11.04.1923
Neðri deild: 39. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (699)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg hafði ekki búist við að standa upp aftur, en sá fyrirburður gerðist hjer í deildinni, að hæstv. forsrh. (SE) reis upp af miklum móði, og mintu þær þrumur á Þór. er hann fór með hafra sína og reið. En ef hæstv. forsrh. (SE) hefði heyrt alt, sem jeg sagði, hefði hann ekki farið svo geist. Jeg ljet aðeins í ljós, sem gengið hefir manna á milli hjer í deildinni, að stjórnin hefði sýnt furðanlega mikið áhugaleysi viðvíkjandi fjárlögunum. því hún hefir ekki verið við nema með höppum og glöppum. Það er því ekki jeg, sem hefi sýnt ókurteisi, heldur miklu frekar hæstv. stjórn. Hæstv. forsrh. (SE) bar það fyrir sig, að hann hefði verið bundinn við mikilsvarðandi mál í Ed. En mjer er spurn: Hvaða mál er mikilsverðara en fjárlögin? Er ekki altaf litið svo á, að það sje stærsta mál hvers þings Og það er skylda stjórnarinnar að fylgjast með í því, og sjerstaklega bar hæstv. forsrh. (SE) að fylgjast með í þessum kafla, því hann snertir aðallega starfsvið hans. Hæstv. ráðherra (SE) hefði verið innan handar að fá dagskrá breytt í Ed. eða fá málum frestað, ef of seint var að breyta dagskránni. Það er þess vegna bert, hvor okkar hefir sýnt ókurteisi, og hæstv. ráðherra (SE) má vera mjer þakklátur fyrir að hafa flutt honum þessi orð, ef þau gætu orðið til þess, að slíkt kæmi ekki fyrir aftur. Og þegar fjárlög eru rædd. má ekki minna vera en við fáum að sjá hæstv. stjórn við og við. því „leyfist kettinum að líta á kónginn“.

Hæstv. forsrh. (SE) sagði í skopi, að hann hefði hlustað hjer á allan þann mikla vísdóm, sem við höfum borið fram. (Forsrh: SE: Jeg sagði ekki mikla). Það var ágætt, því þá kemur það betur heim við það, sem jeg ætla að segja. Það er eðlilegt, að umr. okkar sjeu ekki mikill vísdómur fyrir hans stóra fjármálaeyra. Annars kæri jeg mig ekki um að lengja þessar umr. Það er sýnilegt, að hæstv. forsrh. (SE) hefir ekki sálarþrek til þess að taka hóflega rjettmætum aðfinslum, og þá verður mörgum á að efast um, að hann hafi sálarþrek til þess að vera forsætisráðherra.

Hæstv. forsrh. (SE) spurði, hvernig ætti að skilja styrkinn til skólans í Þingeyjarsýslu, hvort það væri styrkur til allra slíkra skóla. Jeg vona, að hæstv. forsrh. (SE) hafi skilið það, eða geti skilist það nú, að ef slíkur styrkur verður veittur framvegis, þá er ætlast til að hann fari eftir þessari reglu. Það er merkilegt, að þegar nefndin fer í sömu stefnu og hæstv. forsrh. (SE), þá rís hann upp og þylur langa ávítunarræðu til nefndarinnar fyrir að hafa ekki aðhylst till. háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) um byggingu barnaskóla. Þetta á ef til vill að vera viðvörun hjá hæstv. forsrh. (SE). um að feta ekki um of í fótspor stjórnarinnar.

Hvers vegna setti þá hæstv. forsrh. (SE) ekki upphæðina í fjárlögin í þessu skyni, þegar honum er það svona mikið áhugamál ?

Jeg verð að segja það, að það er æðihart að fá ávítur hjá hæstv. stjórn fyrir það, að nefndin skyldi ekki brjóta í bág við stefnu þá, sem einmitt hæstv. stjórn hafði fylgt í frv. sínu.

Jeg ætla mjer alls ekki að fara að vekja upp umræðurnar frá síðasta þingi um fræðslumálin, eins og hæstv. forsrh. (SE) virtist helst vilja. En jeg hygg, að hann renni alveg blint í sjóinn með það, að þeir menn eigi erfiðara uppdráttar við næstu kosningar, sem fylgdu stefnu fjárveitinganefndar í fræðslumálunum í fyrra, en hinir, sem fylgdu stefnu hans.

Jeg held alveg hið gagnstæða. eftir þeim röddum, sem jeg hefi heyrt víðsvegar að.

