18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (748)

1. mál, fjárlög 1924

Lárus Helgason:

Jeg vildi víkja nokkrum orðum að hæstv. forsætisráðherra út af mótmælum hans viðvíkjandi till. minni um að dýrtíðaruppbót verði ekki greidd á eftirlaun þeirra bankastjóranna Björns Sigurðssonar og Björns Kristjánssonar. Jeg hefi að vísu heyrt, að þessi dýrtíðaruppbót sje lofuð þeim. Erf þá skil jeg ekki, hví verið er að koma með hana í fjárlögin, nema svo sje, að aðeins sje um munnlegt loforð frá stjórninni að ræða.

Alþingi verður oft að neita efnalausum mönnum og sárþurfandi um lítilfjörlegan og rjettmætan styrk. Líka má t. d. benda á það, að skamt er síðan felt var hjer í háttv. deild að auka dýrtíðaruppbót embættismanna í Reykjavík, og munu þó margir þeirra hafa verið þurfandi fyrir það.

Þegar litið er til þessa, held jeg, að rjett sje að hugsa sig tvisvar um áður en farið er að veita dýrtíðaruppbót á jafnhá laun sem hjer er um að ræða.

Þótt bankastjóri Björn Sigurðsson væri tekinn úr bankanum á stríðsárunum til þess að gegna öðrum störfum fyrir ríkið, þá tel jeg ekki þörf á því þess vegna að veita honum dýrtíðaruppbót á þessi eftirlaun. Maður þessi er mjög vel að sjer og vel starfhæfur. Eru nú bankastjórastöður við Íslandsbanka lausar, og hygg jeg, að flestir mundu hyggja gott til, að þessi maður fengi þar pláss, og það þótt heilsa hans sje jafnvel ekki mjög sterk.

Hygg jeg líka, að heilsu hans mundi betur borgið, ef hann fengi nægileg laun til að lifa af, því þótt eftirlaun hans sjeu nú há, þá munu þau tæpast nægja til að lifa af erlendis og starfa ekkert.

Hygg jeg, að rjettast væri að vinna að því að útvega þessum manni starf hjer heima, og afnema dýrtíðaruppbótina í því trausti, að það takist. En þó svo yrði ekki, get jeg ekki sjeð, að bankanum færist illa við þennan mann, að veita honum 4000 kr. eftirlaun fyrir ekki lengri tíma en hann vann í bankans þágu. Er víða farið knappara í fjárveitingum, t. d. þegar bláfátæku fólki er neitað um nokkur hundruð. Trúi jeg ekki öðru en háttv. deild verði mjer sammála um að fella niður þessa dýrtíðaruppbót.