu hafðir í sveitum, þá er samt sem áður vert að gæta þess, að skólarnir sjeu ekki hafðir of margir, svo að þeir þurfi ekki að standa tómir eða lítt notaðir. Þótt Eiðaskólinn hafi reynst of lítill enn, þar sem ekki er búið að byggja skólahúsið, þá getur svo farið, að öðru máli verði að gegna, þegar búið er að byggja þar og hægt verður að taka 100 nemendur í stað 40, sem nú er hægt að taka þar, og er þó of margt. Þingeyingar ættu því að hugsa vel um, hvort þeir geti ekki komist af með Eiðaskólann. Hann ætti einnig að duga fyrir Skaftfellinga, sem eiga fremur stutt að sækja þangað. Með þetta fyrir augum virðist mjer haganlegra að auka við og fullkomna Eiðaskólann tafarlaust heldur en að veita nú fje til að stofna nýjan skóla. Þetta er þungur baggi fyrir Þingeyjarsýslu, þar sem skólinn kostar líklega upp undir 90 þús. kr., og ætti því að athuga alt vel áður en í framkvæmd er ráðist. En það má enginn taka þetta svo, að þetta sje sagt til fjandskapar við Þingeyinga; síður en svo. Jeg get ekki greitt atkvæði með því á þessu þingi og fjölyrði svo ekki meira um það.