12.04.1923
Neðri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

1. mál, fjárlög 1924

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Mjer þótti hv. frsm. (MP) vera óþarflega harðorður út af hinni smáu og meinlausu fjárveitingu, að upphæð 500 kr., til Dansk Kunstflidsforening, og hjelt, að stjórnin hefði ekki lesið skýrslu forstöðukonunnar. En þetta er misskilningur: stjórninni var hún vel kunnug. Hún hefði auðvitað hæglega getað stungið henni undir stól, og þá hefði fjárveitingin flogið í gegn, en henni fanst engin ástæða til þess. En hitt er sýnilegt, að hv. frsm. (MP) hefir ekki lesið skýrsluna fyr en nú, eftir ræðu mína í dag, annars mundi hann hafa minst á þessa óhæfu skýrslu þá, og þá ekki síður getið hennar í nál. En jeg sje ekki mikla ástæðu til þess að gera mikið veður úr því, þó einhver ummæli í skýrslunni sjeu máske óvarlega orðuð. Það er alkunna, að Dönum hefir gengið illa, mörgum hverjum, að viðurkenna fullveldi vort, og eflaust halda margir þeirra enn, að við sjeum í sama sambandinu við þá eins og áður. Það mun sennilega vera þetta skilningsleysi á högum vorum, sem nefnd ummæli eru sprottin af. En að þau geti sett nokkurn blett á oss eða sjeu þess megnug að vinna fullveldi voru nokkurn skaða, get jeg ekki skilið. Og að nemendur á þessum skóla yrðu yfirleitt dansklundaðri en á öðrum slíkum skólum, fæ jeg heldur ekki sjeð. Jeg geri ráð fyrir, að stúlkur, sem þangað leita, verði þar fyrir eitthvað svipuðum áhrifum eins og aðrar íslenskar stúlkur, sem fara til dvalar í Danmörku.

En þó þessi styrkur verði nú ekki veittur, geri jeg fastlega ráð fyrir, að ýmsar stúlkur muni eftir sem áðu leita þangað og sækja um styrk til áframhalds náminu. En það, að leita til Dana um slíka hluti, er í mínum augum miklu leiðinlegra en þessi ummæli í skýrslunni, sem að rjettu lagi geta engan sært. En sje það alvara hv. frsm. og nefndarinnar að styrkja nemendur í þessu skyni, þá ætti það ekki að vera skilyrðisbundið, hvert þeir færu.

Út af styrknum til fiskimarkaðsleitar vil jeg taka það fram, að jeg er þakklátur hv. þm. fyrir, hversu vel þeir hafa tekið í það mál; heyrist mjer sem þeir sjeu yfirleitt samdóma um það, að þeim rannsóknum beri að halda áfram og það sje áætlunarupphæð, sem stjórnin fer fram á í þessu skyni. Kostnaðurinn við þessar markaðsrannsóknir hingað til hefir orðið um 35 þús. kr. Það er miklu dýrara að senda til Suður-Ameríku en til Rússlands eða Eystrasaltslandanna.

Núna síðast á eftirmiðdagsfundinum í dag var mikið minst á ullarmálið, og get jeg tekið undir það, að það sje fullsnemma fram borið. Fyrirspurn er komin fram um það, hvað því máli líði, en þar sem nefndarálitið í því máli kom seint í síðustu viku og fundir hafa síðan verið langir, sumir langt fram á kvöld, hefir mjer ekki unnist tími til að kynna mjer rækilega alt það, sem að því máli lýtur. Verð jeg því að álíta, að málið sje ekki tímabært eins og nú er málum komið í deildinni, og hvorki á stjórn nje þing hægt um vik að átta sig á því strax.

Þá kom fyrirspurn um það til stjórnarinnar, hvort lánin til þurrabúðarmanna sjeu mikið eftirsótt. Jeg get ekki að svo komnu gefið neinar ábyggilegar skýrslur um það, en engin slík lánbeiðni hefir borist til mín síðan jeg varð ráðherra. En jeg man eftir því, að þegar jeg var landritari, þá voru þessi lán alltíð og þóttu koma að góðum notum. Þau voru tiltölulega ódýr og vöxtum og afborgunum vel fyrir komið.

Háttv. frsm. fjvn. (MP) gerir lítið úr lánsheimildum nefndarinnar. En hafi jeg talið rjett saman, þá eru það ca. 200 þús. kr., sem hún vill veita, heimild til að lána. Þetta finst mjer, satt að segja, annað en lítið, og trúi ekki öðru en með því móti geti erillinn orðið nokkuð mikill á fjármálaskrifstofunni.