11.04.1923
Neðri deild: 39. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 745 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

1. mál, fjárlög 1924

Ingólfur Bjarnarson:

Það virðist anda kalt til skólastofnunarinnar í Þingeyjarsýslu frá hv. 2. þm. N.-M. (BH). Varð helst dregin sú ályktun af ræðu hans, að hann óttaðist, að sá skóli, ef hann kæmist á fót, mundi draga úr vexti og viðgangi Eiðaskólans, en hins vegar varð eigi heyrt, að hann yfirleitt væri mótfallinn alþýðuskólum. En skoðun þessa hygg jeg bygða á misskilningi. Eftir því, sem mjer er best kunnugt, þá gerir Eiðaskóli ekki betur en fullnægja þörfunum austanlands; hefir sú verið reyndin á, að hann hefir ekki getað sint nema helmingi umsóknanna. Auk þess mundu Þingeyingar leita fremur til Akureyrar, á gagnfræðaskólann þar, eða í enn aðrar áttir, heldur en til Eiðaskólans. Það var að eins þetta, sem jeg vildi vekja athygli háttv. deildar á og leiðrjetta fram kominn misskilning hv. 2. þm. N.-M. (BH) á þessu atriði.