12.04.1923
Neðri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 875 í B-deild Alþingistíðinda. (726)

1. mál, fjárlög 1924

Eiríkur Einarsson:

Hv. 1. þm. S.-M. misskildi mig viðvíkjandi skýrslu ullariðnaðarnefndarinnar. Jeg sagði ótvírætt, að lesa mætti út úr þeirri skýrslu, að höfuðtill. hennar væri, að ein klæðaverksmiðja væri stofnuð í nánd við Reykjavík, t. d. á Álafossi, eða jafnvel á Reykjum í Ölfusi, ef járnbraut yrði lögð þangað. En kæmist ekki þessi aðaltillaga í framkvæmd, þá væru stofnaðar fleiri og víðar. Þetta sagði jeg þeim til upplýsingar, sem ekki hafa kynt sjer till. nefndarinnar.

Þá sagði sami hv. þm. (SvÓ), að tillaga mín ákvæði engan vissan stað. En þá getur hann, samkvæmt orðum sínum, fallist á hana, því vitanlega undirskilur hún nágrenni Reykjavíkur. Er blekking að segja, að hún geti átt við hvar sem væri. Jeg flyt hana í samræmi við till. nefndarinnar, og hún ákveður einmitt staðinn.

Það hefir komið fram í umr., að þrír þm. Múlasýslna eru sammála um að veita fje til ullarverksmiðju eystra, en hitt annað greinir þá á um, og sjest á því, hve mál þeirra Austfirðinga er illa undirbúið. Jeg skal taka það fram viðvíkjandi því, er hv. frsm. (MP) sagði um hlutleysi mitt við till. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að jeg átti þar aðeins við hlutleysi í orði; jeg ætlaði ekki að ræða um hana. Skoðun mína í málinu hefi jeg sýnt, og hún mun sannast með atkv. mínu.

Afstaða mín til þessa máls er skýr og ákveðin með till. minni. Það má alls ekki tala um það, eins og hv. þm. Ísaf. (JAJ) gerði, að ekki væri fje fyrir hendi til slíkra framkvæmda. Þegar um nauðsynjamál er að ræða, þá verður fjeð að fást til þeirra. Fje er líka til, en það þarf að veita því í rjettan farveg. Máske er Viðlagasjóður þurausinn, en jeg álít engu að síður, að landsstjórnin geti gert mikið, þegar um slíkt nauðsynjamál er að ræða. Þar reynir á dug hennar.

Hvað það snertir, sem háttv. frsm (MP) hjelt fram um styrkinn til Þórdísar Símonardóttur ljósmóður, að þá kæmu allar yfirsetukonur á eftirlaun, þá er það örugt, að svo þarf ekki að verða, því þær munu fæstar ná þeim „jubil“-aldri, sem hjer er um að ræða og meðal annars gerir Þórdísi maklega viðurkenningarinnar. Hún hefir nú starfað af dugnaði og trúmensku yfir 50 ár, og álít jeg, að þingið gerði rjett í því að gleðja hana og hjálpa henni á elliárunum. Það, sem sýslufjelögin með lögmæltri íhlutun ríkisins láta af hendi rakna til slíkra kvenna, er svo lítið einatt, að þær hafa ekki nóg af að lifa á uppgjafaaldri. Vona jeg, að hv. deild taki till. vel.

Háttv. frsm. (MP) kallaði till. mína um ullarverksmiðjustyrkinn „stóra“. Hann mun írekar hafa kallað hana svo af því hún fer fram á fjárútlát, nokkuð há, heldur en af því, að hann ætli henni stóran árangur eða langa lífdaga. Þetta kom glögt fram. Hann sagði, að jeg hefði laumað henni inn í deildina, en jeg mun engan kinnroða bera fyrir að hafa komið fram með hana. Hann sagði, að jeg hefði ekki fært þetta neitt í tal við nefndina, þegar þetta mál var til umr. þar, en það hefði jeg átt að gera. En tækifærið til að bera hana fram kom einmitt þegar till. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) kom fram. Þá vissi jeg, að málið mundi verða rætt. Og að ræða það opnar einmitt útsýn yfir málið. Og þó að ekki væri búið að svara þeirri fyrirspurn, er jeg gerði til stjórnarinnar, þá gerði till. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) það að verkum, að málið varð að ræðast í deildinni, og till. mín leiðir þar af villisporinu, er stigið yrði, ef farið yrði að veita smástyrki til ullariðnaðar, að lítt rannsökuðu máli.

