12.04.1923
Neðri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

1. mál, fjárlög 1924

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Eftir 3 daga stríð og strit er loks komið aftur að 16. gr., og vona jeg, að þessi kafli gangi hlutfallslega betur en hinir. Um þessa 16. gr. má segja með fullum rökum, engu síður en um 13. gr., að í henni eru einungis fjárveitingar, sem miða að því beinlínis eða óbeinlínis að styðja verklegar framkvæmdir. 16. gr. hefir jafnan verið ástfólgin fjárveitinganefnd og hv. þm., og mega menn því ekki furða sig á, þó fjvn. hafi verið nokkuð stórtæk í henni. En það er samkvæmt stefnu nefndarinnar, sem komið hefir fram hjer í þinginu, þeirri stefnu, að stuðla eftir megni að eflingu atvinnuveganna. Að þessu sama lúta einnig ýmsar brtt., sem fjvn. hefir borið fram við 21. gr.

Eins og skýrt er í nál., geymir nefndin til 3. umr. að gera brtt. við þau fjárframlög, sem ætluð eru til búnaðarmála. En jeg skal taka það strax fram, að hv. deild getur áreiðanlega átt von á brtt. við þá liði. Þó er eitt atriði, sem jeg get ekki gengið fram hjá við þessa umræðu, en það er 3. liður 16. gr., um styrkveitingu til búnaðarfjelaga. Þar er komin ný athugasemd um það, að úr ríkissjóði skuli veita kr. 1,50 verðlaun fyrir hvert dagsverk, sem unnið er að jarðabótum á Íslandi, en til þessa hefir stjórnin aðeins ætlað 20000 kr. Eftir því, sem næst verður komist, hafa að minsta kosti 80 þús. dagsverk verið unnin á ári hverju í jarðabótum síðustu árin, og til þess að þessi fjárveiting væri nærri lagi, hefði hún átt að vera að minsta kosti 120 þús. kr. Annaðhvort hefir því „1“ fallið framan af tölunni eða stjórnin hefir af vangá orðað liðinn svo. Enda hefir Búnaðarfjelag Íslands gert ráð fyrir þeirri upphæð, sem jeg nefndi, eða 120 þús. kr. Jeg vil því benda hæstv. stjórn og háttv. deild á, að hjer verður að breyta öðruhvoru, upphæðinni eða athugasemdinni. Eftir athugasemdinni gæti nefndin sagt, að stjórnin hefði í raun og veru skilað frv. með 100 þús. kr. hærri útgjöldum en í því stendur.

Þá skal jeg snúa mjer að brtt. fjvn. og fara nokkrum orðum um þær, til viðbótar við það, sem stendur í nál.

Um 74. brtt. þarf jeg ekki að fara fleiri orðum en stendur í nál. Næsta brtt. er um 1000 kr. styrk til Páls G. Jónssonar í Garði í Fnjóskadal, til viðurkenningar fyrir dýralækningar. Eins og getið er um í nál., hefir maður þessi unnið mikið að þessu um mörg undanfarin ár. Á síðasta þingi var farið fram á miklu hærri styrk til hans en her er gert ráð fyrir. Að maður þessi hafi talsverða verðleika, sanna ýms vottorð, er legið hafa fyrir þinginu. frá próföstum, prestum, hreppstjórum og oddvitum víðsvegar í Þingeyjarsýslu. — Nefndin hefir orðið sammála um, að rjett sje að veita honum viðurkenningu í eitt skifti fyrir öll fyrir það góða starf, sem hann hefir unnið fremur af áhuga og hjálpfýsi heldur en í hagnaðarskyni.

Þá leggur nefndin til, að styrkurinn til Fiskifjelagsins sje hækkaður um 15000 kr. Fyrir þessu er ekki gerð grein í nál., og skal jeg heldur ekki fjölyrða um það. Nefndin bar fram þessa tillögu eftir eindreginni áskorun sjávarútvegsnefndar, og mun hún að sjálfsögðu gera grein fyrir ástæðum sínum. Eftir tillögum Fiskifjelagsins var um svo miklar fyrirætlanir að ræða og útgjaldaáætlun þess svo há, 145 þús. kr., að nefndinni þótti rjett að senda þær til sjútvn., svo að hún gæti vinsað úr það, sem henni þætti nauðsynlegast.

