12.04.1923
Neðri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 853 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

1. mál, fjárlög 1924

Jón Baldvinsson:

Það var útbýtt hjer fyrir stuttu síðan blaði nokkru, sem mun hafa átt að vera brtt. við brtt., og mun ætlast til, að þetta komi hjer til atkv. Nú virðist mjer sú till. ekki vera úr garði gerð samkvæmt þingsköpunum, þar sem hún er ekki prentuð, og vildi jeg leyfa mjer að skjóta því til hæstv. forseta, hvort till. geti komið til atkv.

Jeg ætla svo aðeins að drepa með örfáum orðum á nokkur atriði.

Jeg skal þá fyrst geta um lán það til Gerðahrepps, sem mælt er með af háttv. fjvn. Jeg mun greiða atkv. með því, en þó ekki af sömu ástæðum og hún, eða minsta kosti ekki að öllu leyti. Það atriði, sem hefir mest að segja í mínum augum, er þetta, sem háttv. frsm. (MP) gat ekki um. Stendur það þó í sama brjefinu, sem hann vitnaði í, og skal, jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa það upp. Það hljóðar svo:

„Að fjöldinn af bændum hjer seldu þann litla fisk, sem þeir áttu, kaupmönnum, sem ekki hafa getað borgað nema að nokkru leyti og útlit fyrir, að aldrei geti borgað sumt.“

Það er þetta, sem jeg býst við, að sje ekki hvað síst orsök þess, að svo þröngt er nú í búi hjá þessum hreppi. Vildi jeg aðeins taka þetta fram, til að láta það sjást, að það er ekki af þeim ástæðum, er hv. frsm. tók fram, að jeg greiði atkvæði með þessum styrk.

Þá er það styrkurinn til Fiskifjelagsins. Hv. fjvn. hefir komið fram með till. um 60 þús. kr., og hefir hún í því tekið upp till. háttv. sjútvn. Hv. þm. Borgf. (PO) hefir nú gert grein fyrir því af hálfu hv. sjútvn., hvernig hún hugsar sjer, að styrknum sje varið. En í sambandi við þessa fjárveitingu get jeg ekki stilt mig um að láta í ljós óánægju mína yfir störfum formanns Fiskifjelagsins. Vil jeg þar sjerstaklega skírskota til afstöðu hans til steinolíuverslunar ríkisins, og hve sú afstaða hans, sem fulltrúa sjávarútvegsins, sjerstaklega mótorbátaútvegsins, er óviðeigandi, þar sem hann bersýnilega er að tala máli hins illræmda steinolíufjelags, sem mesta bölvun hefir gert íslenskum bátaútveg. Vildi jeg taka það skýrt fram, að það er síst að skilja sem verðlaun fyrir þá framkomu hans, að styrkurinn verður nú hækkaður.

Jeg skal til árjettingar bæta því við, að það er ekki jeg einn, sem geri lítið úr starfsemi þessa manns. Einn af helstu bankastjórunum hjer hefir nýlega tekið í þann strenginn, þar sem hann telur starfsemi Fiskifjelagsins mjög lítils virði, og þá auðvitað fyrst og fremst forseta þess. Hefi jeg ekki gefið mjer tíma til að lesa langloku þá, sem forseti Fiskifjelagsins hefir svarað aðfinslum hans, enda býst jeg varla við, að hún sje þess verð.

