12.04.1923
Neðri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (715)

1. mál, fjárlög 1924

Bjarni Jónsson:

Jeg kvaddi mjer hljóðs að þessu sinni fyrir þá sök, að jeg hafði gleymt í ræðu minni áðan brtt. á þskj. 292.X. frá hæstv. atvinnumálaráðherra, um að hækka fjárveitinguna, sem ætluð er til þess að leita nýrra markaða fyrir fiskafurðir vorar. Þessari till. hæstv. atvrh. vil jeg sjerstaklega mæla með; það ætti alls ekki að lækka þessa fjárveitingu aftur, heldur miklu fremur að hækka hana enn meir. Þetta ætti í rauninni að vera áætlunarupphæð, sem ekkert gerði til, þótt talsvert færi fram úr áætlun. Hjer eiga sæti á þingi nokkrir útgerðarmenn, og vita þeir gerst, hversu þetta er þýðingarmikið fyrir þennan atvinnuveg; kemur það og hart niður á öllum öðrum, sem aðra atvinnu stunda, t. d. bændunum, ef þessum atvinnuvegi hlekkist eitthvað verulega á.

Þó nú sje sendur maður til annarar heimsálfu, getur hann ekki gert alt, sem gera þarf, og eins mætti leita víðar en gert hefir verið. Væri t. d. sendur maður suður til Grikklands, er alllíklegt, að þar mætti fá mikinn markað fyrir fisk. Var þetta og á góðum vegi hjer á árun um, nokkru áður en ófriðurinn mikli hófst. Þá var nokkuð af fiski hjeðan selt þangað; en þetta varð alt að engu, þegar stríðið skall á. Síldarmarkaður vor er nær einvörðungu bundinn við eitt einasta land, Svíþjóð, og getur því aldrei orðið tryggur fyrir oss fyr en búið er að útvega nýja og eins góða markaði fyrir íslenska síld annarsstaðar. Blasir þá beint við oss að reyna einmitt fyrir oss að koma út íslenskri síld í þeim löndum, þar sem Svíar sjálfir selja sína síld, löndunum austan Eystrasalts, og þá sjer í lagi í Rússlandi. Það er næstum lífsskilyrði fyrir íslenska síldarútgerð að reyna að útvega þar markað fyrir síldina. Rússland er mikið land og gæti eflaust látið oss mikið í tje í staðinn, hvort heldur vjer seldum við gulli eða t. d. því, sem gulli er betra, korni. Gætu menn með þessu móti trygt síldarmarkaðinn. væri íslenskri síldarútgerð algerlega borgið.

Jeg vil í þessu sambandi ekki láta ónefndan þann mann, sem fyrstur vakti máls á þessu, en það var Ólafur Friðriksson, sem skrifaði í blað sitt um verslunarsambönd við Rússa, og flutti hann þar rjett mál. Háttv. 2. þm. Reykv. (JB) flytur, eins og mönnum mun kunnugt. þingsályktunartillögu um þetta efni, og gæti það orðið oss til mikils hags, ef menn vildu sinna þessu. Þarna má og fá ýmsar vörur í staðinn, sem ekki er annarsstaðar að fá, eða með miklu betra verði.

