12.04.1923
Neðri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

1. mál, fjárlög 1924

Sigurður Stefánsson:

1 Jeg skal ekki lengja mikið umr.; þarf enda ekki að halda neina kjósendaræðu.

Jeg er þakklátur hv. fjvn. fyrir, að hún hefir tjáð sig samþykka brtt. minni um að veita Hólshreppi greiðslufrest þann og vaxtauppgjöf, sem þar er talað um, Það, að farið er fram á þetta, stafar ekki af því, að hreppsbúa vanti viljann til að standa í skilum, heldur af hinu, að þeir geta það ekki vegna ófyrirsjáanlegs áfalls, sem þeir hafa orðið fyrir. Áður en jeg fór á þing, ljetu kjósendur mínir þá ákveðnu ósk í ljós, að jeg fylgdi hjer fast fram, að skuldin yrði að mestu gefin upp. Jeg svaraði því, að mjer væri annað tamara en að fara slíks á leit við ríkissjóðinn, og kvaðst ekki mundu ganga lengra en beiðast greiðslufrests í 4 ár. Býst jeg við, að þeir geri sjer þetta að góðu, sem hjer er farið fram á. Þessi hreppur skuldar nú um 60 þús. kr. Til samanburðar skal jeg geta þess, að það þótti mikið, þegar Gullbringu- og Kjósarsýsla skuldaði 90 þús. kr. En hvað er það fyrir eina sýslu, samanborið við þessa upphæð fyrir einn hrepp? Það bætist hjer svo við, að mestur hlutinn af þessum 60 þús. kr. er kominn í sjóinn, orðinn að eyðslufje, sem liggur nú í þessum brimbrjót, 50 þús. af því eru þannig komnar. Það getur því naumast talist annað en sanngjarnt, að þessi greiðslufrestur verði veittur um þessi 4 ár. Og jeg skal enn taka það fram, að til þessa hefði aldrei komið, ef áfallið hefði ekki orðið. Þá hefði hreppurinn haldið áfram að borga af láninu, eins og upphaflega var gert ráð fyrir.

Jeg sagði um daginn, að mjer líkaði vel flest af því, sem hv. fjvn. hefði gert, þótt jeg væri annarar skoðunar en hún í einstökum atriðum. Eitt af því, sem jeg finn helst að hjá henni, eru þessar miklu lánsheimildir, sem hún hefir veitt stjórninni. Mjer er það satt að segja ekki ljóst, hvar hún ætlar ríkissjóðnum að fá alt það fje, sem hún er hjer að ráðstafa. Jeg álít, — eins og nú stendur á, — að það sje skakt af þinginu að fara langt í þessum efnum. Það er blekking fyrir lánbeiðendur og blekking fyrir þjóðina. Þegar menn úti um land líta á þennan langa lánshala í fjárlögunum, þá hugsa þeir eðlilega svo, að ríkissjóður sje ekki svo haltur sem hann hinkri, úr því að hann hafi alt þetta fje til að lána. Það verður að fara svo hjer sem annarsstaðar, að reyna að sníða sjer stakk eftir vexti. Jeg tek undir með hæstv. forsrh. (SE), er hann gat um í dag, að hann vissi ekki, hvar stjórnin ætti að taka alt þetta fje. Jeg sá þá vantrúarsvip bregða fyrir á andlitum sumra háttv. þm. En svo er því ekki farið um mig. Jeg er samdóma hæstv. stjórn í þessu efni. Það mátti virðast nægilegt, er háttv. fjvn. hafði bætt 200 þús. kr. gjaldamegin á fjárlagafrv. stjórnarinnar. En svo virðist, sem háttv. þm. hafi ekki fundist svo. Þeir hafa bætt enn við um 100 þús. kr. Mjer er nú spurn: Til hvers á eiginlega að samþykkja þetta? Er það ætlun þingsins, að stjórnin fari að taka ný stórlán? Ef það vildi standa við þessar heimildir sínar, þá ætti þetta svo að vera. Jeg hefði þó búist við, að háttvirtum þm. kæmi saman um það, að talsverður nauður yrði að að knýja til þess, að farið væri að bæta við nýjum lánum. Er síst hægt að sjá, að hagur ríkissjóðsins sje mjög glæsilegur nú, er hæstv. fjrh. (MagnJ) hefir ekki sjeð sjer annað fært en láta hann eta upp landhelgissjóðinn í heimildarleysi. Eitthvað þarf til að skila því fje aftur. Og verði till. háttv. þni. Borgf. (PO) oftan á, að kaupa strandvarnar- og björgunarskip, þá býst jeg við, að fækka taki krónunum í ríkissjóðnum, nema tekin verði ný lán. Þá mun varla veita af þessum 600 þús. kr., sem hæstv. fjrh. tók úr landhelgissjóðnum. Og jeg hygg, að þar verði til að koma aðrar og ef til vill þriðju 600 þús. krónurnar, því ekki dytti ofan yfir mig, þótt þetta landvarnar-, björgunar- og skólaskip kæmi til að kosta á aðra miljón króna. Það er vart að ætla, þegar maður athugar málið nánar, að hjer geti verið um alvöru að ræða hjá hv. þm. Hjer við bætist svo, að tekjuhallinn á fjárlögunum kemur til með að nema miljón. Það virðist því, að öllu þessu athuguðu, lítil ástæða til að fara mjög geyst í sakirnar með að heimila lán úr ríkissjóðnum. Það er aðeins til að blekkja þingið, blekkja lánbeiðendur og blekkja þjóðina.

Jeg skal svo ekki lengja umr. frekar og láta þetta verða mín síðustu orð við þessa umr. fjárlaganna.

SSt hefir ekki yfirlesið handrit skrifaranna að þessari ræðu.