Þá er tillaga um 10 þús. kr. fjárveitingu til þess að leitast fyrir um markað fyrir fiskiafurðir erlendis, og er hún borin fram eftir tilmælum sjútvn. Sjútvn. fór fram á 25 þús. kr. styrk í þessu skyni, og nú sje jeg, að hæstv. atvrh. (KIJ) hefir borið fram brtt. um að hækka liðinn um helming, upp í 20 þús. kr. Jeg get strax lýst yfir, að fjvn. telur óþarft að svo vöxnu máli að fara hærra en hún hefir gert ráð fyrir. Ætti það ekki að koma málefninu að baga, þó að ekki sje áætluð hærri upphæð. Því var lýst yfir í fyrra, og jeg vil enn taka það fram, að hjer er um áætlunarupphæð að ræða, sem stjórninni er heimilt að fara fram yfir, ef nauðsyn ber til.

Um styrkinn til Sambands íslenskra heimilisiðnaðarfjelaga þarf jeg ekki að fjölyrða frekar en gert er í nál., og þarf sá fjelagsskapur ekki meiri meðmæli. Það er svo alkunnugt, hve mikinn og góðan árangur störf hans hafa borið, að jeg tel víst, að hv. deildarmenn vilji liðsinna honum eftir megni.

Þá leggur nefndin til, að feldur sje niður af stjfrv. styrkurinn til Dansk Kunstflidsforening. Nefndin sjer ekki ástæðu til að styrkja danskt fjelag, þó að námsskeið þess kunni að vera sótt af íslenskum konum, því að henni er kunnugt um, að íslenskar konur hafa oft sótt ýmsa aðra skóla í líku skyni víða um öll Norðurlönd. Ef veita ætti styrk til þessa, kæmi frekar til mála að veita hann sem námsstyrk heldur en styrkja einstök fjelög í öðrum löndum.

Vörumerkjaskrásetjari bar sig munnlega upp við nefndina um það, að hann hefði ekki lengur nægilegt húsrúm fyrir skrifstofu sína, og yrði því að flytja hana á burt. Leitaðist nefndin fyrir í stjórnarráðinu, en þar mun ekkert húsrúm afgangs í þessu skyni. Þar sem þóknun vörumerkjaskrásetjara er aðeins 1000 kr., taldi nefndin ógerlegt, að hann greiddi húsaleigu af þeirri upphæð, og vill hún því auka hana svo, að hann geti tekið sjer herbergi á leigu úti í bæ.

Nefndin vill hækka styrkinn til Tvískerjabóndans um 100 kr. Hann hefir haldið uppi gistingastað og veitt ferðamönnum móttöku og beina, en á einkanlega erfitt um aðdrætti.

I. liður 82. brtt. er í 5 undirliðum, og vil jeg biðja hæstv. forseta (BSv) að athuga, að þessir liðir eru teknir aftur við þessa umr. Þar sem sumt af þessu eru beinar endurveitingar og ætlast er til, að alt verði framkvæmt á þessu ári, ætlar nefndin að bera þessa liði fram sem brtt. við fjáraukalagafrv. fyrir 1923, sem hæstv. stjórn hefir lagt fram, þegar það kemur til umræðu. Þeir eru því einungis teknir aftur í svip. Sama máli gegnir um III. lið 82. brtt., veitingu til hafnargarðs á Sandi, og IV. lið, til sjóvarnargarðs á Siglufirði, sem hæstv. stjórn hefir tekið upp í fjáraukalagafrv. sitt.

Jeg þarf ekki að bæta neinu við það, sem sagt er í nál. um II. lið 82. brtt., fjárveitingu til lendingarbóta í Bás við Vík í Mýrdal. Jeg sje, að háttv. þm. V.-Sk. (LH) hefir borið fram brtt. við þennan lið, og geri jeg ráð fyrir, að hann skýri málið af meiri kunnugleika en mjer er fært. Þó vil jeg geta þess, að nefndin getur ekki fallist á, að upphæðin sje svo há, sem háttv. þm. fer fram á, þó að hún geti ef til vill farið dálítið hærra en hún hefir lagt til.

Þá er komið að brtt. V. um styrk til Byggingarfjelags Reykjavíkur. Er tillaga þessi tekin aftur nú, sökum þess, að misprentast hefir, að 2/3 skyldu greiddir úr bæjarsjóði, í stað þess að standa átti: „gegn hálfu meira úr bæjarsjóði“.

