18.04.1923
Neðri deild: 45. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 943 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

1. mál, fjárlög 1924

Forsætisráðherra (SE):

Það er rjett, sem háttv. þm. (LH) sagði, að það eru margir, sem þurfa að halda á fjárstyrk og dýrtíðaruppbót. En nú er búið að lofa þessu, og þá er ekki annað eftir en standa við það. (Nokkrir þm.: Þingið hefir aldrei lofað því), Jú, það hefir með samþykki sínu á athugasemdinni í fjárlögunum lofað þessu. Háttv. þm. sagði, að það mætti koma til mála, að þessi maður yrði gerður að bankastjóra við Íslandsbanka. Það tel jeg í sjálfu sjer góða uppástungu, og jeg tryði honum mjög vel fyrir því starfi. En því er nú ver, að heilsa hans er of mjög biluð til þess, að hann geti tekið að sjer slík störf. Svo leist mjer á, er jeg talaði við hann síðast í Kaupmannahöfn! Björn spurði mig að, hvort jeg teldi líklegt, að hann yrði sviftur þessari upphæð, en jeg kvað það alls ekki vera mögulegt. Mig tæki það tvöfalt sárt að svifta þennan mann, sem hefir unnið svo þarft starf ytra í þjónustu landsins og eyðilagt heilsu sína á því, svifta hann þessari litlu upphæð, þegar einu sinni er búið að lofa honum henni. Það er vert að geta þess, að því er við brugðið, hversu sparlega Björn Sigurðsson hefir farið með fje landsins, auk hinna miklu verka sinna sem sendimaður. En það starf hans hefir mest verið í leyni gert, svo að það ber ekki eins mikið á því og skyldi, og gerir það að verkum, að það er miklu síður hægt að rökstyðja, hversu mikið gagn hann hefir unnið landi og þjóð.