Jeg vil taka það fram um þessa viðleitni vora að finna nýja markaði, að þetta er aðeins byrjunin, og verður því þessi fjárveiting að standa áfram næstu árin. Fleiri staði mætti enn nefna, sem líklegt væri, að fá mætti markað fyrir afurðir þessar, og væri þá útgerðin enn þá tryggari. Þessi atvinnuvegur útheimtir miklu meira fjármagn til rekstrarins en aðrir atvinnuvegir vorir, og hefir það því alvarlegri afleiðingar fyrir oss, ef út af ber á þessu sviði. Vildi jeg því gjarnan kjósa þessa upphæð enn þá hærri vegna nauðsynarinnar að tryggja þennan atvinnuveg, og styð því þessa till. hæstv. atvrh. Enda er hún lítil upphæð á móts við það, sem mörg lönd og borgir verja til útgáfu bóka, með myndum og ýmiskonar upplýsingum um atvinnuvegi þeirra, á mörgum tungumálum, og er þessu dreift óspart út, til að útbreiða þekkingu á vörum, sem þar eru á boðstólum. Þegar jeg kom til Gautaborgar, barst mjer stóreflis bunki af þessum bókum á allra landa málum. Er það trú manna þar, að Gautaborg hafi grætt stórfje á þessu. Þó að nú Íslendingar gerðu eigi eins, mætti þó eitthvað gera í þessa átt, og þau útgjöld yrðu að takast af þessum lið; og það vil jeg segja þeim háttv. þm., sem kann að þykja till. hæstv. atvrh. of há, að þetta verður að vera áætlunarupphæð og á að fara fram úr áætlun, ef þörf er á. Það var þetta, sem jeg hafði gleymt að tala um, og þó að háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) beindi til mín nokkrum velvildarorðum, hefði jeg ekki látið þá Sirenu hafa áhrif á mig; en úr því að jeg er nú staðinn upp, ætla jeg að víkja til hans nokkrum orðum. Hann var að þakka mjer fyrir, að jeg hefði stutt hans tillögur. Eru það engin undur, ef hann hefir flutt einhvern, tíma rjett mál, og hafa honum eflaust þótt góð rök mín fyrir máli sínu. En svo telur hans almætti sig geta staðið upp á eftir og lýst yfir ágæti þeirra. En jeg þykist vita, að þessi ræða háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) eigi aðeins að vera undirbúningsræða undir næstu kosningar, því með því geta kjósendur þar eystra lesið, hve vel hann hefir haldið til haga hagsmunum fjórðungsveldisins, og hvílíkur garpur hann er á þingi að sjá borgið hagsmunum landsins, þótt undan sjeu skildir Sunnlendinga-, Vestfirðinga- og Norðlendingafjórðungar. Ætlar hann sjer nú að ljóma þar austur frá fyrir það, sem hann veittist að mjer og Álafossverksmiðjunni. Dró hann þá ályktun af því, að eigandi hennar á nú erfitt um fjárhag, að fyrirtækið væri á fallandi fæti. En Álafossverksmiðjan mun vera það eina, sem hefir borið sig af fyrirtækjum eiganda hennar. Hv. þm. (SvÓ) gerðist nú svo skarpskygn, að hann þóttist geta sjeð í gegnum ræðu mína, að það, sem fyrir mjer vekti með tillögunni um lánveitinguna til klæðskerans, væri það, að hjálpa Íslandsbanka. Er þetta svo spaklegt, að vert er, að eftir því sje tekið. Fyrst á nú allur minn hagur að standa á því, hvort Íslandsbanki tapar nokkrum krónum eða ekki, og til þess að koma í veg fyrir það, að bankinn tapi, fer jeg þessa krókaleið. Er þetta svo viturlega hugsað hjá háttv. þm., að ætla mætti, að Njáll hefði flutt sig úr Rangárvallasýslunni og sest að austur á fjörðum. Jeg vil því hressa háttv. þm. (SvÓ) með því, að nokkrir af háttv. þdm. hafa tjáð mjer, að þeir væru fylgjandi þessari till. minni, og mun háttv. þm. ekki geta talið suma þeirra óspara á landsfje. Hirði jeg ekki að nefna nöfn þeirra nú, en vona, að háttv. þm. fái að sjá það við atkvæðagreiðsluna. Þá kem jeg að því, hve mikill sparnaðarmaður þessi háttv. þm. er, Fer hann fyrst fram á, að veittar verði 200 þúsund krónur til glæfraverksmiðju á Reyðarfirði, sem ekki einungis er alveg óþörf, heldur einnig stórkostlegt fjárhættufyrirtæki. Þá vill þessi röksemdajarðvöðull fá 45000 krónur til búnaðarsambanda, til þess að kaupa fyrir vjelplóg. Var það eitt af því kringilegasta, sem fram kom í ræðu hans, er hann nefndi Magnús bróður minn í því sambandi. Að vísu var það rjett gert af honum og hyggilega að vísa til sjer betri manns. Veit jeg vel, að þótt Magnús bróðir minn yrði einna fyrstur manna hjer til þess að benda á nauðsynina til að fá þessa plóga og aðrar jarðræktarvjelar inn í landið, þá myndi hann nú leggja á móti slíkum kaupum, þar sem tveir plógar eru fyrir, sem fullnægt geta þörfunum. (BH: Þá er hann nýbúinn að skifta um skoðun). Þótt þessi háttv. þm., sem innskotið gerði, ætli sjer að ganga í lið með háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), þá mun honum sóknin því ver ganga, sem fleiri slíkir viðbætast.

Auk þess er það ekki nein smáræðisfúlga, sem þessi mentafrömuður þeirra Austfirðinganna ætlar sjer að veita til barnaskólabyggingar á Nesi í Norðfirði. Á ríkið að lána til þessa eina smáskóla 25000 krónur. Jeg veit ekki, hversu mörg þorp eru til á öllu landinu, en ekki mun ofreiknað, þótt þau sjeu talin 50. Yrði þá fjeð, sem ríkið þyrfti að lána til barnaskólabygginga í þeim 1250000 krónur, ef öll ættu að njóta jafnrjettis við þetta þorp, sem lagt er til, að lánið fái. Þegar við þetta bætist jarðvöðulslánið og ullarflókarnir, nemur það samtals hálfri annari miljón, sem þessi sparnaðarmaður ætlar sjer að krækja í úr landssjóði. Auk þess vill hann láta ríkið veita þessum barnaskóla 6000 króna beinan styrk. Yrði það þá 300000 krónur, sem ríkið ætti að veita beinlínis til barnaskóla í sjávarþorpum. Má segja, að þetta sje spaklega haldið á landssjóðsfje: Allar fjárveitingarnar óþarfar, og flestar beint skaðlegar atvinnuvegunum.

En það er meira blóð í kúnni, því svo spyr háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) háttv. 1. þm. Árn. (EE) að því, hvort hann vilji nú ekki líka fá sjer þessar 180000 kr., sem sá háttv. þm. fer fram á til verksmiðju hjer á Suðurlandi. Ætlar hann sjer að bæta henni við þá litlu fjárhæð, sem hann áður var búinn að sækja um. Óska jeg, að háttv. þm. nýtist vel þessi ræða og áhrif hennar á landsfólkið, og get jeg mjer til, að frægð hans verði eigi lítil, þegar upp er staðið.

Að svo mæltu slæ jeg botn í þetta, en læt þó um mælt, að enda þótt jeg hafi ekki lesið nál., þá er það ætlun mín, að háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hafi rangfært það mjög, er hann tilfærði úr því í ræðu sinni, og það þá vísvitandi. Mun hann hafa ætlast til, að við, sem ekki höfðum lesið nál., ætluðum að þetta væri skoðun nefndarinnar. Vona jeg, að einhver úr háttv. fjvn. verði til að lagfæra þetta.