Þá kem jeg að þeirri brtt. nefndarinnar, sem mun stærst af öllum till. hennar og mest virði. Á jeg hjer við styrk og ábyrgðarheimildina til Sláturfjelags Suðurlands. Nefndin leggur til, að veittur verði 40 þús. króna styrkur til að koma upp sútunarhúsi til að súta skinn. Hefir, sem kunnugt er, oft verið um þetta nauðsynjamál talað, en aldrei orðið úr framkvæmdum. Vita allir, hve afaráríðandi það er landbúnaðinum, að gærur verði verðmeiri en þær nú eru. Hafa þær lengi selst fyrir smánarverð. Er það og vitanlegt, að gærur okkar eru mjög vel fallnar til sútunar og eru einhver besta vara þeirrar tegundar, sem fæst. Hefir nú Sláturfjelagið komið þessu máli á rekspöl, og er mjög eðlilegt, að fjelagið hafi þetta mál með höndum. því það á hægast um vik, þar sem það hefir framleiðslu þessarar vöru með höndum.

Fjelagið hefir þegar lagt talsvert í kostnað: sent mann utan til að kynna sjer verkun skinnanna og alla meðferð og marksaðshorfur. Hefir legið hjer frammi sýnishorn af skinnunum, þannig meðförnum, og hygg jeg, að flestum, sem sjeð hafa, þyki þau glæsileg álitum.

Til þess að setja á stofn svo stórkostlegt fyrirtæki þarf mikið fje. Liggur fyrir greinileg áætlun um. hvað fyrirtækið kostar. Er gert ráð fyrir 260 þús. króna stofnkostnaði og 180 þús. króna árlegum rekstrarkostnaði. Er því eðlilegt, að eitt fjelag, þótt stórt sje. sjái sjer ekki fært að ráðast í þetta stuðningslaust.

Fjelagið fór nú fram á, að sjer yrði veittur 1/4 stofnkostnaðar sem styrkur og hans sem lán. Nefndin gat nú ekki fallist á, að ríkið sæi fjelaginu að öllu leyti fyrir stofnfje; sýndist eðlilegt, að fjelagið legði það líka til. En till. nefndarinnar. bæði um beina styrkinn og ábyrgðina, eru miðaðar við þessar tillögur fjelagsins. Hins vegar sá nefndin ekki til neins að fara að heimila stjórninni að lána fje til þessa, því að engin líkindi eru á því, að þetta fje verði handbært, en hins vegar ætti það ekki að verða fjelaginu ofvaxið að fá lán með ábyrgð ríkissjóðs.

Vil jeg geta þess, að landbn. Nd. hefir lagt til, að þessi aðferð yrði upptekin, og hefir enn fremur stutt beiðnina.

Þá kem jeg að brtt. VII. um rannsókn Andakílsfossanna. Er þessi till. tekin aftur, því að rjettara er, þar sem búið er að nota fje þetta, að setja það í fjáraukalög.

Á árunum var styrkt fjelag nokkurra manna til að koma upp ostagerðarbúi í Sveinatungu. Var veitt til þess lán úr viðlagasjóði og einnig úr ræktunarsjóði, þótt það komi ekki þessu máli við. Tilraun þessi var góðra gjalda verð, en hafði mikinn kostnað í för með sjer og stofnendur biðu mikinn halla af henni. Hafa þeir nú farið fram á að fá styrk eða eftirgjöf á láninu, 10 þús. kr. Nefndin sá sjer nú ekki fært að verða við þessu, en vill leggja til, að eftir verði gefnar 3500 kr., sem samsvarar ræktunarsjóðsláninu. Mælir öll sanngirni með þessu. því að hjer var um gott málefni að ræða.

Sá maður, er mest tjón hlaut af Kötlugosinu, var Jóhannes bóndi Guðmundsson á Herjólfsstöðum. Misti hann mikið af skepnum sínum og jörðin eyðilagðist svo, að hann varð að hrekjast þaðan. Fer hann nú fram á, að Alþingi rjetti sjer hjálparhönd. Nefndin vill nú bæta honum þetta að nokkru leyti. Að vísu fjekk þessi maður hlufallslega mest af fje því, er veitt var til hjálpar þeim mönnum, er tjón biðu, en eftir upplýsingum, sem nefndin fjekk, er tjón þessa manns samt langt frá því að vera bætt. Það má nú vera, að hv. deildarmenn haldi, að fleiri muni hjer eftir koma, en hv. þm. V.-Sk. (LH) hefir sagt nefndinni, að til þess geti ekki komið, því þótt maðurinn fái þennan styrk, þá sje samt tjón hans miklu meira en nokkurra annara, svo að enginn geti borið sig saman við hann.