Þá hefir háttv. fjvn. ætlast til, að Sláturfjelagi Suðurlands verði veittur 40 þús. kr. styrkur til að koma hjer upp sútuna verksmiðju. Sá styrkur mun vera einn sá hæsti, sem veittur hefir verið til einstaks manns eða fjelags, og verð jeg að segja það, að þótt fyrirtækið sje í sjálfu sjer gott, þá er spursmál, hvort það gæti ekki eins blessast, þótt ekki væri veittur svo hár styrkur til þess. Mjer finst satt að segja, að þingið hefði átt að láta sjer nægja lánsheimildina, og henni sje jeg ekkert á móti. Þess má vænta, að þetta verði mjög arðsamt fyrirtæki, og er því varla ástæða til að styrkja það með svo stórkostlegu fjárframlagi. Það má ekki líkja þessu saman við fyrirtæki, sem varða almenningsheill, en geta samt ekki gefið rekstrarmönnunum viðunandi arð. Það er alt öðru máli að gegna, þótt ríkið styrki þau. Þá leið gæti jeg líka vel gengið inn á, að ríkið keypti nokkurn hlut í þessu fyrirtæki og styrkti það á þann hátt. En þetta finst mjer of langt gengið, að veita svo mikinn styrk. Jeg get annars tekið undir það með háttv. þm. N.-Ísf. (SSt.) að mjer finst nokkuð langt gengið í öllum þessum ábyrgðum og lánsheimildum ríkissjóðsins. Slíkar ábyrgðir eru ekki ávalt hættulausar fyrir ríkissjóðinn. Skal jeg t. d. minna á Álafossábyrgðina, sem hljóðaði upp á 200 þús. krónur og samþykt var af þinginu í fyrra. Mörgum mun nú þykja tvísýnt, að ríkissjóður hefði fengið þar fje sitt aftur. Og er það ekki þinginu að þakka, heldur stjórninni, að ábyrgð var ekki tekin á þessu fje. Gæti svo hugsast, að eftir svo sem eitt ár þættu sumar þær ábyrgðir, sem menn fylgja nú sem fastast, ekki áhættuminni.

Þá hefir háttv. fjvn. komið fram með till. um það, að 10 þús. kr. verði varið til markaðsleitar erlendis. Hæstv. atvrh. vill hækka þessa upphæð upp í 20 þús. kr. Jeg er honum sammála um, að það verði ekki of mikið. Það er ekki einasta, að hjer sje um ferðakostnað þess manns að ræða, sem er að leita markaðsins, og er hann þó oft nægilega mikill. Hann þarf að hafa með sjer sýnishorn af vörunum. Kosta þau bæði talsvert mikið og ekki síður flutningurinn. Jeg vildi aðeins minna á þetta, af því að háttv. þm. Dala. (BJ), sem talaði annars ítarlega um þetta, ljet þess ekki getið.

Í eldhúsdagsumræðunum gerði jeg fyrirspurn um það til hv. atvinnumálaráðherra (KIJ), hvort það væri satt, sem heyrst hefði, að stjórnin hefði gefið verslunar- og kaupsýslumönnum stjórnarmeðmælabrjef til útlanda, án þess, að þeir þó á nokkum hátt væru erindrekar stjórnarinnar eða landsins.

Hv. ráðh. gaf nú að vísu ekki skýrt svar, en upplýsti þó, að hann hefði gefið formanni verslunarráðsins meðmæli stjórnarinnar til markaðsleitar erlendis, og hefði fyrverandi stjórn einnig veitt sama manni slík meðmæli áður.

Með þessu svari hv. atvinnumálaráðherra (KIJ) er þá sannað það, sem jeg spurði um, að stjórnin hefir veitt sín meðmæli manni, sem ekkert tækifæri hefir látið ónotað til þess að hnekkja viðleitni ríkisins til þess að bæta úr verslunarástandinu, og jeg efast ekkert um, að hann hefir, með stjórnarmeðmæli upp á vasann, gert hið sama erlendis, og mundi auðvelt að færa dæmi að því.

Það kostaði landið ekki einn eyri að gefa þessi meðmæli, upplýsti hv. ráðh. En hann skýrði ekki frá því, hvaða gagn landið hefði haft af þessu. En háttvirtur ráðherra bjóst við, að maðurinn hefði haft gagn af þessu sjálfur. Það er nú víst enginn í vafa um það, að slík meðmæli eru t. d. ágætur læknisdómur til að græða brunasár á gómunum, sem komið hafa við þátttöku í síldarbraskinu mikla hjerna á árunum.

En fyrst þessi maður gat fengið þetta meðmælabrjef, án þess að hafa nokkurt erindi fyrir landið, þá get jeg hugsað mjer, að margir fleiri heiðursmenn muni fram koma, sem telji sig líka eiga rjett á stjórnarmeðmælum til markaðsleitar. Og jeg sje ekki, hvernig stjórnin getur neitað öðrum um þetta sama, sem jeg tel raunar alveg óhafandi, að veitt skuli hafa verið.