Það er jafnmikil nauðsyn að ræða málið nú og 1921. Og þáltill., er jeg bar þá fram, hefir orðið til þess, að málið er þó komið á hreyfingu. Á suðurláglendinu er mikill áhugi fyrir þessu máli. Það kom meðal annars í ljós á tveim fundum, sem haldnir voru þar í vetur. Er það eitt næg ástæða fyrir því, að málið sje rætt og því hreyft af mjer einum, úr því að aðrir verða ekki til þess. Að jeg hafi farið bak við fjvn. með þetta, með því að bera það ekki undir hana, ber jeg auðvitað, ábyrgð á. En jeg álít, að hv. frsm. (MP) sje ekki hóti betri en jeg, því hann kemur með fullyrðingar fyrir nefndarinnar hönd án þess að hafa borið málið undir hana. Eða er það ekki rjett. Að jeg hafi flutt málið af fordild, þá er því að svara, að jeg skil ekki þessa gömlu hugsun, sem fær svo mikla undiröldu hjer, að ekki sje sama, hver kemur fyrstur með málin. Það er eins og í gamla daga, þegar metingurinn var um kirkjusætin. Þetta hjer ætti ekki að koma manninum við, heldur á að líta á málefnið sjálft. Það er góð lífsregla fyrir þá, er þykir enn betra að eiga sæti við altarið en annarsstaðar í kirkjunni.

Þá spurði hv. frsm. (MP), hvort það væri meining mín, að það ætti að reisa þessa verksmiðju á 10 árum, og hvort jeg hugsaði mjer að koma með brtt. um að bæta við einu núlli. Þessari spurningu, sem er útúrsnúningur og aldrei hefir verið gefið tilefni til, vísa jeg til föðurhúsanna. Nefndin gerir ráð fyrir, að verksmiðja fyrir alt landið kosti 1800000 kr. En jeg get sagt honum, að þessi till. mín er einmitt bygð á þessari till. nefndarinnar; því hefi jeg áður lýst. Upp á einhverri upphæð varð að stinga, og þá var þessi ekki svo fjarlæg, sem er 1/10 hluti upphæðarinnar. Hitt ætti að fást með söfnun, og er ekki hægt að ákveða tímann, sem til þess gengur. Og sjálfsagt veitti ekki af 100 árum, ef altaf væri verið að metast um forgönguna og nauðsynjamálið gert að persónulegu metnaðarmáli og togstreitu. Þegar þingið er búið að hleypa málinu af stokkunum með fjárheimild, eins og ullarnefndin vill, ætti að velja nefnd, er hefði stjórn á framhaldsundirbúningi og framkvæmd með landsstjórninni.

Þá vöktu þeir hæstv. atvrh. (KIJ) og háttv. frsm. (MP) máls á því, að till. væri of snemma borin fram. En það má ekki seinna vera, þar sem 2. umr. fjárlaganna er bráðum búin hjer í hv. Nd. Verði þessi till. mín samþykt hjer nú, fær nefndin hana til umsagnar, og má þá gera brtt. við hana til 3. umr. Þá ætti stjórnin að vera búin að svara fyrirspurninni og þingmenn að kynna sjer málið nokkru betur en þeir hafa þegar gert.

Það er leitt, að hæstv. atvinnumálaráðherra er farinn. Hann hefði átt að geta sagt álit sitt á því, sem skýrslan hefir að geyma, svo málið hefði verið eins vel undir 3. umr. fjárlaganna búið sem yfirleitt föng eru á.

Tel jeg svo rjett að láta skeika að sköpuðu um það, hvernig um till. fer, og læt bera hana undir atkvæði. Sjest þá, hverjir verða með og hverjir móti og hverjir meta formið meira en málefnið.