Þá er 16. gr. lokið, og kem jeg þá að 17. gr. Þar hefir nefndin lagt til, að fjelli niður liðurinn um skyndilán til embættismanna. Í nefndarálitinu er ekki gerð grein fyrir þessu, og vil jeg því benda á, að þessi brtt. er þannig til orðin, að samkvæmt tilskipun, sem heimilar þetta, eru lánin bundin við, að embættismennirnir taki ekki nema 1000 ríkisdala laun, eða 2000 kr., og þar fyrir neðan; er því hjer um dauðan bókstaf að ræða, því að svo lág laun þekkjast ekki nú.

Þá er komið að 18. gr. Fjallar hún um ýmsa þá menn, sem erfiðast eiga uppdráttar og hafa ekki á annara náðir en ríkisins að flýja. Nefndin á nú ekki margar till. við þessa grein, en á nokkrar þeirra vil jeg minnast. Fyrst er þá að minnast á hækkunina á eftirlaunum Sigvalda Kaldalóns læknis. Maður þessi varð að láta af embætti sökum heilsubrests, sem vaxið hefir og aukist vegna áreynslu þeirrar, sem hann hafði af embættisverkum sínum. Hann hefir áður verið styrktur til að leita sjer lækninga. Fjekk hann nokkra bót, en eigi fulla, og starfskraftar hans eru enn ekki nægir til að hann geti unnið fyrir sjer. Hefir læknirinn á Vífilsstöðum gefið vottorð um, að hann geti ekki unnið að gagni að minsta kosti 1 ár enn.

Hann átti nokkur efni, er hann ljet af embætti, en um síðasta nýár munu þessi efni hafa verið alveg eydd. Hefir hann því nú ekki annað að lifa á en hin lögboðnu eftirlaun, 560 kr. með dýrtíðaruppbót. Nefndin sá sjer því ekki annað fært en að rjetta manni þessum að einhverju leyti hjálparhönd. En vegna þess fordæmis, sem þetta kynni að gefa, vill nefndin ekki fara langt, en leggur til, að honum verði veittar 1200 krónur. Er þetta nokkur hjálp, en þó ekki næg; en hins vegar er von um, að síðar verði á þinginu farin önnur leið til að hjálpa þessum manni meira.

Þá kem jeg að styrknum til frú Sigríðar Fjeldsted, ekkju Andrjesar heitins augnlæknis. Andrjes heitinn hafði ekki rjett til eftirlauna, þótt hann væri starfsmaður ríkisins. Misti hann þennan rjett, er hann ljet af hjeraðslæknisstörfum. Nefndin leitaði álits hjá landlækni og læknadeild háskólans, og lagði hvortveggja til, að hún fengi eftirlaun, miðuð við það, að Andrjes heitinn hefði gegnt hjeraðslæknisstörfum til dánardægurs. Og við það er till. nefndarinnar miðuð. Þess vil jeg geta, að ekkjan er alveg efnalaus.

Þá kem jeg að Árna Theodór Pjeturssyni, sem deildinni er fyr að öllu góðu kunnur. Samkvæmt ósk Alþingis var nefnd sett til að rannsaka þetta mál. Niðurstaða þessarar nefndar er sú, að manninum verði veitt árleg þóknun eða upphæð í eitt skifti fyrir öll. Mentamálanefnd hefir lagt sama til. Fjvn. sá sjer því skylt að bera fram þessa brtt.; gat hún búist við því, að hæstv. stjórn hefði gert þetta, en að minsta kosti væntir hún styrks þaðan. En nefndin biður stjórnina að athuga vel athugasemdir nefndarinnar. Vill nefndin, þar sem maðurinn hefir reynst starfhæfur að áliti rannsóknarnefndarinnar, að hann fái sem fyrst kennarastöðu, svo að eftirlaunin falli niður.

Samkvæmt meðmælum póstmeistara leggur nefndin til, að Guðmundi bæjarpósti á Akureyri verði veitt sömu eftirlaun og aðrir póstar njóta. Hefir maður þessi reynst vel í starfi sínu og gegnt því lengi.