Þá er brtt. frá háttvirtum þm. Borgf. (PO), að jeg ætla á þskj. 292, um að gera Eyrarfoss í Laxá í Svínadal laxgengan. Þetta er lítil upphæð, en er ætluð til þarflegra hluta. Það ætti að gera mikið að því að auka laxveiðina, t. d. með klaki, lagfæring fossa, eins og hjer er verið að ræða um. o. m. fl. En jeg vil skjóta því til allra bænda, sem þetta mál snertir — og þá háttv. þm. Borgf. sjerstaklega — að athuga það, að sjeð verði um, að bændur, sem næst búa við smáár, sem lax gengur í, — eins og t. d. þessa á, — hirði ekki með þverlagningu alla veiði, sem upp í ána gengur, því þá gæti svo farið, að þeir geri gagnslausar allar umbætur, sem gerðar hafa verið, og þetta því aðeins orðið kostnaður einn.

Það er rjett, sem hv. þm. (PO) sagði, að þetta verk yrði til hagnaðar fyrir ríkissjóð, en hann gat ekki um hitt, að nærliggjandi sveitir hafa hag af þessu, er þeim er heimilt að lögum að leggja útsvar á þá menn, sem koma þarna til að skemta sjer við veiði.

Að lokum ætla jeg að minnast á einn lið í brtt. fjvn. Það er liður 88, e., lánveitingin til Skeiðaáveitufjelagsins, sem ætlast er til, að veitt verði til 20 ára með 51/2% vöxtum, en þó vaxtalaust fyrstu tvö árin.

Mjer er nú sagt, að þetta fyrirtæki hafi algerlega mishepnast; að kostnaðaráætlun vegamálastjóra hafi farið margfaldlega fram úr áætlun, og er það því vart undarlegt, þótt þeir bændur, sem hjer eiga hlut að máli, fái nú alls ekki undir risið. Til dæmis var ekki í kostnaðaráætluninni gert ráð fyrir stórri hraunklöpp, sem gerði verkið margfalt dýrara.

Jeg nota tækifærið til að víta alment þær áætlanir, sem verkfræðingarnir gera fyrir landið og sveitar- og bæjarfjelög. Það er og ástæða til að minnast á það, hve þessir herrar, verkfræðingarnir. eru uppástöndugir, þegar þeir gera áætlanir sínar og einhverjir, sem þeir álíta leikmenn í þeim fræðum. vilja hafa hönd í bagga með þeim. Þá segjast þeir ekki taka á sig neina „ábyrgð“ á verkinu, nema þeir fái öllu að ráða. En hvernig gefst hún nú þessi ábyrgð þeirra verkfræðinganna? Það mun alls ekki vera ætlast til, að vegamálastjóri beri ábyrgðina fyrir þessa áætlun, sem nú var nefnd, og ekki heldur verkfræðingurinn, sem gerði áætlanirnar um brimbrjótinn í Bolungarvík. Nei. þeir bera alls ekki ábyrgðina. — það eru sveitar- og bæjarfjelögin og ríkissjóður, sem borga.

Þá verð jeg að víta það, að vegamálastjóri hefir mjög oft gert sig sekan í því að hrinda mönnum frá atvinnu af pólitískum ástæðum. Þekki jeg ein 2–3 atvik í þessa átt. Þetta bið jeg hæstv. atvinnumálaráðherra, sem er húsbóndi hans, að flytja honum, svo að þetta komi ekki oftar fyrir.

Jeg verð að játa, að jeg líklega verð að samþykkja styrkinn til Skeiðaáveitunnar, enda þótt jeg álíti þetta geta orðið hefndargjöf þeim mönnum, sem hlut eiga að máli. En allra líklegast er þó, að þetta lendi að síðustu á ríkissjóði.

Jeg þarf ekki að fara mörgum orðum um brtt. okkar hv. þm. Ak. (MK); hann mælti svo vel með henni, að jeg þarf þar ekki neinu við að bæta. Þetta miðar að því að auka ræktun landsins og er til að ljetta undir með fátækum mönnum í kaupstöðum, sem vilja taka land til ræktunar.