11.04.1923
Neðri deild: 39. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

1. mál, fjárlög 1924

Bjarni Jónsson:

Jeg vildi leyfa mjer að gera nokkrar athugasemdir við hitt og þetta, sem fram hefir komið í umr. um þetta mál.

Háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) vildi láta gefa út stjörnufræði eftir Þorvald Thoroddsen. Jeg er í rauninni eigi mótfallinn því, að stjörnufræði þessi sje gefin út, en jeg get eigi sjeð, að nein sjerstök nauðsyn sje á slíkri bók nú. Háttv. þm. (SvÓ) tók það fram, að eigi væru til nema tvær aðrar bækur í þessari grein á íslensku, og virtist mjer hann vilja gera lítið úr stjörnufræði þeirri, er samin er af Birni Jenssyni. Björn er gamall kennari minn, og jeg þekki vel vinnubrögð þess manns, enda var það alkunna, að sá maður kastaði aldrei höndunum til neins, sem hann gerði. Jeg tel þetta ágrip hans gott fyrir alþýðu manna, og það mun vera það, þrátt fyrir það, þó að stjörnufræðingarnir þrír, sem sje hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), Finnur próf. Jónsson og Bogi Th. Melsted, álíti bók Þorv. Thoroddsens nauðsynlega. Sje jeg því enga ástæðu til þess, að út sje gefið nýtt ágrip nú sem stendur. Mundi jeg því eigi harma það, þótt háttv. deild beygði sig eigi fyrir vísdómsorði stjörnufræðingsins Boga Melsteds í þessu efni. Annars vil jeg í þessu sambandi, til skemtunar og fróðleiks, benda háttv. deild á það, hversu samræmir þeir menn eru sjálfum sjer, sem altaf eru að tala um það, að þeir vilji spara alt, sem hægt er, en koma þó fram með aðra eins till. og þessi er.

Þá hefir háttv. þm. orðið mjög tíðrætt um þessar 1500 kr. til hjeraðslæknisins í Reykjavík. Jeg þarf eigi miklu við það að bæta, sem háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) sagði um þetta atriði. Kenslan er, eins og öllum er kunnugt, ekki skyldustarf læknisins, og er því eigi nema eðlilegt, að hann fái aukaþóknun fyrir það. Starfið er svo umsvifamikið, að þessar 1500 kr. eru í raun og veru engin borgun, því að rjettu lagi ætti sá, sem hefir það á hendi, heimtingu á fullum embættislaunum. Er því þessi vinna læknisins hrein gjöf frá hans hendi, þar sem þóknunin er eigi nema 1/4 hluti þess, sem prófessorarnir hafa í laun.

Háttv. þm. Barð. (HK) hjelt því fram, að embættismönnum landsins væri svo vel launað, að þeim væri eigi ofætlun, þó að þeir tækju að sjer aukavinnu borgunarlaust. Það má vel vera, að háttv. þm. (HK) fái einhverja til þess að gleypa þessa flugu sína, en hann fær þó aldrei til þess þá þm., sem þekkja verðlag á vörum hjer í Reykjavík og eiga við það að búa. Og jeg er hræddur um, að þessi fluga hans yrði eigi langlíf, því að það mundi koma fljótt í ljós, að orð hans eru ómaklega mælt.

Er það æðiundarlegt, að háttv. þm. skuli telja það sjálfsagt að veita stórfje til óæðri skóla, en spara alt, sem snertir æðstu mentastofnun landsins, háskólann. Það á að veita styrk til húsagerðar á Grenjaðarstað og til byggingar alþýðuskóla í Þingeyjarsýslu. Það þykir eigi nema sjálfsagt; en að greiða sæmileg kenslulaun við háskóla landsins, — það þykir óalandi og óferjandi. Já, mikil er hún menningin á þingbekkjum hins háa Alþingis.

