12.04.1923
Neðri deild: 40. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

1. mál, fjárlög 1924

Lárus Helgason:

Örfá orð viðvíkjandi sútunarverksmiðju Sláturfjelagsins. Jeg er sjerstaklega kunnugur fyrirkomulagi Sláturfjelagsins frá byrjun; hefi jeg verið í stjórn þess um mörg ár og þekki þá menn, sem fyrir það starfa, einkum framkvæmdarstjórann. Jeg get verið þakklátur hv. fjvn. fyrir að hafa tekið vel þessari málaleitun frá Sláturfjelaginu.

Aðeins vildi jeg, að hv. deildarmenn væru ekki svo hræddir um, að málið sje of illa undirbúið. Jeg vil benda mönnum á það, að Sláturfjelagið leggur ekki út í þetta fyrirtæki óforhugsað. Vel færir menn hafa verið fengnir til að undirbúa málið sem best, eins og kunnugt er. Jeg treysti því, að deildarmenn hafi það traust á þeim mönnum, sem að þessu standa, að þeir treysti þeim til að fara gætilega. Þeirri reglu hefir altaf verið fylgt hjá þessu fjelagi, að byrja smátt. Þannig hafa hús þess verið reist smátt og smátt. Sömu reglu verður vafalaust fylgt með verksmiðjuna, og jeg er sannfærður um, að fjelagið heldur uppteknum hætti, að viðhafa alla gætni.