Þá er komið að 21. gr. Þykir háttv. þm. ef til vill kynlegt, að nefndin skuli leggja til, að fje verði veitt úr viðlagasjóði, þar sem líklegt er, að um það sje ekki mikið að ræða. En henni þótti gott, að heimildin væri til þess, ef eitthvað skyldi verða til.

1. brtt. við þá gr. telur nefndin allra sjálfsagðasta. Það er áveitulánið til Þingbúa í Austur-Húnavatnssýslu. Þeir hafa komið á þessari áveitu án þess að leita nokkurs styrks úr ríkissjóði. Er slíkt fátítt nú, þar sem hver reynir að toga úr ríkissjóði eins mikið og hægt er. Veit jeg, að Alþingi telur sjer sjálfsagt að styrkja svo lofsverða viðleitni og sjálfsbjargarhvöt.

Þá leggur nefndin til, að veitt verði 50 þús. króna lán til niðursuðuverksmiðju á Akureyri. Er hjer, um þetta fyrirtæki, eins og „Mjöll“, að slíkar stofnanir styðja að því að hjálpa framleiðslunni í landinu og gera verslunarjöfnuð með því að sporna á móti innflutningi þessara vörutegunda. Mann þann, sem fyrir þessu er, þekkir nefndin ekki, en hún hefir farið eftir till. Búnaðarfjelagsins og Fiskifjelagsins, sem hafa gefið bestu meðmæli. En þess væntir nefndin, að hæstv. stjórn athugi vel, að nægilega tryggilega sje um búið, að fje það, sem á vantar, verði til taks, bæði það, er þarf til stofn- og rekstrarkostnaðar, svo að fje þessu verði ekki á glæ kastað.

Það er enginn vafi á því, að þetta fyrirtæki, samkvæmt þeim upplýsingum, sem nefndin hefir aflað sjer um það, getur orðið til stórkostlegra framfara á þessu sviði. Mjólkurfjelagið „Mjöll“ hefir þegar fyrir nokkru komið á hjá sjer niðursuðu á rjóma, sem hefir reynst mjög vel, og er það fullkomin ánægja fyrir nefndina að mæla með þessari beiðni fjelagsins. Það mun nú vera komið af hinum erfiðustu bernskuárum sínum, og því vaxið upp yfir þann aldur, sem barnasjúkdómar slíkra fyrirtækja eru hættulegastir á, og er það því fremur þess vert, að það fái nokkurn stuðning. Fjelagið vill nú færa út kvíarnar og koma á hjá sjer fullkominni niðursuðu á mjólk. Þó hefir nefndin ekki sjeð sjer fært að veita því meiri styrk en lán það, sem um getur í brtt. nefndarinnar.

Austur-Húnvetningar hafa lagt út í það að tryggja sjer góðan læknisbústað, og þar sem hús eru nú í jafnháu verði og öllum mun kunnugt, hafa þeir farið fram á, að þeim verði veitt lán til að greiða með nokkurn hluta húsverðsins. Nefndin telur sjálfsagt að verða við þessari beiðni þeirra, ekki síst þar sem eigi er um nema 15 þús. kr. að ræða.

Skeiðaáveitufjelagið ber sig allilla og hefir sent menn til Alþingis og á fund fjvn. til að leita sjer ásjár. Segir fjelagið, sem og rjett er, að verk þetta hafi farið langt fram úr áætlun, vegna dýrtíðar þeirrar, sem þá var er verkið var unnið, og verði þeim því ofviða. Það hafi og ekki einungis verið dýrtíðin, sem hafi valdið þessu, heldur hafi og jarðvegurinn reynst allur annar en gert hafi verið ráð fyrir; t. d. hafi verið klöpp á alllöngu svæði, þar sem grafið var, en menn álitu, að þar væri aðeins þjett leirlag. Fer áveitufjelagið fram á allmikinn styrk, en nefndin hefir ekki sjeð, að það væri fært fyrir ríkið að taka að sjer meiri kostnað af þessu verki en þegar hefir verið gert; en þar sem nefndin veit, að bændur eiga nú allerfitt uppdráttar austur þar, og muni þeim því veita þungt að standa í skilum með þau lán, sem þeir hafa fengið til þessa, vill hún veita þeim 16 þús. kr. lán til að standa straum af skuldum fjelagsins og halda þessu fyrirtæki gangandi.

