11.04.1923
Neðri deild: 39. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 758 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

1. mál, fjárlög 1924

Pjetur Ottesen:

Jeg ætla að hefja mál mitt með því að lýsa yfir, að jeg tek aftur brtt. við 15. gr., 9. lið á þskj. 292, að svo stöddu. Hæstv. forsrh. (SE), sem mun hafa verið beðinn fyrir málið, mun gera till. um það að taka þetta upp í frv. til fjáraukalaga, sem nú kvað vera í ráði að bera fram.

Þá vildi jeg segja nokkur orð út af orðum háttv. þm. Barð (HK) viðvíkjandi Hvanneyrarskólanum. Mintist hann á það í sambandi við fjárframlag það, sem hæstv. atvrh. (KIJ) hefir farið fram á til Hvanneyrarhússins, að skólinn væri nú orðinn svo dýr, að mörg góð frækorn þyrftu að koma þaðan til þess að hann svaraði þeim kostnaði, sem hann hefir haft í för með sjer fyrir landið. Er jeg sannfærður um, að þeir menn, sem til þessa skóla þekkja, muni sammála um það, að út frá þessum skóla berast mörg þörf og góð frækorn. En það er í rauninni eigi nema eðlilegt, að mönnum vaxi í augum sá kostnaður, sem á því varð að endurreisa íbúðarhúsið á Hvanneyri. En það, hve mikill kostnaðurinn varð, var, eins og háttv. 2. þm. N.-M. (BH) mintist á, að nokkru eðlileg afleiðing af dýrtíðinni þegar húsið var bygt upp, en það var, eins og kunnugt er, bygt á allra dýrasta tíma. Auk þess er það álit kunnugra manna, að byggingunni hafi eigi verið haganlega stjórnað, eigi gætt þeirrar varkárni, dugnaðar og hagsýni, sem nauðsynlegt er undir slíkum kringumstæðum. Má því gera ráð fyrir, að húsabyggingin hafi verið dýrari af þessum sökum en hún hefði þurft að vera, en það er kunnugt mál, að skólastjóri fjekk engu ráðið í þessu efni. En honum mun hafa blöskrað öll tilhögun við bygginguna, enda er hann viðurkendur dugnaðar- og atorkumaður, sem á örðugt með að þola, að eigi sje rösklega verið að verki.

Þá var háttv. þm. Barð. (HK) að flíka einhverri gróusögu, sem hann hafði sótt norður í Húnavatnssýslu og sýna átti, hve verklega námið á Hvanneyri væri ljelegt. En þó að vitanlega sje ekkert hæft í þessari sögu, heldur mun hún sprottin af þeirri tilhneigingu, sem yfirleitt ber töluvert á hjá honum, að hnjóða í menn og stofnanir, þá er því ekki að neita, að í reglugerð bændaskólanna er engan veginn lögð sú áhersla á verklega námið, sem vera þyrfti, en það má ekki skella þeirri skuld á þá, sem skólunum veita forstöðu á hverjum tíma.

En um kensluna í Hvanneyrarskólanum má óhikað segja það, að hún hefir verið og er mjög góð, enda hafa valist þangað mjög hæfir kennarar. Og hvað snertir skólastjórann, þá er jeg viss um, að engir nemendur munu fara þaðan án þess að flytja með sjer út í lífið haldgóð áhrif frá honum, því þessi alþekti dugnaðarmaður hefir alveg óvenjulega hæfileika til þess að glæða áhuga, manndóm og atorku með nemendum sínum. Var það og rjettilega tekið fram af hv. 2. þm. N.-M. (BH), að þeir, sem sækja skólann, yrðu þar fyrir mikilli uppörvun til starfs og atorku, enda gætti þeirra eiginleika mikið hjá nemendum þaðan. Auk þess er það eigi þýðingarlítið atriði, að á staðnum er rekinn búskapur með fyrirmyndar sniði og þar gerðar ýmsar tilraunir með fóðrun á búpeningi, og má mikið af því læra.

