11.04.1923
Neðri deild: 39. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Þorláksson:

Jeg ætlaði aðeins að minnast á og leggja liðsyrði dálitlum styrk, sem í 66. brtt. fjvn. er lagt til, að falli niður. Styrkurinn á að ganga til Dansk-islandsk Samfund. Upphæðin er ekki svo stór, að hún snerti verulega fjárhag landsins. En í því að fella burtu þennan styrk felst sú óbeina viðurkenning frá Íslendingum, að hann sje ómaklega veittur.

Þegar jeg lít á þann tilgang fjelagsins, að auka gagnkvæm kynni Dana og Íslendinga og velvild milli landanna, þá virðist mjer hann hinn allra besti. Og ekki dregur starfsemi þess úr því áliti, alt það, sem fjelagið hefir gert í þessa átt. Jeg skal þá gefa ofurlítið yfirlit yfir störf þess frá því, að það var stofnað 1917. Það hefir á þessu tímabili gefið út 22 rit á dönsku og íslensku, fyrir utan blað, sem það gefur út til þess að auka þekkingu Dana á Íslandi. Nokkuð af bókunum er gefið út á íslensku, en hinar eru fleiri, sem komið hafa út á dönsku, til þess að útbreiða þekkingu á Íslendingum meðal Dana.

Bókaútgáfunni er hagað á þennan hátt fyrir þær sakir, að álitið er, að yfirleitt sje meiri þekking Íslendinga á Danmörku en Dana á Íslandi, og því meiri þörf að auka fræðsluna um Ísland á meðal Dana. Fjelagið hefir nú í smíðum ýms rit, sem enn eru ekki farin að koma út, og eru sum þeirra samin hjer, en önnur í Danmörku. Þá hefir fjelagið haldið uppi fyrirlestrum í báðum löndunum; hafa tvisvar sinnum komið hingað menn í því skyni og tveir verið sendir hjeðan til Danmerkur. Sömuleiðis hefir fjelagið haldið uppi námskeiðum í íslensku á tveim stöðum í Danmörku með sæmilegum árangri. Enn má telja það, að fjelagið hefir gengist fyrir mannaskiftum til stuðnings gagnkvæmri viðkynningu. Alls hafa eitthvað 37 Íslendingar leitað til Danmerkur á vegum fjelagsins og um 50 Danir dvalið hjer. Hefir fjelagið notið jafnframt aðstoðar Búnaðarfjelagsins í þessu. Þá hefir fjelagið á ýmsan hátt veitt mönnum aðstoð, með því að útvega þeim vinnu, upplýsingar um vinnu o. fl., auk þess sem margir hjeðan hafa fengið meðmælabrjef hjá fjelaginu og greitt fyrir þeim á annan hátt. Skrifstofu hefir það í Kaupmannahöfn og allmikið hefir það gert til að halda saman einhleypum Íslendingum, með því að gera þeim fært að koma saman á þriggja vikna fresti. Fjelagið nýtur 10 þús. króna styrks úr ríkissjóði Dana og hefir haft í vorum fjárlögum 1 þús. kr., sem aðeins fer til deildarinnar hjer. Auk þess hefir það nokkur árstillög frá fjelagsmönnum sínum. Mjer finst illa fara á því að fara nú að synja fjelaginu um styrkinn og er hræddur um, að lagt kunni að verða annað og meira inn í þá ráðstöfun en eintóm sparnaðarviðleitni, með öðrum orðum það, að ekki sje sint um það af hálfu hins opinbera að viðhalda vinfengi milli þjóðanna. Taka má það enn fram, að fjelagsskapurinn er algerlega ópólitískur og hefir jafnan haldið sjer utan við alla flokkadrætti, en er haldið uppi af áhugasömu alþýðufólki og mentamönnum í báðum löndunum. Jeg vil því vona, að háttv. deild lofi þessari litlu fjárveitingu til fjelagsins að ná fram að ganga, og vil þó samtímis geta þess, að jeg ætlast alls ekki til, að ræða mín sje skilin svo, að í henni komi nokkur andúð fram gegn Norræna fjelaginu, sem nefndin virðist vilja láta fá styrkinn í stað Dansk- islandsk Samfund. Jeg vil á engan hátt verða meinsmaður þess, að það njóti líks styrks, en þó er sá munurinn, að það fjelag er nýtt og ekki í neinu verulegu farið að sýna sig, þó það eigi vonandi eftir að gera margt og mikið, en hitt hins vegar í fullu fjöri og blóma, og tel jeg því í alla staði sanngjarnt, að það fái að halda þessari viðurkenningu, sem það áður hefir fengið frá þinginu.