Geithellahreppur og nokkrir fleiri hreppar í Suður-Múlasýslu hafa orðið að verja miklu fje til vitabygginga, og hafa því farið fram á, að þeim yrði veitt lán til að standast þann kostnað. Af þeim 8 þús. kr., sem gert er ráð fyrir, að þetta lán nemi, er ætlast til, að 6 þús. fari til Geithellahrepps og 2 þús. til annara hreppa þar austur. Nefndin telur þessa lánbeiðni í alla staði rjettmæta, og mælir því eindregið með henni.

Þá er Gerðahreppur í Gullbringusýslu, sem biður um 40 þús. kr. lán til að forða sjer frá algerðu gjaldþroti. Jeg geri ráð fyrir, að háttv. þm. muni kunnugt, hvar þessi hreppur er; hann er hjer suður með sjó. Þegar nefndin las skjöl þau, sem fylgdu með þessari lánbeiðni Gerðahrepps, rann henni svo til rifja nauðulegt ástand hans, að hún taldi sjálfsagt, að hlaupið væri undir bagga með honum. Get jeg ekki stilt mig um að lesa upp nokkur atriði úr þessum skjölum, til þess að háttv. þm. geti sjeð, hvernig ástandið er hjá þeim þarna suður frá. Þar stendur m. a.: „Í síðustu fardögum voru skuldir hreppsins um 31 þús. kr., en þar af voru aðeins 5 þús. afborgunarskuldir, hitt alt dægurskuldir, sem sífelt er verið að rukka um“. Ennfremur:. Á stríðsárunum ljet stjórnarráðið plægja upp eina grasblettinn, sem til var í hreppnum utan túns, til að setja þar niður kartöflur, og það svo rækilega, að plægt var helmingi meira land en sáð var í. Afleiðing þessa varð sú, að nú er þetta svæði ein sandeyðimörk, sem blindur sandbylur stendur af þegar hvast er. Gerir þetta að verkum, að 5 nýbýli, sem búið var að byggja þarna, eru að leggjast í eyði og eigendurnir flúnir eða eru að flýja þaðan. Einnig stendur og næstu jörðum hætta af sandfokinu og sumar þeirra farnar að stórskemmast. Enn fremur er það, að þegar sandbylurinn stendur á sjó út, þarf ekki að vænta fiskjar á því svæði, sem hann fýkur yfir. Þetta alt, ásamt því að skepnur gera nú ekki hálft gagn, vegna þess, að þetta land var eyðilagt, er til ómetanlegs tjóns fyrir hreppinn“. Og enn: „Í hreppnum eru nú heimilisfastir 97 menn vinnufærir, á aldrinum 16–60 ára; 74 gamalmenni yfir 60 ára, 204 börn innan 16 ára og um 100 konur og stúlkur 16–60 ára. Á fátækraframfæri eru 55 börn og 21 þurfamaður eldri, sumt að nokkru leyti, en flest að öllu leyti“.

Nefndinni fanst sjálfsagt að veita þessum hreppi einhverja hjálp, og er eðlilegast, að sýslusjóður ábyrgist lán það, sem honum verður veitt.

Þá er það ungur og efnilegur bóndi vestur í Dalasýslu, sem fer fram á lán til að endurreisa eyðibýli, sem legið hefir í eyði um langan tíma. Það er í Svínadal, milli Hvammssveitar og Saurbæjar. Menn þar vestra leggja áherslu á, að þarna á milli er fjölfarinn fjallvegur, og er þetta því til samgöngubóta. Þetta má og skoða sem ræktunartilraun á ónýttu landi, og er því góðs vert. Nefndin leggur til, að þessum manni sjeu veittir 2/3 af láni því, sem hann biður um.

Enn er það annar ungur og efnilegur maður; hann er hjer í Reykjavík og hefir hann gert uppgötvanir, sem fróðir menn í þeim greinum telja mikilsverðar. Lítur út fyrir, að þessar nýungar hans muni verða bæði til frambúðar og talsverðs hagnaðar. Nú er hann fátækur og getur ekki keypt einkaleyfi erlendis, sem munu kosta um 3500 kr. í hverju landi. Biður hann því um styrk til að koma þessum nýungum sínum á framfæri. Nefndin telur ekki rjett, að þessi leið sje farin. Þessar nýungar ættu að vera það mikilsverðar, að maður þessi ætti eftir nokkurn tíma að vera fær um að endurgreiða lán, er honum væri veitt í þessu skyni, smám saman. Nefndin mælir því með, að honum sje veitt lán, gegn tryggingum, sem stjórnin tekur gildar. Vill nefndin ekki stuðla til þess, að slík mál sem þessi þurfi að stranda vegna fjeleysis, eða því síður af því, að fremur væru tortrygðir innlendir hugvitsmenn en útlendir. Hefir þessi maður einnig fengið meðmæli með þessum uppgötvunum sínum frá útlöndum.