Þá vildi jeg minnast á eitt atriði í brtt. nefndarinnar, sem töluvert hefir verið rætt um, sem sje þessar 1500 kr. til hjeraðslæknisins í Reykjavík fyrir kenslu við háskólann. Háttv. frsm. (MP) og hæstv. forsrh. (SE) hafa haldið því fram, að það sjáist eigi á umr. á þinginu 1921, sem urðu um stofnun bæjarlæknisembættisins og þau mál, er rædd voru í sambandi við það, að til þess hafi verið ætlast, er hjeraðslæknisembættinu var skift, að þessi fjárveiting fjelli niður. Má vel vera, að það komi eigi beint fram í umr., en jeg er þó viss um, að ýmsir hv. þm. hafa litið svo á, að það leiddi af sundurgreiningunni, að fjárveitingin fjelli niður. Sje jeg það á ræðu háttv. þm. Str. (MP), að hann hefir gert ráð fyrir, að sóttvarnarlæknirinn, sem hann þá var kallaður, tæki að sjer nokkra kenslu við háskólann. Auðvitað stóð dálítið öðruvísi á með það embætti, ef stofnað hefði verið, þar sem gert var ráð fyrir hærri launum. Held jeg þó, að það hafi verið full ástæða fyrir hæstv. stjórn að athuga það, þegar bæjarlæknisembættið var veitt, hvort ekki hefði verið hægt að láta bæjarlækninn taka að sjer kensluna án sjerstakrar borgunar. Er það rjett, að það er ekki hægt að skylda hjeraðslækninn til þess að taka þetta að sjer án endurgjalds, en það hefði verið hægt að skylda bæjarlækninn til þess. Ber þess að gæta, þegar um skifting á embættum er að ræða, að eitthvað vinnist við það hvað útgjöld ríkisins snertir. Hæstv. forsrh. hefir lagt mikið upp úr því, hversu hæfur sá maður sje og ómissandi, sem kensluna hafi á hendi. Vefengi jeg það eigi, þó jeg á hinn bóginn verði að álíta það á færi fleiri manna að annast þessa kenslu.

Þá vildi jeg minnast nokkrum orðum á styrkinn til að byggja alþýðuskóla í Þingeyjarsýslu. Jeg þarf ekki að taka það fram, því það er alkunnugt áður, að jeg er mjög hlyntur alþýðuskólunum og tel sjerstaklega mikilsvert að styðja þá í sveitunum. En eins og sakir standa nú, get jeg ekki álitið að ráðlegt sje að leggja út í svo dýra byggingu; það er sem sje mín stefna, sem jeg kvika ekki frá, að draga beri svo úr útgjöldum ríkissjóðs nú sem kostur er á, í öllu því, sem hjá verður komist.

Með þessari fjárveitingu ætlar fjárveitinganefndin að leggja grundvöllinn að því, í hvaða hlutföllum skuli lagt fram úr ríkissjóði í framtíðinni til byggingar slíkra skóla. Um það í sjálfu sjer er ekkert að segja, og jeg vil taka undir það með háttv. þm. Barð. (HK), að það kenni nokkurs ósamræmis í hlutfallinu milli þátttöku ríkissjóðs í skólabyggingum, sem er 2/5, og upphæðarinnar, sem útfærð er, 35 þús. kr. Jeg segi, að það kenni ósamræmis í þessu, því samkvæmt þeirri áætlun, sem fyrir liggur, er kostnaður við byggingu skólans 70 þús. Hin tilfærða upphæð er því helmingur kostnaðar, í staðinn fyrir að samkvæmt hlutfallinu ætti þetta ekki að vera nema 28 þús. Mjer finst vera óþarfi og ekki hyggilegt að vera þannig að gefa hjeraðinu undir fótinn með að leggja í meiri kostnað við bygginguna en nauðsynlegt er. Það leiðir af sjálfu sjer, þegar búið er að lögfesta þessa þátttöku af hendi ríkissjóðsins í byggingu nýrra alþýðuskóla, að þá muni verða farið fram á samskonar þátttöku ríkissjóðs til handa þeim alþýðuskólum, sem nú eru og reistir hafa verið eða keyptir án nokkurs styrks af opinberu fje, og það mælir svo mikil sanngirni með því, að þeir njóti slíks hins sama, að það er ekki hægt annað en verða við þeim kröfum. Þetta verða menn að gera sjer ljóst.