18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 927 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

1. mál, fjárlög 1924

Gunnar Sigurðsson:

Það eru tvær brtt. á þskj. 369, sem jeg ætla að minnast á.

Sú fyrri er að lækka styrkinn til dansk- íslenska fjelagsins úr 1000 kr. niður í 300 kr. Það ættu allir að vera sammála um, að styrkur til fjelags þessa væri lækkaður. Og þeir, sem ekki kæra sig neitt sjerstaklega um, að sambandið milli Danmerkur og Íslands sje eflt um hóf fram, ættu að taka till. sjerlega vel. Það er langt frá því, að jeg sje Danahatari, en þó sje jeg enga ástæðu til að efla samband landanna með fjárstyrk. Það væri miklu nær að styrkja fjelag, sem ynni að eflingu fullkomins sjálfstæðis Íslands og fullum skilnaði við Dani síðar meir.

Auk þess starfa hjer ýms fjelög að því að efla sambandið milli Íslands og annara landa en Danmerkur. Má þar nefna Alliance Francaise, Germania og Anglia. Þessi fjelög eiga ekki síður skilið að fá styrk. Við þekkjum Dani fullvel, en hinar þjóðirnar þekkjum við minna, og hefðum við þó gott af að kynnast þeim betur.

En ef við eigum að leggja þessu fjelagi nokkurn styrk, þá svara 300 kr. til þeirra 10000 kr., sem Danir leggja því nú, eftir fólksfjölda. Og borið saman við þjóðarauð beggja landanna ætti okkar styrkur að vera enn minni.

Hin síðari brtt., sem jeg ætlaði að tala um. er líka frá mjer og fer fram á að greiða Dýraverndunarfjelagi Íslands 1000 kr. styrk úr ríkissjóði. Jeg ætlaði upphaflega að tala ítarlega fyrir þessari brtt., en þar sem háttv. þm. hafa sett sjer þá reglu við þessa umr. að vera stuttorðir, vil jeg ekki brjóta hana.

Fjelagsskapur líkur þessum, sem hjer er farið fram á að styrkja, er starfandi um allan hinn mentaða heim og nýtur alstaðar opinbers styrks, nema hjer. Í raun og veru kemur öllum saman um það, að fara beri vel með skepnur. Ýms trúarbrögð, þar á meðal vor, hafa komið því inn hjá mönnum, að dýrin sjeu sköpuð fyrir þá einvörðungu. Það mundi sönnu nær að telja dýrin aðeins óþroskaðri greinar á sama stofni, er hefðu sjálfsagðan tilveru- og verndarrjett. En það er ekki aðeins hin siðferðilega hlið þessa máls, sem heimtar, að farið sje vel með dýrin og að þeir sjeu styrktir, sem berjast fyrir því, heldur ber einnig að taka hagsmunahlið þessa máls til greina, því öllum má vera það ljóst, að skepnurnar eru til meiri nytja, ef vel er farið með þær. Jeg skal taka það fram, að jeg flyt tillögu þessa ekki að tilhlutun Dýraverndunarfjelagsins, enda er jeg ekki einu sinni meðlimur í því fjelagi. Kunna og vel að vera einhverjir gallar á því, en það er víst, að formaður þess er mjög áhugasamur um þessi mál, og margt gott liggur eftir fjelagið, t. d. hefir það komið upp skýli fyrir ferðamannahesta, en á erfitt með að halda því uppi, vegna fjárskorts.