Þá var hæstv. ráðherra að víta fjárveitinganefnd fyrir það, að hún hefði lagt til að lækka laun Jóhannesar Lynge, og spurði jafnframt eftir hvaða reglu hún hefði gert það. En hann gat þess ekki, eftir hvaða reglu stjórnin hefði fært niður styrkinn til forstöðumanns yfirsetukvennaskólans, sem hún lækkaði um 1/5. En við lækkuðum ekki styrkinn til Jóhannesar nema um 1/7.

Annars ætti hæstv. forsrh. (SE) fyrst að athuga vel, er hann vill spyrja aðra um stefnur og reglur í þessum málum, hvaða stefnur og reglu? hæstv. stjórn hefir í þeim.

Þá skal jeg víkja að ræðu háttv. þm. Borgf. (PO). Háttv. þm. mintist á sóttvarnarlækninn og sagði, að það hefði verið tekið fram af mjer, að til þess gæti komið, að hann hefði á hendi kenslu við háskólann. En jeg geri ráð fyrir, að hann muni, að það var í alt öðru sambandi. Þá talaði háttv. þm. enn fremur um, að það hefði átt að setja það skilyrði fyrir bæjarlæknisembættinu, að bæjarlæknir kendi jafnframt við háskólann. En jeg vil undirstrika það, að slíkt hefði verið ranglátt, og jafnvel skaðlegt, því að það embætti verður að veita með alt annað fyrir ausum en kensluhæfileika mannsins við háskólann. Því að það getur verið ágætur bæjarlæknir, þó að hann sje alveg ómögulegur kennari, auk þess, sem núverandi hjeraðslæknir í Reykjavík er sá færasti, sem við þekkjum hjer á landi, til þess að kenna þessi vísindagrein við háskólann. (PO: Hvernig fer, ef hann fellur frá?). Jeg vona, að hans njóti sem lengst, og víst er það, að skarð hans verður vandfylt.

Þá skal jeg snúa mjer að háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) og skal strax taka það fram, að jeg ætla ekki að fara út í neina orðarennu við hann, því að hann fór svo langt út fyrir málefnið, að varla mátti heita, að hann kæmi þar við, nema með höppum og glöppum.

Það er annars sjúkdómur á þeim háttv. þm. (SvÓ), hversu rangar hugmyndir hann gerir sjer um ilsku fjvn. í garð hans kjördæmis. Sagði hann meðal annars, að það væri lagt í einelti, og þá sjerstaklega af frsm., sem hann telur rót alls ills. Jeg vil því út af þessum vandræða lestri hv. þm. benda honum á, að í 13. gr. fjárlaganna er eigi alllítil upphæð, er verður að teljast til hlunninda fyrir hans kjördæmi, og það er til svo nefnds Vallavegan, sem mig minnir, að sje einhversstaðar nálægt honum, þó að jeg sje ef til vill farinn að ryðga í landafræðinni.

Þá vil jeg líka benda honum á, að efst á 4. síðu 1 brtt. fjvn. er sett fjárveiting til símalínu í hans kjördæmi, sem nemur ekki nema 60 þús. kr. Og til þess er ætlast, að lína þessi verði lögð strax. (SvÓ: Jeg er á móti öllum símum). Því getur fjárveitinganefnd ekki gert að, þó að háttv. þm. sje á móti öllum hlunnindum, sem hún vill gera fyrir kjördæmi hans. Svarar hann eflaust fyrir það, þegar hann kemur austur til kjósenda sinna. Þá má einnig benda hv. þm. á tillögu fjárveitinganefndar, að láta landið taka að sjer sjúkrahúsið á Fáskrúðsfirði, sem hans kjördæmi hlýtur að hafa gott af.

Jeg hefi aðeins nefnt þetta til þess að sýna háttv. þm. fram á, að það sje rangt hjá honum að halda því fram, að hans kjördæmi sje gert afskift. Og hefi jeg þó slept hjer fjárveitingunni til Eiðaskóla og fleira.

Hlýtur þingmaðurinn nú að verða að játa, að fjvn. hefir verið miklu fremur velviljuð í hans garð, þó að hún geti ekki samþykt allar hans tillögur, og má hann ekki reiðast yfir því. Læt jeg svo máli mínu lokið að sinni og vænti þess, að umræðunni um þennan kafla geti orðið lokið svo snemma, að atkvæðagreiðslan geti farið fram fyrir næsta fundarhlje.