Þá hefir nefndin tekið upp nýjan sið í því að veita engum mönnum lán til fullnaðarnáms, og er það rjett stefna. Það eru margir, sem eru andvígir beinum styrkveitingum, enda ætti þetta að vera meiri trygging fyrir því, að fjeð komi að fullum notum. Það er ætlast til þess, að námsmennirnir útvegi ábyrgð fyrir lánunum, sem stjórnin tekur gilda.

Kennaraskólanemendur hafa og beðið um styrk til að koma á hjá sjer matarfjelagi, í líkingu við mötuneyti háskólastúdentanna. Nefndin telur ekki ástæðu til að veita þeim þennan styrk, en er meðmælt láni til þessara hluta. Fordæmin eru til frá matarfjelagi stúdenta um lánveitingu í þessu skyni, og að vísu einnig um beinan styrk, en nefndin telur lánsaðferðina rjettari.

Ýmsir hreppar víðsvegar um land fara fram á uppgjöf lána, sem þeim hafa verið veitt. Færa þeir margir rjett góð rök fyrir sínu máli, og nefndinni er vel kunnugt um þröngan hag margra þeirra, en telur þó alls eigi rjett að veita uppgjöf á nýlegum lánum, og vill heldur hjálpa þeim með greiðslufrestum um nokkurra ára bil.

Samband íslenskra samvinnufjelaga fer þess á leit, að ríkið ábyrgist 3/4 af tjóni því, sem kynni að leiða af tilraunum Sambandsins með útflutning á kældu kjöti. Nefndin telur tilraunir þessar mjög lofsverðar, en þar sem mikil óvissa er enn um árangur þeirra, álítur hún þessa ábyrgðarbeiðni Sambandsins sanngjarna, ekki síst af því, að það miðar væntanlegt verð á kældu kjöti við væntanlegt saltkjötsverð á sama tíma, og mun þar því alls ekki frekt af stað farið.

Viðvíkjandi láninu til tunnuverksmiðjunnar á Siglufirði er það að segja, að það hefir lengi viljað við brenna, sem alkunnugt er, að umbúðir á framleiðsluvörum okkar væru mjög dýrar, og hefir það bakað oss margsinnis stórtjón. Þetta er engum vafa undirorpið. Hitt er og heldur engum vafa bundið, að það er hægt að búa til þessar og fleiri umbúðir hjer á landi bæði betri og ódýrari en erlendar. Nefndin vill því veita lán til þessarar verksmiðju, en ætlast til, að stjórnin veiti það eigi nema nægileg trygging sje að öðru leyti fyrir hæfilegu rekstrarfje til þessa fyrirtækis.

Enn er eftir síðasti liður þessara ábyrgða og lána — 100 þús. kr. til stúdentagarðsbyggingarinnar. Það upplýstist í umræðunum í gær, hve mikill kostnaður stúdentunum stafar frá húsaleigunni, og hv. þd. sýndi þá og með atkvæðagreiðslu sinni, að hún álítur þetta vera örðugasta hjallann á þeirra fjárhagslegu braut. Stúdentafjelagið hefir þegar gert mikið til þess að afla þessu fyrirtæki fjár; hefir komið á happdrætti í því skyni o. fl. Það var og Stúdentafjelagið, sem sneri sjer til nefndarinnar með þessa lánbeiðni, sem nefndin telur rjett að veita þeim. Það mundi verða hreinasti búhnykkur fyrir ríkið, ef þetta kæmist bráðlega upp, vegna þess, að þá hlýtur húsaleigustyrkur, og, ef til vill fleira, að ljetta af ríkissjóði.

Kvenfjelögin hafa óskað eftir að fá lóð til húsbyggingar á Arnarhólstúni og sneru sjer í því skyni til stjórnarinnar, en hún áleit, að rjettara væri, að tillögur um þetta kæmu frá Alþingi, og er því þetta mál hingað komið. Nefndin fellst á og styður umsókn kvenfjelaga þessara, um að þeim verði úthlutuð þessi lóð ókeypis, sem þau hafa beðið um.