12.04.1923
Neðri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 868 í B-deild Alþingistíðinda. (723)

1. mál, fjárlög 1924

Forsætisráðherra (SE):

Jeg ætla aðeins að minnast á eina brtt., eða 1000 kr. styrk til Jóhannesar Guðmundssonar, vegna skaða af Kötlugosinu. Af því að jeg er þessum manni talsvert kunnur, vildi jeg kynna hann háttv. deild með örfáum orðum. Þegar jeg var sýslumaður þar eystra, bjó þessi maður í tungu í miðju Kúðafljóti og var í miklum uppgangi. Honum græddist fje og bjó með mikilli rausn, enda var hann annálaður gestgjafi. Allir, sem yfir fljótið fóru, nutu aðstoðar hans; jeg hefi sjálfur farið þráfaldlega með honum yfir þetta ægilega vatnsfall, og eitt sinn í niðamyrkri, og fór þá einn maður niður um ísinn, en með snarræði bjargaðist hann. Jeg gat ekki annað en dáðst að ötulleik þessa manns, og mjer datt í hug gamall og reyndur herforingi, þegar hann gaf skipanir sínar.

En Katla þoldi ekki uppgang þessa manns, og eitt sinn er hann var fjarverandi, sá fólk hans, að hvítar jakabreiður flutu niður fljótið og færðust nær með vaxandi hraða, og var þá flúið austur yfir fljótið með miklum hraða, en rjett þegar komið var yfir á bakkann hinummegin, skullu jakabreiðurnar á bænum og drápu fjölda fjár og hesta. Katla skyldi hann eftir eignalausan, og geta menn skilið, hvert áfall slíkt er, en þó held jeg, að Jóhannesi falli það þyngst að þurfa nú að hafast við í þröngum húsakynnum og geta ekki fagnað gestum með þeim höfðingsbrag, sem honum er eiginlegur. Jeg sje ekki betur en að það sje sómi þingsins að veita þessum manni þessa upphæð, og hún getur aldrei orðið nema lítill viðurkenningarvottur fyrir rausn hans og hjálpsemi við þá, sem hann fylgdi yfir Kúðafljót. Ef jeg færi að halda slíka tölu fyrir Jóhannesi sjálfum, þá mundi hann skoða það sem fjarstæðu, en slíka menn eigum við marga uppi um sveitirnar, sem mikill kraftur býr í, þótt þeir viti ekki af því sjálfir. Jeg vona því fastlega, að þessi till. verði samþykt.