Jeg veit ekki betur en háttv. sparnaðarmenn hjer í deildinni sjeu mjer sammála um, að þetta væru skólarnir, sem fyrst og fremst á að styrkja. Þingið í fyrra fleygði frá sjer þeirri till. að spara barnaskólana, en úr því að það telur þá skóla svo nauðsynlega, þá hlýtur það, ef menn eru hjer með almennum skilningi á þessi efni, að styrkja þessa skóla þeim mun meira sem þeir eru nauðsynlegri. Þennan bagga hefir þingið bundið sjer. Háttv. frsm. (MP) tók það fram, að landið ætti að koma upp slíkum skólum með því að leggja fram 1/4 eða 1/3 af kostnaði, en hitt kæmi frá hjeruðunum. En þessi regla ætti þá líka að gilda um gagnfræðaskólana í Reykjavík og á Akureyri, og kæmi þá fram sparnaður, sem nota mætti til þess að stofna slíka skóla víðar og koma á jöfnuði milli hjeraðanna. Takmarkið á að vera, að allir sýslubúar geti gengið í þessa skóla, hver í sínu hjeraði, og aflað sjer þar þeirrar mentunar, sem þeim er nauðsynleg til þess að heyja sína daglegu lífsbaráttu. Jeg hugsa mjer, að hver skóli stæði 8 mánuði á ári og væri skift í tvö kenslutímabil, og þannig gætu unglingar af sama bæ skifst á um að vera í skólanum og gegna nauðsynlegum heimastörfum, því oft er bagalegt að missa unglinga frá vinnu á vetrum. Þessir skólar ættu að taka við beint af heimilunum, sem önnuðust svokallaða barnafræðslu. Með þessu kæmust fræðslumál okkar í æskilegt horf, og yrðu þau þá ódýrari en nú, þegar þau eru með öllu ófullnægjandi. Ef mjer er það reiknað, að jeg hefi mælt hjer á móti mentaskóla á Akureyri, og sparað þar með stofnun 5–6 nýrra embætta, og ef mjer er einnig reiknað frv. mitt um lærðan skóla, sem færir kennarafjöldann úr 24 niður í 12, þá er jeg orðinn einhver hinn hollasti sparnaðarmaður hjer á þingi, og það hefi jeg löngum verið. Þetta kemur ekki við fjárlögunum, en þó hygg jeg, að mjer sje leyfilegt að færa mjer þetta til varnar gegn þeim rógi, sem jeg hefi verið borinn, því menn hafa haldið því fram, að jeg gerði mjer leik að því að láta landið skaðast, í sambandi við unglingaskólana vil jeg geta þess, að mjer nægði ekki hækkun nefndarinnar og ber fram till. um að færa gjaldið upp í 40 þús. kr., sem þó mun helst til lítið. Jeg tel heppilegra að hafa þessa upphæð hærri en þörf verður á, til þess að ekki verði dregið úr áhuga manna til að stofna slíka skóla, en stjórnin veitir ekki fje, nema skilyrði sjeu fyrir hendi. Ef það verður venja, að ríkið leggi fram 1/3 eða 1/4 kostnaðar í hvert sinn, er menn vilja stofna unglingaskóla og skilyrði eru fyrir hendi, þá mun þess ekki langt að bíða, að hjer rísi upp eins margir slíkir skólar, sem þörf er á, fyrir utan lærða skólann, sem er annars eðlis. Jeg býst við, að mönnum verði ljúft að greiða atkvæði með þessari hækkun.

Þá vil jeg minnast á styrk til Hjálmars Lárussonar. Það kemur af hugleysi mínu, að jeg deildi með 2 þeirri upphæð, sem sanngjörn var, en nú, er jeg hefi heyrt undirtektir nefndarinnar, að hún ætli að margfalda aftur með 2, þá tek jeg till. mína aftur með glöðu geði. Jeg býst við, að till. nefndarinnar verði samþykt, en ef svo verður ekki, þá mun jeg taka till. mína upp aftur.

Það er varla þörf að tala um fleiri liði, því háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) hefir tekið af mjer ómakið um læknakenslu í háskólanum; en þó vil jeg minnast á styrk til Dansk-islandsk Samfund. Þar er jeg ekki háttv. þm. (JÞ) jafnsammála. Hann bar á þetta fjelag óverðskuldað lof, en starf þess hefir verið að gefa út bæklinga, sem eru Dönum fríðindi, en Íslendingum að mestu skaðlausir. Þetta er danskur fjelagsskapur, því þó að þar sjeu nokkrir menn, sem kallast íslenskir, þá er sálin dóttir Dana, og hann er stofnaður til þess að reyna að varðveita dönsk áhrif hjer í landi. Jeg er enginn Danahatari og hefi aldrei verið, en jeg kann illa við þetta danska tilhugalíf. Mjer dylst ekki, að Eydanir eru okkur óskyldastir að skapferli af Norðurlandaþjóðum, því að þeir hafa mótast af ýmsum áhrifum, og þá sjerstaklega frönskum og þýskum. Jótar eru okkur skyldari, en hins vegar liggur beint við, að við beinum huga okkar frekar til Norðmanna, sem eru okkur skyldastir, eða Svía, sem fyrir utan okkur hafa varðveitt best norrænt mál og norræna siði. Dönsk áhrif hafa verið hjer of einhliða og hafa yfirleitt ekki haft góð áhrif á okkur Íslendinga. Nú er mál til komið að breyta um stefnu í þessum efnum, og ber nú svo vel í veiði, að stofnaður er fjelagsskapur á Norðurlöndum, sem hefir það markmið að koma á eðlilegu sambandi milli þjóðanna. Danir eru þarna með eins og aðrir, og er engin ástæða til að ætla þeim æðri sess. Og það er undarlegt, að feldur er styrkur í fyrra til þess að auka samband Íslendinga austan og vestan hafs, en um leið reynt að halda dauðahaldi í danskt samband. Okkur stendur þó nær að kynnast löndum okkar, sem þar að auki standa svo vel að vígi, að þeir hafa aðgang að hinum enska heimi, og gætu þannig orðið okkur að liði á margan hátt í viðskiftaefnum. En menn mega muna danskan drengskap, er þeir hugsa um, hvernig Danir hafa orðið við fjárkreppu okkar. Þeir hafa altaf tekið eða reynt að taka blóðvexti af íslendingum, og segi jeg þetta af því, að það er rjett, en ekki af því, að mjer sje illa við Dani, þó að jeg hati danskan kúgunaranda. Jeg hefi nú látið uppi skoðun mína á málinu, og ráði síðan hver sínu atkvæði.